Færsluflokkur: Bloggar
15.1.2008 | 23:05
Snjór bernskunnar
Hér hefur snjóað og snjóað í dag og man ég ekki eftir svo miklum snjó hér á bæ (en ég man reyndar ekki fyrir horn svo það er kannski ekki skrítið ). Þetta er svona dagur sem maður á bara að vera innivið með góða bók og helst heitt kakó.
Fór að hugsa um það í dag þegar ég horfði út um gluggann og gat einungis séð fyrir mér ófærð og leiðindi að það væri af sem áður var. Fór að hugsa um snjó bernskunnar. Horfði út um gluggann í dag og sá snjó hrúgast upp í háum sköflum, snjóaði í gríð og erg og éljaði inn á milli. Mundi eftir því að sem barn var þetta algjört uppáhaldsveður og mamma þurfti að hafa mikið fyrir því að ná okkur krökkunum inn til að fóðra okkur. Stundum tókst það meira að segja ekki og í staðinn fengum við heitt kakó á brúsa og samlokur til að halda okkar eigin veislu í snjóhúsinu flotta sem búið var að byggja í það skiptið. Snjórinn var aldrei skemmtilegri en einmitt í svona stórum sköflum eins og hafa myndast hér í dag og smá él inn á milli. Var svo gaman að búa til snjóhús og sitja svo þar með kakó og horfa á élin. Eða bara vera úti og hamast í snjónum og búa til snjókalla eða annað.
Ég var mjög heppin tel ég að fá að alast upp í sveit og það veitti okkur krökkunum einnig þann munað að hafa snjóinn okkar óhreyfðan af snjómoksturstækjum og slíku. Því fengum við oft heilu breyðurnar og skaflana til að leika okkur í dag eftir dag án þess að þeir yrðu svartir af tjörumengum og fleiru.
Við þessar hugsanir mínar fann ég að viðhorfið gagnvart snjónum í dag breyttist og ég gat ekki annað en bara brosað og lá við að ég stykki bara út að ærslast eins og barn. Ef ekki hefði verið fyrir lítið kvefað stelpuskott hefði ég nú bara skellt mér út í næsta skafl. Vona bara að það verði lygnara á morgun svo við stelpuskottin getum farið út í snjóinn í smá stund. Þannig að ef að þið sjáið tröll vera að veiða lítið stelpuskott upp úr skafli hér austan heiða þá er aldrei að vita nema það séu við mæðgur á ferð
Hér eru myndir af snjósköflunum sem sjást út um stofugluggann (og já ég veit að jólin eru búin )
Svona var þetta í morgun og svo snjóaði og snjóaði
Og þegar fór að dimma var ástandið orðið svona (gleymdi að taka mynd í hina áttina líka)
Hvet ykkur lesendur góðir til að í stað þess að blóta snjónum og ófærðinni hugsið um snjó bernskunnar í staðinn og þá er ég viss um að brosið læðist fram
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
13.1.2008 | 17:10
Yndislegir bloggvinir
Ég verð að viðurkenna að ég þrjóskaðist lengi við að stofna moggablogg og hafði því lengi vel ýmislegt til foráttu. Sagði meðal annars að mér virtist þetta vera lítið annað en samfélag fólks sem kepptist um að vera sem háfleygast um menn og málefni og safna að sér sem lengstum bloggvinalista og þannig væri það í einskonar vinasamkeppni. Ákvað þó að ekki gæti ég haft slíka fordóma gagnvart einhverju kerfi og hópi án þess að hafa prófað og skráði mig því fyrr í vetur í þetta samfélag.
Verð að viðurkenna að ég hafði að miklu leiti rangt fyrir mér. Vissulega finnst hér inni fólk sem virðist helst vera í vinasamkeppni en flestir hér inni eru yndislegt fólk sem virkilega les blogg bloggvinanna og hér hef ég einnig séð að myndast oft góður og innilegur vinskapur. Ég hef fræðst mikið um ýmis málefni með því að lesa bloggin hérna og eignast góða vini sem ég hef ekki einu sinni séð í raunheimunum. Já stundum er undarlegt að finna slíkan vinskap og hlýhug frá persónum sem maður hefur aldrei hitt en yndislegt er það og í framtíðinni mun ég vonandi hitta sem flesta og hlakka til
Hér hef ég einnig fundið ættingja, gamla kunningja og vini ásamt nýjum vinum. Hópur einstaklinga sem mér finnst mjög gaman að lesa skrifin frá. Bloggvinalistinn minn lengist og lengist en ekki er það vegna einhverrar samkeppni heldur áhuga míns til að fræðast um menn og málefni sem gerir að stundum bið ég um að gerast bloggvinur einhvers svo ég geti betur fylgst með skrifum viðkomandi. Einnig hafa margir beðið um að gerast minn bloggvinur og er það nú yfirleitt auðsótt mál og þannig hef ég einnig kynnst enn fleirum áhugaverðum persónum. Sum bloggin heimsæki ég daglega og hlakka alltaf til að lesa eitthvað nýtt frá viðkomandi því hann eða hún hefur einstakan hæfileika til að hrífa mig (og aðra) með skrifum sínum. Ég verð samt að viðurkenna að ég er ekki rosalega dugleg að kvitta og skil ekki nærri alltaf eftir mig spor í kommentakerfi viðkomandi Önnur blogg fer ég sjaldnar inn á en reyndi þó alltaf að fara yfir allan bloggvinalistann 2-3 sinnum í viku. Ekki er það að ég fer sjaldnar inn á blogg sumra vegna þess að þeir séu eitthvað minna virði í mínum huga heldur er nú tímaleysið sem sér til þess. Listinn orðinn svo langur að það tekur tíma að fara í gegn um hann allan. Ekki tími ég þó að eyða út af honum þar sem mér finnst einstaklega gaman að lesa allt það sem bloggvinir mínir skrifa hér.
Þessi lestur vekur oft hlátur í huga mér og stundum sit ég hér við tölvuna og hreinlega græt af hlátri. Stundum eru það líka sorgartár sem renna niður. Oft læri ég eitthvað nýtt við lesturinn og fræðist um nýja hluti og ávalt finnst mér lesturinn gagnlegur fyrir fróðleiksfúsa kerlu
Ég hef þó eitt sinn fljótlega eftir að ég fór að blogga hérna setið og roðnað við lesturinn en það var þegar ég las að góður bloggvinur hann Gunnar hefði valið mig sem bloggvin októbermánaðar. Það kom mér mjög á óvart þar sem í þessu samfélagi finnast svo frábærlega góðir pennar. Ég var og er hins vegar mjög stolt yfir þessum titli. Enn meira roðnaði ég þó áðan þegar ég las á blogginu hans að ég hefði verið valin áhugaverðasti bloggvinur ársins. Ég hreinlega veit ekki alveg hvernig ég á að þakka þennan heiður. Vil samt þakka þér kæri vinur fyrir þennan heiður og auðvitað þakka ég líka þeim sem kusu mig. Takk þið yndislegu bloggarar. Ég vona að ég standi nú undir merkjum og haldi áfram að fjalla um málefni sem vekja áhuga ykkar.
Það er mér reyndar mjög mikils virði að frásagnir mínar af minni reynslu skuli ná til ykkar. Von mín hefur ávalt verið sú að reynsla mín verði til að almenningur læri eitthvað af henni og augu ykkar opnist fyrir því sem svo oft gerist í ofbeldissambandi og hví svo erfitt getur verið fyrir þann sem því er beittur að slíta sambandinu. Einnig vona ég að almenningur læri að þekkja einkenni ofbeldis og þannig verði erfiðara fyrir ofbeldismenn að stunda iðju sína á bak við luktar dyr og í þögninni. Það veldur einungis því að ofbeldið þrífst enn frekar. Ofbeldi nefnilega á ekki að þegja í hel heldur er mun vænlegra að tala það í hel.
Því mun ég halda áfram að fjalla um ýmsar hliðar þessa málefnis og þannig stuðla að því að æ fleiri fræðist um þessi mál og þannig geti hjálpað til við að uppræta ofbeldi. Já ég á mér draum eins og King sagði eitt sinn. Draum um samfélag laust við ofbeldi. Vissulega segja margir að slíkt sé óraunhæfur draumur en ég held samt sem áður fast við þann draum. Því framfarin og þróun byrja einmitt með draumum
Kæru bloggvinir og aðrir. Það er því ósk mín að þið hjálpið mér að stuðla að bestu forvörninni sem er að tala opinskátt um þessi málefni af heiðarleika.
- Þannig læra fleiri og fleiri að þekkja einkennin og vonandi sjá þau það fljótt að viðkomandi festist ekki í vítahring ofbeldis.
- Þannig læra fleiri og fleiri að þekkja einkenni ofbeldissambands og geta stutt viðkomandi til að byggja sig upp og þannig betur í stakk búin að raunverulega velja hvort hann/hún vilji halda áfram að vera í sambandinu eða fara í burtu.
- Þannig hafa þeir sem eru fastir í vítahring ofbeldis fleiri möguleika á að sjá að það finnst hjálp og að slíkt samband er ekki eðlilegt.
- Þannig komum við best í veg fyrir þá fordóma sem hafa verið og eru því miður enn að einhverju leiti í samfélaginu gagnvart þolendum ofbeldis.
- Þannig komum við ábyrgð ofbeldisins þangað sem hún á heima - hjá ofbeldismanninum/konunni en ekki þolandanum.
- Þannig fræðum við komandi kynslóð um ofbeldi og einkenni þess og komum í veg fyrir að svo margir festist í þeim vítahring.
Takk fyrir mig og takk fyrir heiðurinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
8.1.2008 | 15:25
Ofurhetjur leikskólanna
Ég var að lesa fréttablaðið og þar á forsíðu er fjallað um að enn sé ástandið á leikskólum þannig að börn séu send heim vegna manneklu. Varð hugsað til greinar sem ég skrifaði og var byrt í morgunblaðinu árið 1999 þegar ég starfaði sem leikskólakennari. Fann greinina og sá að því miður á hún jafn vel við í dag og þá. Þá hélt ég mig vera að fjalla um tímabundið ástand en því miður virðist það ástand vera orðið nokkuð varanlegt.
Hér kemur greinin.
Ofurhetjur leikskólanna
Er ekki tími til kominn að gera ráðstafanir til að hækka laun starfsfólks leikskóla, spyr Hjördís H. Guðlaugsdóttir, svo að þar geti skapast ró.
Eru ofurhetjurnar börnin á leikskólunum? Þau eiga svo sannarlega skilið þennan heiðurstitil. Þau þurfa að þola sífelldar mannabreytingar - undirmönnun og tímaleysi. Það er langt í frá auðvelt fyrir tveggja ára barn að þurfa að læra að treysta fullorðna fólkinu þegar það neyðist til að vera sífellt að kynnast nýju og nýju starfsfólki. Jafnvel nokkrum nýjum í hverjum mánuði. Svo loksins þegar barnið er farið að þekkja nafn viðkomandi starfsmanns hverfur hann úr lífi þess fyrirvaralaust og hefur jafnvel ekki fyrir því að kveðja. Það er heldur ekki auðvelt þegar að enginn hefur tíma til að sinna barninu eins og skyldi vegna þess að starfsfólkið hefur (því miður) aðeins tvær hendur og er með fangið fullt af öðrum börnum sem einnig þurfa huggun og athygli. Hvernig á barnið að mynda sér rétt lífsviðhorf, þegar fullorðna fólkið sem það umgengst er stressað, útbrunnið og þreytt.
En kannski eru ofurhetjurnar starfsfólk leikskólanna? Það eru langt í frá góð vinnuskilyrði þegar, eins og því miður er allt of oft staðreyndin, aðeins einn af fastastarfsmönnum deildarinnar er við vinnu. Ef heppnin er með hafa komið 1-2 af öðrum deildum til hjálpar og þar af leiðir að fleiri deildir eru undirmannaðar. Kröfurnar eru samt sem áður þær sömu og áður. Þú átt að ausa af visku þinni, gleði og mannauði jafnt sem áður. Sjá til að daglegt starf deildarinnar gangi sinn vanagang þrátt fyrir undirmönnun og starfsfólk til hjálpar sem ekki er vant reglum og venjum deildarinnar og bætist því við að leiðbeina þeim. Það er nauðsynlegt að leggja inn auka skammt af þolinmæði og það stóran, því að börnin eru óörugg og ör þar sem að nýtt og ókunnugt fólk hefur enn eina ferðina tekið að sér að sinna þörfum þeirra. Samt sem áður má ekki gleyma að geisla af gleði og lífsorku því þannig vilja foreldrar auðvitað að þeir sem sjá um það dýrmætasta sem þeir eiga komi fram.
Kannski væri þetta allt gerlegt ef vitað væri um að í mesta lagi 1-2 vikur væri að ræða. En þegar ástandið varir í vikur og mánuði og ekki er hægt að sjá fyrir um hvenær ástandið batnar er það aðeins ofurhetjum gerlegt og jafnvel þær eiga líka sína slöku daga. Og ekki er einu sinni hægt að slaka á um helgar, því þá hefur starfsfólkið áhyggjur af því hvort allir mæti til vinnu eftir helgina eða kannski hafi einhver ákveðið að nú væri nóg komið og farið annað í betur launaða og auðveldari vinnu. Og staðreyndin er sú að þetta gerist allt of oft og hafa margir ekki einu sinni fyrir því að hringja og láta vita að þeir komi ekki aftur.
Eins og sjá má er listinn yfir þá sem að kallast geta ofurhetjur leikskólanna langur og hægt væri að bæta við hann. Er ekki tími til kominn að gera ráðstafanir til að hækka laun starfsfólks leikskóla svo þar geti skapast ró - vinnugleði og öryggi og það á stað þar sem svo mikilvægur þáttur í lífi barna okkar fer fram. Það eru nú einu sinni þau sem eru framtíðin og okkar að sjá til þess að hún byggist á traustum grunni.
Höfundur er leikskólakennari á Bakkaborg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.1.2008 | 10:08
Að drekka í hófi??
Ég rak upp stór augu við lestur þessarar fréttar vegna eftirfarandi setningar: "Stig voru gefin fyrir að reykja ekki, stunda reglulega hreyfingu, borða fimm skammta af ávöxtum og grænmeti á dag og drekka í mesta lagi sem svarar sjö vínglösum á viku."
Er það að drekka í hófi að drekka allt að 7 vínglös á viku?? Jahérna mér finnst það nú bara vera mikið. 7 glös af víni í hverri viku er nú ansi mikið yfir ævina Vissulega hafa komið tímabil í lífi mínu þar sem ég hef skvett slatta í mig um nokkrar helgar í röð jú jú. En þrátt fyrir það þá finnst mér samt (sem betur fer) skemmtilegast bara að skemmta mér edrú og ég tala nú ekki um muninn daginn eftir
Man fyrir nokkrum árum að þá fórum ég og vinkona mín út að skemmta okkur og dansa um flestar helgar og jafnvel sumar helgarnar föstudag og laugardag. Létum eins og kjánar og fífluðumst og flissuðum og dönsuðum frá okkur allt vit. Ekki var það óalgengt að í lok kvölds (eða oft nætur) að samferðamenn misstu hökuna niður á maga þegar við settumst undir stýri og ókum heim. Já við vorum nefnilega yfirleitt ekki á neinu sterkara en bara lífinu sjálfu og hreinu íslensku vatni þrátt fyrir að geta skemmt okkur þannig að flestir héldu að við hefðum drukkið áfengi. Hví er hugsunarhátturinn þannig að ef einhver getur skemmt sér og fíflast á skemmtistað þá hljóti sá hinn sami að vera drukkinn?
En eins og ég sagði þá hafa einnig komið tímabil sem ég skvetti vel í mig. Þrátt fyrir það hljóma 7 vínglös á viku (meðaltal) í mínum huga sem mjög mikið og ekki beint heilbrigður lífsstíll eins og þessi frétt fjallar um
14 árum lengra líf með heilbrigðum lífsstíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.1.2008 | 10:30
Stress samfélagsins??
Er það hraðinn og stressið sem gerir að fólk stoppar ekki til að aðstoða manneskju í neyð? Er virkilega svo að fólk má ekki vera að því að stoppa eða er kannski svarið að finna að það má hreinlega ekki vera að því að horfa í kring um sig?
Er þetta kannski afleiðing eiginhagsmunahyggju nútímans frekar? Fólk gefur sér ekki tíma til að huga að náunganum vegna þess að það er svo fast í að hugsa um eigin frama.
Hver sem ástæðan er þá er hreinlega ömurlegt að svo skuli vera komið í okkar samfélagi að fólk í neyð fær ekki hjálp strax.
Margir óku framhjá slösuðum manni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.1.2008 | 09:01
Að elska glansmynd eða hið raunverulega?
Ég hef svo mikið ver að spá í einn hlut undanfarið og ákvað að reyna að koma þeim hugsunum á blað og sjá hvort ég fái ekki smá viðbrögð og pælingar frá ykkur líka.
Ég semsagt hef verið að spá í þetta með að elska einhvern. Eða kannski meira þetta að halda að maður elski einhvern. Ég hef svo oft í gegn um mín samskipti við þolendur ofbeldis til dæmis heyrt setningu sem svo: "Ég elska hann þrátt fyrir allt". Þá er verið að tala um að viðkomandi elski mann sem hefur jafnvel beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi í mörg ár, en þrátt fyrir það segist viðkomandi elska manninn.
Ég sagði þetta líka. Það reyndar var ein af stóru ástæðunum fyrir því að ég fór ekki frá mínum ofbeldismanni fyrr en ég gerði. Ég nefnilega sagðist elska hann þrátt fyrir allt og meira en sagðist elska hann ég stóð í staðfastri trú um að ég elskaði manninn. Þrátt fyrir að hann hafði beitt mig andlegu og líkamlegu ofbeldi í mörg ár og síðustu árin var það daglegur viðburður þá sagði ég einmitt að ég elskaði manninn. Elskaði hann ÞRÁTT fyrir það sem hann hafði gert mér.
Það var svo nokkrum mánuðum eftir að ég loksins hafði þrek í að slíta sambandinu að ég fór að skoða þessar tilfinningar mínar í kjölinn og spurja sjálfa mig hvort ég virkilega elskaði hann. Svarið kom svona smátt og smátt hjá mér og fyrir mig. Ég ætla að taka það fram að hér er ég að tala um mína hlið og get ekki svarað fyrir þær/þá sem segja þetta einnig þrátt fyrir ofbeldi. Ég get einungis talað út frá mér en velti því jafnframt fyrir mér hvort að ást hinna geti verið af svipuðum rótum sprottin??
Ég semsagt komst að því að ég vissulega elskaði manninn. En ég elskaði ekki manninn eins og hann var í raun heldur elskaði ég einhverja glansmynd af honum sem ég hafði búið til í huga mér og óskaði ávalt að hann væri. Í huga mér elskaði ég blíðan og góðan mann sem virti mig, elskaði og studdi. Staðreyndin var hins vegar sú að jú vissulega hafði hann í byrjun sýnt af sér eitthvað af þessum manni en þessi maður hvarf smátt og smátt og í staðinn byrtist ofbeldismaður sem vanvirti mig og svívirti í hvívetna. Ég hins vegar var í sterkri afneitun lengi vel um hvaða mann hann var í raun og veru að sýna og elskaði bara glansmyndina enn heitar og næstum af þráhyggju. Að lokum viðurkenndi ég þó að ofbeldismaðurinn var sá sem var ríkjandi og smátt og smátt viðurkenndi ég einnig að hann var ekki sá sem ég vildi búa með og loks fékk ég styrk til að slíta þeirri sambúð. Þrátt fyrir þetta var ég enn með glansmyndina að einhverju leiti fyrir augunum þegar ég horfði á manninn og sagðist því elska hann.
Það er mjög stórt bil á milli þess að elska raunverulegan mann eða elska glansmynd. Glansmyndinn er jú auðvitað ekki til nema í huga þér en hinn raunverulegi maður er sá sem þú býrð með. Þegar svo bilið er svo langt á milli þessara manna eins og það var til dæmis í mínu tilfelli þá er enginn möguleiki á að slíkt samband gangi.
Í dag sé ég líka enn betur muninn á þessu tvennu. Að elska einhvern vegna glansmyndar sem maður hefur þurft að búa til í huga sér af honum vegna þess að raunveruleikinn er svo allt, allt annar - eða elska einhvern vegna þess mann sem hann í raunveruleikanum ER.
Í dag elska ég manninn sem ég er gift einmitt VEGNA þess hver hann er. Elska hann vegna þess hve yndislegur maður hann er, elska hann vegna þess hve blíður og hreinn og beinn hann er, elska hann vegna þeirrar virðingar sem við berum hvort fyrir öðru, elska hann vegna þess hve góður pabbi hann er og svo gæti ég lengi haldið áfram.
Ég semsagt elska hann VEGNA þess hver hann er en ekki ÞRÁTT fyrir hver hann er. Stór munur þar á.
Ég vona að þið skiljið hvað ég er að fara með þessum hugleiðingum og gaman væri að fá að heyra ykkar viðbrögð. Endilega kommentið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.1.2008 | 19:09
Forsetakosningar
Ég get ekki orða bundist varðandi framboð Ástþórs 2000 kalls. Getur maðurinn ekki fattað að sem betur fer eru íslendingar gáfaðri en svo að vilja hann sem forseta? Sem betur fer látum við ekki bjóða okkur slíkan fíflagang hjá forseta vorum eins og hann hefur sýnt af sér. Ekki vildi ég sjá forsetann koma útataðan í tómatsósu einn daginn til dæmis.
Ætlar Ástþór líka að koma með nýja konu inn í þessar kosningar eins og hann hefur gert í síðustu skipti? Finnst líka að sá sem býður sig fram til forseta eigi í það minnsta að vera búsettur á landinu en ekki erlendis eins og hann hefur vísst verið undanfarið.
Ég er svo reið yfir að honum skuli leifast að eyða peningum okkar skattborgara aftur og aftur þegar ljóst er að það hefur enginn áhuga á að fá hann sem forseta.
Á ég ekki bara að safna meðmælendum og bjóða mig fram?? Hver vill vera á þeim lista? *glott* Ég get allavega lofað ykkur að koma ekki fram í tómatsósuútötuðum fötum haha - gæti hins vegar lent í því að koma fram með hor á öxlinni eða ælu eftir skottið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.1.2008 | 09:22
Nýtt ár ný tækifæri
Já það er ekki alveg laust við að ég líti jákvæðum augum á komandi ár og áramóta heit mitt í ár er að hafa þetta frábært ár og síðustu áramótaheit mín hafa verið að gera árið enn betra en síðasta ár. Ég ætla mér að halda þessu áramótaheiti þrátt fyrir að ég viti að það verður MJÖG erfitt að toppa síðasta ár. Árið 2007 reyndist mér nefnilega eitt besta og gjöfulasta ár lífs míns hvorki meira né minna
En þrátt fyrir það ætla ég að halda áfram að sigrast á þeim viðfangsefnum sem lífið réttir mér og ÞAÐ er einmitt það sem gerir að árin verða góð. Ég las leiðsögn okkar Búddista (já ég er Búddisti) fyrir nýársdaginn og ákvað að sú leiðsögn muni fylgja mér þetta árið. Leiðsögnin hljómar svona: "Þeir sem vakna hvern morgun og hafa verk að vinna og áætlunarverk að uppfylla eru hamingjusamastir allra. Fyrir okkur er hver dagur, dagur æðsta tilgangs og fullnægju. Fyrir okkur er hver dagur nýársdagur. Vinsanlegast leggið ykkur fram til hins ýtrasta með þeim ásetning að lifa hvern dag til fulls, svo þið megið skrifa dagbók lífsins til fulls." Já ég ætla mér að skrifa dagbók lífsins til fulls og mun því nýta hvern einasta dag til fulls.
Síðasta ár hófst nú eins og ég sagði við mann minn um þessi áramót með ögn þyngri og ögn pirraðri frú en þetta árið. Síðustu áramót var ég ófrísk af frumburðinum og áramótin gengu í garð með mjög svo bröltandi barn í bumbu og þreytta móður sem þurfti jú að fara á klósettið ca 100 sinnum á nóttu eins og lög gera ráð fyrir og því lítill svefn Áramótin gengu því í garð með þá ósk frá mér að barnið færi nú að láta sjá sig sem fyrst en ekki 22. janúar eins og sónar sagði. Hahaha já ég var full bjartsýni. Stuttu eftir áramótin var mér svo bannað að halda áfram að vinna og sagt að ég yrði nú að passa að hvíla mig og hvíla mig og hvíla mig meira ef ég ætlaði að sleppa við innlögn. Ekki skánaði skap frúarinnar við það, þar sem hangs er ekki mín sterka hlið og frúin vill hafa eitthvað að dunda sér við (eða dundur verður stundum meira en bara dundur). En allt var nú samt gert til að erfinginn yrði örugglega frískur og frúin lét sig því hafa þetta og meira að segja tók því þegjandi og hljóðalaust að ná ekki að mæta í fyrstu lotu misserisins í skólanum. Sat bara heima og reyndi að lesa og finna heimildir fyrir BA ritgerðina mína sem þó tókst ekki eins og vonir stóðu til þar sem heilastarfsemi frúarinnar snérist ekki um bækur. Var því í samráði við yndislegan leiðsögukennara minn ákveðið að ég frestaði útskrift til haustsins.
Janúar fór svo í gjörgæslu ljósmæðra á mér og erfingja og stundum fórum við allt að 3 heimsóknir á dag í tékk. Mér leið þó vel og skildi ekkert í þessu stressi en sennilega er ekki oft sem að ljósmæðurnar standa frammi fyrir því að vera með 44 ára frumbyrju í höndunum og þótti þeim því vissara að fylgjast vel með Heldur fór þó biðin að lengjast seinnipart mánaðarins en samt neitaði frúin að trúa gömlum draumi (sem mig dreymdi fyrir ca 15 árum síðan) og hafði verið ráðin þannig að barnið kæmi í heiminn þann 5. febrúar 2007.
Febrúar gekk í garð og enn sat erfinginn sem fastast í bumbunni móðurinni til lítillar gleði og sérstaklega þar sem fyrsta leikfangið var VEL notað sem trambolín (þvagblaðran). 5. febrúar var þó ákveðið að þessum legjanda yrði sagt upp og kastað út. Seinnipart 5. feb fussaði þó frúin og sagði drauminn rugl þar sem hún fann varla fyrir verkjum þrátt fyrir gangsetningu. Erfinginn sat samt sem fastast. Litlu seinna kom svo í ljós að erfinginn í orðsins fyllstu merkingu SAT sem fastast (skorðuð sitjandi) og því var ákveðið að skella mér í keisara. Kl. 18.08 þann dag hágrét ég svo af gleði í takt við litla stúlku sem kannski hefur samt ekki grátið af gleði Draumurinn gamli rættist því og næstu dagar og vikur fóru í sæluvímu foreldranna sem þurfti að binda niður með sterkri taug svo þau svifu ekki í burtu á sínu bleika skýi.
Vorið leið og tíminn fór í að hugsa um litla skottið og njóta þess í botn ásamt því að klára síðasta fagið í náminu mínu.
Sumarið fór svo að mestu í að skrifa BA ritgerðina (sem ég þó var þá þegar búin að leggja mikla vinnu í). Ritgerðin fólkst í rannsókn sem ég gerði á áhrifum ofbeldis á heilsu þolanda. Inngang ritgerðarinnar má sjá HÉR.
Í lok ágúst tók ég mér svo pásu frá ritgerðinni sem þá var nær fullkláruð og við skelltum okkur í smá frí hjónin ásamt litla skottinu. Yndislegur tími og þarfur sem að mestu var eytt í faðmi góðra vina á erlendri grundu.
Í september var ritgerðin svo kláruð og henni skilað og má með sanni segja að frúin var eins og sprungin blaðra eftir það af spennufalli.
Í október stóð upp úr að ég loksins útskrifaðist sem tómstunda og félagsmálafræðingur frá KHÍ.
Nóvember og desember hafa svo farið í að njóta þess að eyða tímanum með litla skottinu sem svo sannarlega veitir mömmunni næg verkefni og mikla gleði. Enda ekki annað hægt en að vera ávalt glaður í návist lítillar skottu sem er alltaf brosandi og hlæjandi. Hér er hver dagur nýttur í sigra og núna einbeitir frúin sér að því að aðstoða litla skottið við sína sigra. Sigrarnir eru margir og felast þessa dagana í að læra að tala, ganga, heilla umheiminn enn frekar og slíkum nauðsynjum
Þetta árið ætla ég að halda áfram að njóta með dóttur og eiginmanni ásamt því að sigrast á því sem lífið réttir mér í dagsins önn. Einnig er ætlunin að kynna nánar niðurstöður rannsóknarinnar sem ég gerði og fleiri stór verkefni bíða handan hornsins. Hver veit hvað maður tekur sér fyrir hendur en eitt er vísst að ég ætla mér að halda áfram að hafa lífið yndislegt. Það er mitt val og vona ég að slíkt val sé á færi sem flestra.
Til að auðvelda ykkur að ákveða að þessi dagur allavega verði góður ákvað ég að lofa ykkur að njóta yndislega brosins sem ég fæ að sjá oft á dag
Einnig vil ég þakka ykkur fyrir góðar móttökur hér á moggablogginu og óska ykkur margra sigra á árinu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.12.2007 | 11:07
Lengin fæðingarorlofs
Hvernig er það með það kosningarloforð?? Ríkisstjórnin lagði á það ríka áherlsu að lengja fæðingarorlofið á kjörtímabilinu. Síðan hefur ekkert um það heyrst meira. Ætli vonir standi til að kjósendur gleymi þessu loforði bara ef ekkert er minnst á það aftur?
Mér finnst allavega skrítið að ekki heyrist eitt aukatekið orð um þetta loforð þeirra. Eða hef ég kannski bara alveg misst af því að eitthvað hafi verið rætt um þetta kosningaloforð á þingi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.12.2007 | 10:51
Styrkjum Björgunarsveitirnar
Ef þið ætlið ykkur að kaupa flugelda þá vona ég að þið kaupið þá af Björgunarsveitunum en ekki einkaaðilum. Hún Jóna skrifar mjög góða færslu um þetta og er ég alveg 100% sammála henni og bendi ykkur á þessa færslu. Svo er að hafa það í huga að fara varlega með þennan varning svo engin slyls verði vegna þeirra. Sem betur fer eykst með ári hverju notkun hlífðargleraugna og viðeigandi hanska og eldspýtna en betur má ef duga skal. Stefnum að því að um þessi áramót verði engin slys vegna notkunar flugelda.
Annars voru jólin bara yndisleg á þessum bæ og eins og lög gera ráð fyrir þá var sofið (ekki of mikið reyndar þar sem skottið sér til þess að reka foreldrana á fætur), etið (allt of mikið jú jú) og tímans notið með fjölskyldu og vinum. Nú er ég hins vegar komin til vinnu og hversdagsleikinn svona um það bil að taka við. En það er nú bara fínt líka
Takk allir fyrir hlýjar kveðjur og ég vona að rest jólanna verði ykkur góð, áramótin sömuleiðis og nýtt ár beri ykkur gæfu og gott gengi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)