. - Hausmynd

.

Miklar pælingar í gangi hér á bæ

Já síðustu dagar hafa verið eitthva ógurlega andlausir í sambandi við bloggskrif en þeim mun meira hefur heilinn starfað og spáð í lífið og tilveruna.  Ýmislegt sem ég hef verið að spá og rakst svo í morgun á gamalt plagg sem ég hafði eitt sinn gert fyrir fund okkar Búddista og fjallar um Karma.  Þetta er einmitt mikið í stíl við það sem hefur verið að brjótast um í mér síðustu daga og ákvað ég því að lofa ykkur að lesa þetta ykkur til fróðleiks.  Svolítið langt að vísu en vonandi samt eitthvað sem þið nennið að lesa í gegn um og láta mig vita hvað ykkur finnst.

 

Karma

 

Hvað er karma?

 

Margir hafa spáð mikið í hugtakið karma og ætla ég hér að fjalla smávegis um þetta hugtak og þá aðallega út frá Búddísku sjónarmiði en þó aðeins velta öðru fyrir mér líka.

 

Þegar við fæðumst þá erum við eins og óskrifað blað segir ein kenning um karma og síðan ræður líf okkar hvernig við þróumst.  Margar kenningar sem fjalla um karma fjalla um karma sem lögmál orsaka og afleiðinga þ.e. að allt sem við gerum, segjum og hugsum komi til baka til okkar sem afleiðing jafnvel þó það verði ekki  fyrr en í næsta lífi. 

Búddisminn talar um eilífit líf og jafnframt um að líf okkar er ekki að byrja hér og nú heldur höfum við lifað áður og jafnvel oft áður.  Það þýðir að við erum ekki að byrja okkar tilvist í þessu lífi.  Líf okkar hefur alltaf verið til í alheiminum, stundum sýnilegt og stundum ósýnilegt.  Það þýðir að samkvæmt Búddismanum fæðist maður ekki sem óskrifað blað heldur með áunnið karma frá fyrri æviskeiðum. 

Upprunaleg merking orðsins Karma er í raun verknaður sem seinna fékk merkinguna örlög sem einhver hefur skapað með verknaði sínum.  Allt sem við gerum, segjum og hugsum eru orsakir sem skapa afleiðingu fyrir líf okkar. 

Örlög og örlagatrú hefur lengi verið hægt að finna á íslandi og það í ríku mæli.  Sennilega er þó sá reginmunur á örlagatrú íslendinga og karma að flestir trúa á örlög en í þeirri merkingu að örlög séu eitthvað sem fyrirfram er ákveðið (misjanft af hvaða öflum fólk trúir að þessi örlög skapist) en örlög eru óbreytanleg. 

Karma hins vegar getum við samkvæmt Búddískum kenningum breytt með því hvernig við vinnum úr gjörðum okkar í núinu.  Það kallast að breyta eitri í meðal.  Segjum til dæmis sem svo að þú hafir gert þær orsakir að þú í dag sért að kljást við slæmar afleiðingar.  Vinnir þú úr því sem þú ert að gera í dag á jákvæðan og uppbyggilegann hátt fyrir þig sem og aðra ertu jafnframt að breyta slæmu karma í eitthvað sem er jákvætt.  Með því að vinna á jákvæðann hátt úr erfiðum aðstæaðum ertu að breyta erfiðleikum í ávinninga og þannig um leið að breyta karma þínu.  Á sama hátt er reyndar hægt að breyta karma til hins verra með því að til dæmis að nota ekki það sem upp kemur í daglegu lífi til jákvæðra hluta.  Þú getur verið í góðum aðstæðum en notar þær til að rífa niður líf þitt til dæmis.  Þarna er verið að breyta karma en á neikvæðann hátt. 

Búddisminn kennir okkur hins vegar að vinna að hamingju okkar og annarra og þar af leiðandi að vinna jákvætt úr öllum aðstæðum lífisins.  Því kennir Búddisminn okkur að takast á við erfitt og neikvætt karma og vinna úr því á jákvæðan hátt, bæði fyrir okkur sjálf og aðra.  Búddisminn segir að við höfum 3000 möguleika á hverju augnabliki.  Því er mikilvægt að vera ávallt meðvitaður um gjörðir sínar og hafa ávalt í huga að með því sem við gerum í dag erum við að skapa okkur framtíðina í dýpstu merkingu þess.  Búddisminn kennir okkur að láta ekki daglegt amstur og tilfinningar stjórna gerðum okkar, það er að láta til dæmis ekki stjórnast af karma eingöngu heldur hafa djúpstæða yfirsýn yfir aðstæður okkar eins og þær eru hverju sinni til að getað unnið sem best úr þeim fyrir okkar eigin og annarra hamingju.

Við þurfum að vera fær um að líta upp frá daglegum gjörðum og líta á hvað lífið hefur upp á að bjóða.  Sjá þau tækifæri sem það veitir okkur, líka þegar vandamál og erfiðleikar herja í lífi okkar.

Karma eru því ekki lögð á okkur af yfirnáttúrulegum öflum heldur erum það við sjálf sem sköpum okkur eigið hlutskipti.

Nichiren segir “ ef þú vilt skilja gjörðir þína í fortíðinni líttu þá á orsakir þínar í nútíðinni” og “ef þú vilt skilja það sem kemur til með að gerast í framtíðinni líttu þá  á orsakirnar sem þú ert að gera í nútíðinni”.  

Það sem þú ert að upplifa gerist vegna þess að þú hefur búið til þessar aðstæður með fyrri gjörðum þínum.  Þú getur aldrei kennt öðrum um aðstæður þínar því það ert aðeins þú sjálf/ur sem skapar þitt líf með þínum gjörðum.

Það er mikilvægt að hafa það í huga að með gjörðum þínu í dag ertu að skapa orsakir framtíðarinnar.  En jafnframt er mikilvægt að hafa í huga að þar liggur einmitt grundvöllur þess að þú ert fær um að breyta karma þínu.  Þú getur breytt karma þínu með því að takast á við þær orsakir sem þú ert að upplifa í dag.  Viljir þú skapa þér góða framtíð þá tekstu á við núið á jákvæðann hátt og skapar þannig góðar orsakir fyrir framtíðina.  Þannig getur þú jafnvel breytt slæmu karma.

Hins vegar verðum við líka að hafa í huga að oft getur þetta samband orsaka og afleiðinga ekki verið augljóst.  Til dæmis er stundum talað um að einhver manneskja virðist lifa í vellistingum og  auði þrátt fyrir að hún sé augljóslega að gera slæma hluti eða að manneskja sem er að vinna að góðum hlutum en uppsker aðeins erfiðleika.  Eða þá að börn fæðist í slæmum aðstæðum eins og fátækt og hungur og jafnvel fötlun.  Þarna getur oft verið erfitt að sjá fyrir sér lögmál orsaka og afleiðinga og þess vegna verðum við að kafa dýpra og skoða heildarmyndina. 

Við veljum sjálf þær aðstæður sem við fæðumst inn í og við fæðumst aldrei inn í aðstæður sem við erum ekki fær um að takast á við því við erum jú aðeins að takast á við afleiðingar okkar eigin orsaka.  Vorum við fær um að skapa þessar afleiðingar þá erum við jafnframt fær um að takast á við orsakirnar. 

Fólk er líka mjög gjarnt á að líta á ytir aðstæður og gleyma að líta á heildarmyndina.  Til dæmis getur barn fætt inn í fátækt og hungur upplifað mun meiri gæfu og gleði en manneskja sem lifir við vellistingar. 

Síðan gleymum við oft að horfa á lífið með það í huga að það er eilíft.  Gleymun að taka það inn í myndina að manneskjan á eftir að fæðast aftur og aftur og jafnvel afleiðingar þess sem hún framkvæmir ekki í þessu lífi séu sýnilegar okkur hér þá er 100% öruggt að viðkomandi fær orsakirnar seinna.  Karmalögmálið er algilt og réttmætasti dómari okkar allra.  Við getum verið viss um að manneskjan sem virðist einungis fá erfiðleika fyrir góðar gjörðir sínar mun uppskera vel þó í síðara lífi verði og eins er það með manneskjuna sem virðist lifa í vellistingum þrátt fyrir slæmar gjörðir.

Sumum finst þetta lögmál orsaka og afleiðinga mjög grimmt en það er í raun mjög jákvætt.  Lítum á þetta sem svo að okkur er algjörlega í vald sett okkar eigin framtíð.  Við getum algjörlega valið okkar eigið líf með gjörðum okkar.  Hvað er betra en það?  Við getum valið að eiga gott og hamingjuríkt líf, ef við aðeins sköpum góðar orsakir.  Einu megum við heldur ekki gleyma í sambandi við erfiðleika og vandamál, þau eru til að þroska okkur og kenna okkur.  Stundum þurfum við að ganga í gegn um erfiðleika til að öðlast skilning á jákvæðum hliðum lífisin.  Stundum þurfum við að ganga í gegn um erfiðleika til að breyta viðhorfi okkar og finna styrk okkar.

Búddisminn kennir líka að oft veljum við að ganga í gegn um erfiðleika til að þroska okkur svo við séum færari að vinna að hafmingju annarra á eftir.

Í bréfinu “að létta afleiðingar karmískra misgjörða” segir Nichiren til dæmis: “Sé djúpstætt karma manns úr fortíðinni ekki upprætt í þessu lífi verður hann að líða þjáningar helvítis í framtíðinni en ef hann upplifir mikla erfiðleika í þessu lífi, munu þjáningar helvítis hverfa samstundis.” 

Þarna er hann einmitt að tala um mikilvægi þess að takast á við þá erfiðleika sem á vegi okkar verða á jákvæðan hátt.  Um möguleika þess að breyta neikvæðu karma.

 

Ég get tekið eitt persónulegt dæmi um hvernig er hægt að takst á við erfiðleika á mismunandi hátt:  þegar ég var í sambandi við mann sem beitti mig andlegu og líkamlegu ofbeldi horfði ég á lögmál orsaka og afleiðinga á þann hátt að ég hlyti að vera mjög slæm persóna að hafa skapað þær orsakir að þurfa að upplifa svona ömurlegar aðstæður sem mér fanst ég vera í.  Þessi hugsun var mjög neikvæð og lamandi, ég sá ekki þá jákvæðu möguleika sem ég hafði í þessari stöðu og fanst ég bara vera föst og leitaði því engra útgönguleiða.  Leit á þetta sem refsingu sem ég yrði bara að ganga í gegn um.  Með þessari hugsun sá ég til þess að ég var mun lengur í sambandinu en ég þurfti.  Síðan ákvað ég að taka ábyrgð á mínu lífi og taka stjórn á þeim aðstæðum sem ég var í.  Ég hætti að horfa á karma sem eitthvað sem mér væri fyrirmunað að breyta og ákvað að breyta mínum aðstæðum.

Í dag er ég þess fullviss að ég valdi sjálf að ganga í gegn um þessa  reynslu.  Vissulega erfið reynsla já en hún kenndi mér að finna styrk minn, vinna mig út úr aðstæðunum á jákvæðan hátt og vinna að hamingju sjálfs míns og annarra.  Þessi reynsla kenndi mér að forðast ekki vandamál og erfiðleika heldur takast á við þá og sigra á jákvæðan hátt.  Ef ég hefði aldrei gengið í gegn um þessa erfiðleika sjálf væri ég ekki að vinna í að opna umræðuna um heimilisofbeldi í þjóðfélaginu í dag og vinna að hamingju þeirra sem hafa gengið í gegn um svipað.  Í dag vinn ég úr lífi mínu á jákvæðan hátt og reyni ávallt að finna bestu leiðina fyrir hamingju mína og annarra.  Vissulega mistekst mér stundum en ég lít ekki á það sem refsingu við mig heldur sem leið til að kenna mér.

Ég hefði getað haldið áfram að horfa á aðstæðurnar á neikvæðan  hátt og látið aðstæðurnar stjórna mér í stað þess að ég valdi að taka stórn á lífi mínu og vinna jákvætt úr því.  Ég valdi semsagt að taka ábyrgð á mínu  lífi að horfa á reynsluna frá búddísku sjónarmiði í stað þess að horfa á þær með neikvæðum augum og jafnframt leitast við að sjá karmalögmálið á neikvæðan refsandi hátt.  Þannig að í dag lít ég á þessa erfiðu reynslu sem góða orsök því hún kenndi mér að takast á við erfiðleika á jákvæaðan og skapandi hátt fyrir mig og aðra sem og að uppgötva styrk sem ég vissi ekki að ég hefði til að bera.  Því er hægt að sjá að aðstæður sem virðast vera mjög slæmar í dag þurfa ekki endilega að vera það.  Þær geta orðið til mikilla hamingju í lífi viðkoamndi seinna.  Og þá er hægt að spurja, var þessi orsök svo slæm í raun?  Var hún ekki bara góð?

Það sem við þurfum einmitt að hafa í huga er að við erum 100% ábyrg á eigin lífi og til þess að öðlast gott karma þurfum við að leggja mikið á okkur að vinna jákvætt út úr öllum aðstæðum.  Það þýðir ekki bara að afsaka vandamál og erfiðleika með því að við séum að takast á við slæmt karma.  Við verðum að leggja á okkur og takast á við vandamálin á jákvæðan hátt og þannig breyta karma okkar sem og að skapa okkur góða framtíð.  Aðeins þannig getum við verið viss um að skapa okkur góða framtíð. Þessi búddismi er einmitt að kenna okkur að breyta eitri í meðal, eða takast á við erfiðar aðstæður á jákvæðan og skapandi hátt. 

Á sama hátt verðum við að hafa í huga að þegar við erum að upplifa góðar afleiðingar gjörða okkar og líf okkar er í góðum farvegi þýðir það ekki að við getum hætt að hafa fyrir því að skapa okkur góða framtíð.  Ef við tökum bara á móti góðu karma og hugsum ekki um að skapa góðar orsakir fyrir framtíð okkar er hætt við að við séum einmitt að skapa slæma framtíð.  Búddisminn nefnilega kennir að við eigum ekki einungis að vinna að eigin hamingju heldur jafnframt hamingju annarra.  Ef við gleymum okkur í að njóta eigin hamingju án þess að vinna að hamingju annarra erum við ekki að skapa bestu orsakir sem við getum gert og þar af leiðandi ekki að skapa það góða karma sem við ættum völ á. 

Búddisminn kennir okkur að við þurfum sífellt  að hafa í huga lögmál orsaka og afleiðinga, hvort sem um er að ræða þegar við tökumst á við vandamál eða hamingju.

Við þurfum líka að hafa það í huga að gleyma ekki að skoða allar aðstæður með karmalögmálið í huga.  Til dæmis að skoða aðstæður fólks í kring um okkur á djúpstæðan hátt til að reyna að sjá heildarmyndina á lífi þess.  Það er ekki vísst að manneskjan sem virðist lifa við fátækt og hungur sé að upplifa óhamingju.  Og er hún þá í raun að upplifa það slæma karma sem við oft dæmum vegna þess að við horfum á vealdlegar aðstæður hennar á vestrænann hátt?

 

Karma er í raun mjög einfalt og kennir okkur það að aðeins við sjálf berum ábyrgð á okkar lífi.  Á sama tíma er karma mjög djúpstætt og flókið. 

Sjálf horfi ég á karma  mjög  jákvætt því hvað er betra en gjöfin að getað fullkomlega valið hvernig líf mans verður...... um alla eilífð!  Karma er þó eitthvað sem getur verið mjög erfitt fyrir okkur að takast á við því oft er mjög erfitt að þurfa að horfast í augu við það að þær afleiðingar sem þú ert að upplifa í dag eru skapaðar af þér og engum öðrum.  Það er erfitt að taka 100% ábyrgð á sínu lífi og getað aldrei sagt að ábyrgðin sé einhvers annars eða við getum tekið okkur smá frí frá ábyrgðinni á eigin lífi.  Munum bara að með því að taka ávallt fulla ábyrgð á okkar lífi og vinna jákvætt úr öllum aðstæðum erum við að skapa okkur jákvætt karma.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Solla Guðjóns

VÁ.Nú gæti ég skrifað heila færslu hér hjá þér en geri  það bara hjá mér.Ég er 98% sammála þesu karma.Og það sem ég hef haft að leiðarljósi í uppeldinu er ÁBYRGÐ Á EIGIN GJÖRÐUM OG AÐ GERA ÖÐRUM ALDREI NEITT SEM ÞÚ VILLT EKKI AÐ AÐRIR GERI ÞÉR.Vissulega erfitt að rata meðalveginn hvað þá rétta veginn.

Takk fyrir frábæran pistil.......það kraumar heldur betur í kollinum á mér núna.

Má ég setja link af síðnni þinni á mína,mig langar svo að sem flestir sjái þetta.

Faðmlag til þín

Solla Guðjóns, 27.3.2008 kl. 13:01

2 Smámynd: Dísa Dóra

Sjálfsagt mál Ollasak mín   Faðmlag á móti

Dísa Dóra, 27.3.2008 kl. 13:34

3 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 27.3.2008 kl. 14:21

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Er mikil áhugakona um karma og ég trúi því staðfastlega að allt sem við gerum, gott og illt komi til okkar aftur í einhverri mynd.  Lögmál orska og afleiðinga.

Takk fyrir áhugaverðan pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.3.2008 kl. 15:13

5 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þetta var áhugavert...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 27.3.2008 kl. 18:51

6 Smámynd: Hugarfluga

Þetta er nebbbblega heila málið og akkúrat það sem ég trúi!! Svo er bara að vanda sig og lifa eftir því.  Takk, darlingurinn minn, fyrir að vekja vitundina mína.

Hugarfluga, 27.3.2008 kl. 20:28

7 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Virkilega áhugavert!! Það er svo oft sem maður heyrir fólk segja: "....ekki veit ég hvað ég hef gert af mér í fyrra lífi......."

Eitt sem ég var að hugsa...... Konan sem sendir þér búddaspekina í meili..... er hægt að verða áskrifandi að spekinni hjá henni þó maður aðhyllist ekki búddisma?

knús inn í nóttina

Hrönn Sigurðardóttir, 27.3.2008 kl. 22:55

8 Smámynd: Erna Björk Svavarsdóttir

Virkilega áhugavert

Kv. Erna

Erna Björk Svavarsdóttir, 27.3.2008 kl. 23:32

9 Smámynd: Heiða  Þórðar

Indisleg lesning. Takk fyrir mig

Heiða Þórðar, 28.3.2008 kl. 00:20

10 Smámynd: Dísa Dóra

Jenný - karma er einmitt lögmál orsaka og afleiðinga

Hrönn - ekkert mál að vera áskrifandi ég sendi bara á þig líka.

Dísa Dóra, 28.3.2008 kl. 07:49

11 Smámynd: Brynja skordal

Mjög áhugaverð lesning takk hafðu góða helgi

Brynja skordal, 28.3.2008 kl. 11:22

12 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ég er sammála þér í flest öllu kæra dísa,

Bless í bili

steina sveitastelpa

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 28.3.2008 kl. 11:25

13 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Dísa Dóra þarna er ég svo hjartanlega sammála þér, við sköpum okkar líf sjálf,
við erum búin að velja okkur málefni til að leysa er við fæðumst.
Og yndislegt að þú skyldir finna leið út úr slæma sambandinu, en þú fannst ekki leiðina fyrr en þú varst búin að læra það sem þú þurftir í þessu sambandi.
Þetta gerðist hjá mér og það tók mig 27 ár að læra nóg til að finna leiðina út, og ennþá er ég að vinna með sjálfan mig, það gengur afar vel, núna hef ég gaman að því að uppgötva leiðirnar og komast að því hvað ég er búin að vera dugleg.
Jæja jæja, nú er ég komin í essið mitt og best að hætta.
                                 Takk fyrir mig Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 28.3.2008 kl. 12:35

14 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Takk að biðja mig að vera bloggvinu þína það er mér sönn ánægja.
                        Kærleikskveðjur Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 28.3.2008 kl. 15:20

15 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Þetta er mjög góð speki, og ég tileinkaði mér hana í mörg ár, án þess að ég hefði hugmynd um að hún væri tengd kenningum Búddha.  Var afi heitinn sem hafði sjálfsagt lesið eitthvað um spekina, og kennt sonardótturinni.  Gaman að sjá þetta tengt svona vel við Búddha.  Hefur verið mikill spekingur.

  Kærleiksljós til þín, og hafðu þakkir fyrir pistilinn.

Sigríður Sigurðardóttir, 28.3.2008 kl. 19:41

16 Smámynd: Halla Rut

Búddisminn eru einu trúarbrögðin að mínu mati sem eitthvað vit er í.

Halla Rut , 28.3.2008 kl. 22:07

17 Smámynd: www.zordis.com

Vinkona mín sem er mjög mikill trúspekingur og áhugamanneskja um humanity sagði við mig eitt sinn að hún hefði sjaldan hitt neinn jafn mikinn búdda og mig!  Ég er búin að kaupa mér efni sem bíður opnunar en það er svo margt sem kemur að innan eins og eilífðin.

Takk fyrir mig!

www.zordis.com, 28.3.2008 kl. 22:19

18 Smámynd: Linda litla

Góður pistill hjá þér Dísa Dóra. Takk fyrir mig.

Linda litla, 29.3.2008 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband