. - Hausmynd

.

Að elska glansmynd eða hið raunverulega?

Ég hef svo mikið ver að spá í einn hlut undanfarið og ákvað að reyna að koma þeim hugsunum á blað og sjá hvort ég fái ekki smá viðbrögð og pælingar frá ykkur líka.

Ég semsagt hef verið að spá í þetta með að elska einhvern.  Eða kannski meira þetta að halda að maður elski einhvern.  Ég hef svo oft í gegn um mín samskipti við þolendur ofbeldis til dæmis heyrt setningu sem svo: "Ég elska hann þrátt fyrir allt".  Þá er verið að tala um að viðkomandi elski mann sem hefur jafnvel beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi í mörg ár, en þrátt fyrir það segist viðkomandi elska manninn.  

Ég sagði þetta líka.  Það reyndar var ein af stóru ástæðunum fyrir því að ég fór ekki frá mínum ofbeldismanni fyrr en ég gerði.  Ég nefnilega sagðist elska hann þrátt fyrir allt og meira en sagðist elska hann ég stóð í staðfastri trú um að ég elskaði manninn.  Þrátt fyrir að hann hafði beitt mig andlegu og líkamlegu ofbeldi í mörg ár og síðustu árin var það daglegur viðburður þá sagði ég einmitt að ég elskaði manninn.  Elskaði hann ÞRÁTT fyrir það sem hann hafði gert mér.

Það var svo nokkrum mánuðum eftir að ég loksins hafði þrek í að slíta sambandinu að ég fór að skoða þessar tilfinningar mínar í kjölinn og spurja sjálfa mig hvort ég virkilega elskaði hann.  Svarið kom svona smátt og smátt hjá mér og fyrir mig.  Ég ætla að taka það fram að hér er ég að tala um mína hlið og get ekki svarað fyrir þær/þá sem segja þetta einnig þrátt fyrir ofbeldi.  Ég get einungis talað út frá mér en velti því jafnframt fyrir mér hvort að ást hinna geti verið af svipuðum rótum sprottin??

Ég semsagt komst að því að ég vissulega elskaði manninn.  En ég elskaði ekki manninn eins og hann var í raun heldur elskaði ég einhverja glansmynd af honum sem ég hafði búið til í huga mér og óskaði ávalt að hann væri.  Í huga mér elskaði ég blíðan og góðan mann sem virti mig, elskaði og studdi.  Staðreyndin var hins vegar sú að jú vissulega hafði hann í byrjun sýnt af sér eitthvað af þessum manni en þessi maður hvarf smátt og smátt og í staðinn byrtist ofbeldismaður sem vanvirti mig og svívirti í hvívetna.  Ég hins vegar var í sterkri afneitun lengi vel um hvaða mann hann var í raun og veru að sýna og elskaði bara glansmyndina enn heitar og næstum af þráhyggju.  Að lokum viðurkenndi ég þó að ofbeldismaðurinn var sá sem var ríkjandi og smátt og smátt viðurkenndi ég einnig að hann var ekki sá sem ég vildi búa með og loks fékk ég styrk til að slíta þeirri sambúð.  Þrátt fyrir þetta var ég enn með glansmyndina að einhverju leiti fyrir augunum þegar ég horfði á manninn og sagðist því elska hann.  

Það er mjög stórt bil á milli þess að elska raunverulegan mann eða elska glansmynd.  Glansmyndinn er jú auðvitað ekki til nema í huga þér en hinn raunverulegi maður er sá sem þú býrð með.  Þegar svo bilið er svo langt á milli þessara manna eins og það var til dæmis í mínu tilfelli þá er enginn möguleiki á að slíkt samband gangi.

Í dag sé ég líka enn betur muninn á þessu tvennu.  Að elska einhvern vegna glansmyndar sem maður hefur þurft að búa til í huga sér af honum vegna þess að raunveruleikinn er svo allt, allt annar - eða elska einhvern vegna þess mann sem hann í raunveruleikanum ER.

Í dag elska ég manninn sem ég er gift einmitt VEGNA þess hver hann er.  Elska hann vegna þess hve yndislegur maður hann er, elska hann vegna þess hve blíður og hreinn og beinn hann er, elska hann vegna þeirrar virðingar sem við berum hvort fyrir öðru, elska hann vegna þess hve góður pabbi hann er og svo gæti ég lengi haldið áfram.  

Ég semsagt elska hann VEGNA þess hver hann er en ekki ÞRÁTT fyrir hver hann er.  Stór munur þar á.

Ég vona að þið skiljið hvað ég er að fara með þessum hugleiðingum og gaman væri að fá að heyra ykkar viðbrögð.   Endilega kommentið Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 7.1.2008 kl. 10:49

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég held ég skilji þig! Ég held líka að það sé talsvert algengt að, sérstaklega konur, telja sér trú um að þær elski einhvern, ÞRÁTT fyrir hvernig hann er. Þegar auðvitað ætti að elska einstaklinga VEGNA þess sem þeir eru.

Flottur pistill hjá þér

Hrönn Sigurðardóttir, 7.1.2008 kl. 21:08

3 Smámynd: SigrúnSveitó

Skil þig 100%...been there...done that...

SigrúnSveitó, 8.1.2008 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband