. - Hausmynd

.

Skilgreiningar á ofbeldi

Vegna þess að ég veit að því miður gera sér langt í frá allir grein fyrir hvað felst í þeim hugtökum sem notuð eru yfir ofbeldi ákvað ég að setja hér inn þær skilgreiningar sem ég notaði í rannsókninni minni.  Þetta eru einnig þær skilgreiningar sem að Stígamót og Kvennaathvarf hafa notað í mörg ár.

 

     Kynferðisofbeldi gagnvart börnum

Kynferðisofbeldi gagnvart börnum er yfirhugtak sem notað er um kynferðislegt atferli eldri einstaklinga gagnvart börnum. Undir það falla sifjaspell, kynferðisofbeldi ókunnugra gagnvart börnum, barnavændi og barnaklám, þ.e. þegar börn eru notuð í klámmyndum. Sifjaspell eru algengasta form kynferðisofbeldis á börnum.

Sifjaspell er skilgreint sem allt kynferðislegt atferli á milli einstaklinga, sem tengdir eru tengslum trausts og þar sem annar aðilinn vill ekki slíkt atferli, en er undirgefinn og háður ofbeldismanninum á einhvern hátt (Guðrún Sigríður Jónsdóttir, 1993).

Með kynferðislegu atferli er verið að tala um hvers konar þukl eða káf á kynfærum, að neyða börn til að hlusta á eða horfa á klám, að ofbeldismaður lætur barn fróa sér og/eða fróar því, á við barnið samfarir, hvort sem er í munn legglöng eða endaþarm, með fingri, getnaðarlim eða hlutum (Guðrún Sigríður Jónsdóttir, 1993).

Nauðgun

Nauðgun er skilgreind sem kynferðislegt ofbeldi þar sem aðili þrengir sér

eða gerir tilraun til að þrengja sér inn í líkama annarrar persónu gegn vilja

hans/hennar og brýtur þar með sjálfsákvörðunarrétt og sjálfsstjórn hans/hennar á bak aftur (Ársskýrsla Stígamóta, 2003).

Kynferðisleg áreitni

Erfitt er að skilgreina kynferðislega áreitni, því það sem einum virðist vera kynferðisleg áreitni getur litið út sem eðlilegur hlutur hjá öðrum. Því er besta skilgreiningin sú að kynferðislegum athöfnum, orðum eða myndum er beitt gegn vilja þess sem fyrir áreitninni verður og það skaðar hann/hana. Ef viðkomandi finnst hann/hún hafa verið beittur kynferðislegu ofbeldi, þá er það raunin því farið hefur verið yfir þau mörk sem viðkomandi setur (Guðrún Sigríður Jónsdóttir, 1993)

Heimilisofbeldi – andlegt ofbeldi

Í eftirfarandi dæmum er talað um “hann gerandann” vegna þess að málfræðilega er gerandinn karlkyns nafnorð í íslensku. Eftirfarandi dæmi eru betur þekkt í hugum Íslendinga sem heimilisofbeldi en það getur birst í eftirfarandi:

Einangrun:

- Kemur í veg fyrir að hann/hún geti sótt vinnu, skóla, félagsstarf, tómstundastarf.

- Kemur í veg fyrir að hann/hún hitti/eigi samskipti við fjölskyldu og/eða vini.

- Tekur af honum/henni persónuskilríki, greiðslukort, ávísanahefti, ökuskírteini og fleira þess háttar.

- Eltir einstaklinginn, fylgist með honum.

- Opnar póst viðkomandi.

- Notar símnúmerabirti til að fylgjast með hverjir hringja til einstaklingsins.

- Hringir stöðugt heim til að vita hvort hann/hún sé ekki heima.

- Fjarlægir símann.

- Spyr í þaula hvar viðkomandi hafi verið, hvað hún/hann hafi verið að gera og hverja hún/hann hafi hitt.Tortryggir gjarnan svörin (Gondolf, 1998).

Efnahagsleg stjórnun:

- Takmarkar aðgang hans/hennar að peningum.

- Skammtar peninga, sem varla (eða ekki) duga fyrir nauðsynlegustu útgjöldum.

- Þvingar hann/hana til að biðja um hverja krónu og/eða gera grein fyrir hverri krónu.

- Segir ósatt um stöðu fjármálanna, eða heldur þeim leyndum.

- Kemur í veg fyrir að hann/hún starfi utan heimilis, eða ráðstafar launum hans/hennar.

- Tekur af honum/henni peninga s.s. inneign í bankabók, arf o.fl.

- Kemur í veg fyrir að hann/hún hafi greiðslukort, banka- eða ávísanareikning.

- Ráðstafar einn og oft án hans/hennar vitundar, sameiginlegum peningum þeirra (Gondolf, 1998).

Hótanir:

- Ógnar/hótar honum/henni án orða, s.s. með bendingum, hreyfingum eða svipbrigðum.

- Kastar/eyðileggur hluti.

- Eyðileggur persónulegar eigur hans/hennar og/eða annað sem honum/henni er kært.

- Meiðir eða fargar gæludýrum á heimilinu.

- Meðhöndlar hnífa, vopn eða aðra hluti til að ógna honum/henni.

- Hótar að drepa hann/hana eða börnin.

- Hótar að fyrirfara sér.

- Hótar að láta reka hann/hana úr landi, ef hann/hún er af erlendum uppruna.

- Hótar að láta leggja hann/hana inn á geðdeild.

- Hótar að segja „öllum“ hvað hann/hún er „geðveik“ (Gondolf, 1998)

Tilfinningaleg kúgun:

- Brýtur hann/hana niður.

- Hrópar/öskrar á hann/hana.

- Uppnefnir hann/hana, gerir lítið úr því sem hann/hún gerir, hæðist að honum/henni.

- Gagnrýnir hann/hana, setur stöðugt út á hann/hana og verk hans/hennar.

- Niðurlægir hann/hana fyrir framan aðra.

- Lætur hann/hana finna fyrir vanmetakennd og að hann/hún sé heimsk/ur eða barnaleg/ur.

- Telur honum/henni trú um að eitthvað sé að honum/henni t.d. geðveiki.

- Stöðugar ásakanir, m.a. ásakar hann hann/hana fyrir mistök sem hann sjálfur gerir.

- Ruglar raunveruleikanum, m.a. með því að segja að hans/hennar upplifanir, útskýringar og túlkanir séu rangar (Gondolf,1998).

Kynferðisleg misnotkun

- Spottar/niðurlægir hann/hana kynferðislega.

- Þvingar hann/hana til kynlífsathafna, sem hann/hún er mótfallin/n.

- Hótar að misbjóða börnunum kynferðislega.

- Þvingar hann/hana til að horfa á klámmyndir og/eða skoða klámblöð.

- Nauðgar honum/henni eða hótar nauðgun (Gondolf, 1998).

Líkamlegt ofbeldi

- Ýtir, hrindir eða slær til hans/hennar.

- Snýr upp á útlimi.

- Heldur honum/henni föstum/fastri, varnar útgöngu.

- Lemur hann/hana, brennir hann/hana.

- Skaðar hann/hana t.d. með hnífi, barefli, belti, ól eða öðru þess háttar (Gondolf, 1998).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fjóla Æ.

Góð upptalning. Veit þú hefur haft mikil áhrif og hjálpað mörgum sem hafa verið brotnir niður vegna margskonar ofbeldis. Takk fyrir það. Vona einnig að þessi listi bjargi einhverjum.

Fjóla Æ., 1.11.2007 kl. 19:43

2 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég vil bara að þú vitir að ég dáist af þessu framtaki þínu. Ég held að þessi mál eru síst af öllu útrætt í dag og rökin fyrir máli mínu er að hver kynslóðin á fætur annari virðist ala af sér hvern konuberjarn og nauðgarann á fætur öðrum. Sem karlmanni gremst mér það mikið og sárnar hrillilega að vita af kvenfólki sem orðið hefur fyrir barsmíðum. Mín reynsla er að flestir karlmenn pirrast það svipað mikið því þetta ástand er með öllu óþolandi. 

Það er í skjóli þagnarinar sem mannílskan þrífst og held ég að eina leiðin til að uppræta ilskuna er að ræða um hlutina eins og þeir eru rétt eins og þú ert að gera.  

Til hamingju fyrir að láta ekki kúga þig. 

Brynjar Jóhannsson, 2.11.2007 kl. 01:50

3 Smámynd: halkatla

afþví að ég kann ekki að orða flottar athugasemdir tek ég bara undir allt sem Brynjar sagði

halkatla, 2.11.2007 kl. 08:45

4 Smámynd: Dísa Dóra

Takk elskur.

Alltaf gott að fá viðbrögð við því sem maður er að gera og enn betra að fá hvatninguna

Ég mun ekki gefast upp á að tala um þessa hluti og opna umræðuna um þá því ég er fyllilega sannfærð um að ofbeldið þrífst einmitt í skjóli þagnarinnar eins og Brynjar segir.  Ég segi einmitt oft að þessa hluti á að tala í hel en ekki að þegja í hel.

Eigið góðan dag 

Dísa Dóra, 2.11.2007 kl. 09:05

5 Smámynd: Fríða Eyland

mikið þætti mér vænt um að skoðaðir þessa færslu hjá mér

Fríða Eyland, 4.11.2007 kl. 23:21

6 identicon

Sæl Dísa Dóra

Hefurðu lesið bókina "Why does he do that - inside the minds of angry and controlling men" eftir Lundy Bancroft? Ætti að vera skyldulesning hjá öllum sem eitthvað hrærast í þessum heimi. Hún hjálpaði mér mjög mikið að skilja þetta allt á sínum tíma.

Jónína (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 08:20

7 Smámynd: Dísa Dóra

Jónína - nei ég hef ekki lesið þessa bók. Takk fyrir ábendinguna.  Nú verður bókasafnið skoðað í leit að bókinni

Dísa Dóra, 7.11.2007 kl. 12:00

8 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Ég er reyndar ekkert of viss um að hún sé til á bókasöfnum því miður. Ég keypti mína á amazon.com. Hef verið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að ráðast í að þýða hana.... ef ég fæ leyfi og tíma

p.s. styrkur.net er ótrúlega flott hjá þér... frábært framtak.

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 10.11.2007 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband