5.10.2007 | 12:43
Tengsl ofbeldis og heilsu
Núna langar mig til að þú lesandi góður komir með þín svör í kommentakerfinu á hvort þú telur að ofbeldi hafi áhrif á heilsu þess sem það upplifir (þolandann)? Ef svo er hvernig áhrif heldur þú að það hafi helst?
Endilega tjáið ykkur og skiptist á skoðunum um þetta mál
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
4.10.2007 | 08:51
Að skrifa bréf
Í dag ætla ég að birta bréf eitt sem ég skrifaði til ofbeldismanns míns þegar ég var í hópastarfinu hjá Stígamótum. Þar er maður hvattur og ráðlagt að skrifa bréf til geranda síns til að ná að segja frá þeim tilfinningum sem eru og hafa verið að bærast innra með okkur gagnvart honum. Þetta bréf þarf ekki endilega að senda til gerandans heldur er það gert til að hjálpa okkur sjálfum í bataferlinu. Það er nefnilega ótrúlega heilandi að skrifa svona bréf og fá loksins að viðurkenna tilfinningar gagnvart gerandanum sem maður jafnvel hefur aldrei þorað að gera annað en að hugsa um í gegn um árin. Ég til dæmis skrifaði hluti í bréfið mitt sem ég hafði hugsað en aldrei þorað að segja upphátt áður. Það var mikill léttir og lausn að setja það í bréfið og síðan lesa bréfið fyrir hópfélagana mína.
Ég hins vegar valdi að senda ekki bréfið þar sem ég hreinlega sá ekki tilgang með því. Fjölskylda hans öll veit mína hlið málsins þar sem ég hef jú sagt mína sögu og maðurinn sjálfur mun sennilega seint viðurkenna sína sök. Hann hefur kallað mig ýmsum miður fallegum nöfnum eftir að ég fór að opna mig um okkar samband og má þar nefna að hann segir mig geðveika, lygara, hræsnara og fleira og fleira. Hann má reyna að afneita sannleikanum endalaust en ég veit að ég hef einungis sagt satt frá. Ég hef oft sagt að ég laug og laug á meðan á okkar sambandi stóð og fyrst á eftir til að leyna því sem fram fór í sambandinu. Það gerði ég til að hlýfa honum (ótrúlegt já) og vegna skammarinnar þar sem ég skammaðist mín og tók á mig sökina. En eftir að ég ákvað að hætta að vernda sannleikann ákvað ég líka að aldrei framar skyldi ég ljúga um okkar samband (eða nokkuð annað reyndar). Við það hef ég staðið og mun standa við það í framtíðinni.
Bréfið hefur hins vegar lengi verið undir reynslusögum á www.styrkur.net en ekki undir nafni. Nú hins vegar fáið þið að vita hver skrifaði þetta bréf. Ef hann les það á netinu þá er það bara fínt og ef hann les það þá er það einnig allt í lagi. Bréfið var skrifað fyrir mig til að hjálpa mér í uppbyggingunni og það gerði það svo sannarlega svo þá er takmarkinu með skrifum þess fyllilega náð
En hér kemur bréfið:
Bréf til þín!!
(skrifað til ofbelsimannsins sem braut mig niður)
Jæja þá er ég sest niður að skrifa bréf til þín. Ég gerði það reyndar einu sinni áður .... skrifaði þá margra blaðsíðna bréf til þín sem þú reyndar aldrei fékkst að sjá því ég þorði ekki að sýna þér það, heldur reif það í tætlur til að vera viss um að þú sæir það aldrei. Var alveg viss um að ég fengi nokkur högg eða verra ef þú kæmist í það bréf. Í dag vildi ég gjarna eiga þetta bréf samt.... svona til að sjá muninn á mér í dag og þá.
Ég hef mikið verið að hugsa undanfarna daga um hvernig okkar samband var og hvað ég vildi segja í þessu bréfi. Ég hef eiginlega ekki komist að neinni niðurstöðu heldur læt ég bara á blað það sem kemur upp í hugann núna.
Í gegn um árin hef ég oft hugsa um það hvað olli því að þú taldir þig þurfa að niðurlægja mig og beita ofbeldi á allan mögulegan hátt. Ég veit ekki svarið og mun sennilega aldrei vita. Svona eðli er svo óskiljanlegt í mínum huga þrátt fyrir að hafa búið með þér mörg ár.
Ég man að síðustu árin var ég alveg viss um að þú værir hreinlega persónuklofi.... það var ekkert eðlilegt hvernig þú gjörbreyttir persónu þinni frá einni stund til annarrar. Hins vegar vissi ég um leið að það var heldur ekki sannleikurinn því þrátt fyrir að neita stundum fyrir að viðurkenna eða vita hvað þú hefðir gert mér þá skiptir þú á milli þessara persóna fullkomlega meðvitað.
Fyrstu árin þá var það ofbeldispersónan sem ég hugsaði alltaf með mér að ég þekkti ekki því hann var sá sem mér fannst vera víkjandi....... þar kom afneitunin reyndar sterkt inn í hjá mér en líka sú staðreynd að fyrstu árin var líkamlega ofbeldið minna og andlega ekki eins, hvað á ég að segja.... niðurlægjandi þó það hafi verið niðurbrjótandi.
Seinni árin fannst mér hins vegar ofbeldismaðurinn vera sá ríkjandi því það var hann sem ég sá á hverjum degi á okkar heimili, ég sá hinn manninn orðið þegar við fórum eitthvað innan um fólk eða þegar komu gestir. Þá varstu hvers manns hugljúfi svo að segja og lékst við hvern þinn fingur...... það reyndist þér auðvelt því ég var orðin svo hrædd að ég þorði ekki að segja mikið og þurfti ekki nema eitt augnaráð frá þér til að stöðva mig alveg.
Ég hef líka oft velt því fyrir mér hvernig það er hægt að segjast elska persónu en koma svo svona fram við hana eins og þú við mig. Hvað það sé sem gerir að þú vildir og naust þess að sjá mig hrædda og niðurbrotna.
Eitt af fyrstu skiptunum sem ég man eftir að ég gerði mér grein fyrir að hegðun þín væri ekki rétt, og reyndar mótmælti, en jafnframt sá líka leikarann í þér var að mig minnir á afmælisdaginn minn......nokkrum mánuðum eftir að við kynntumst og fórum að búa saman. Við vorum með smá partý og fullt af fólki kom og síðan farið niður í bæ. Ég man að þú varst búinn að vera allt kvöldið að skjóta að mér leiðinlegum athugasemdum og til dæmis man ég að þú sagðir oft sem svo þegiðu og ekki reyna að þykjast hafa vit á einhverju sem þú veist ekkert um þetta var eitthvað sem mér fannst þú segja hátt og fyrir framan alla en áttaði mig svo löngu seinna á að það væri ekki rétt. Allavega endaði þetta með því að í lok kvöldsins var mér nóg boðið og sagði á móti þegiðu sjálfur ég orðin reið yfir hvernig þú komst fram við mig. Viðbrögðin létu ekki á sér standa...... þú vissir nákvæmlega hvernig þú áttir að snúa þessum orðum mínum þér í hag. Þú barmaðir þér og kveinaðir við hina í hópnum yfir því hve illa ég kæmi fram við þig og það væri sko hámark niðurlægingarinnar að ég segði þér bara að þegja og það fyrir framan alla. Mér til mikillar furðu þá fékkstu samúðina og nokkrir komu til að tala við mig um að svona hegðun væri nú ekki hegðun sem maður sýndi öðrum hvað þá sínum heittelskaða.
Já svo sannarlega gapti ég, því í mínum huga hafðir þú sagt mér að þegja allt kvöldið og það svo að hinir heyrðu, gerði mér löngu seinna grein fyrir því að þú sagðir það einungis þegar við vorum ein eða hvíslaðir því. Þarna hins vegar fékk ég þau viðbrögð frá umhverfinu sem ég túlkaði sem svo að ég ætti sökina á þessari misklíð og þessi hegðun mín væri mjög svo ósæmileg. Og ég man líka sigurglottið á þér þegar við komum heim og lesturinn frá þér að þarna sæi ég sko að ég væri klikk og hegðaði mér eins og algjört fífl. Já mikil gat blekkingin verið og þetta dæmi er reyndar mjög vægt miðað við þau sem seinna komu þó það sé enn svo ljóslifandi í huga mér.
Hins vegar eru þessi dæmi öll hvort sem um er að ræða líkamlegt eða andlegt ofbeldi ávallt eitthvað sem þú munt ekki viðurkenna því í þínum huga gerðir þú ekki neitt rangt og eins og þú sagðir einhvern tíma ég er í mínum fulla rétti að gera það sem ég vil heima hjá mér hmmmm mér er bara spurn... hver var þá réttur minn??? Þú sagðir líka eitt sinn þegar ég í einhverri örvæntingu sagði við þig að þú værir meira að segja hættur að biðjast fyrirgefningar á ofbeldinu ...til hvers að biðjast fyrirgefningar á því sem ég veit að mun gerast aftur? Reyndar var það í þínum huga ég sem átti sökina á því að þú neyddist til að beita mig ofbeldi.
Í fyrstu eftir að við skildum blokkeraði ég allar minningar um okkar sambúð því þær voru allt of sársaukafullar..... síðar fór ég að muna þessar góðu stundir og eina og eina slæma stund. Í dag er alltaf að koma upp eitt og eitt smáatvik sem ég er í stakk búin að horfast í augu við núna. Ég veit að fyrstu árin voru ekki alltaf slæm en ég get hins vegar ekki séð annað en óttann og hryllinginn sem hélt mér í heljargreipum síðustu árin. Og síðustu 1-2 árin bættist við ógeðið sem ég fékk á þér. Þrátt fyrir þetta hafði ég ekki hugrekki og orku til að slíta sambandinu fyrr. Ég átti lengi vel mjög erfitt með að sætta mig við sjálfa mig vegna þess að ég hafði látið koma svona illa fram við mig í svona langan tíma þó ég væri samt búin að fá algjört ógeð á þér.
Sennilega blandast það líka saman að ofbeldið varð algengara (andlega ofbeldið var orðin þín samskiptaleið við mig og líkamlega ofbeldið nær daglegt í einu eða öðru formi), held þú hafir fundið að ég var að safna mér kjarki og styrk til að brjótast út úr þessu og þá reyndir þú hvað þú gast að kæfa þann kjark niður strax í fæðingu.
Nágrannar okkar voru líka farnir að sjá að ekki var allt með felldu þó þá hafi ekki grunað hve ástandið var slæmt. Þeir sáu þó að þú sem varst búinn að var atvinnulaus orðið í áratölum gerðir ekki neitt heima hjá þér til að létta á. Man ég eftir að einn nágranni okkar talaði oft um að þegar ég kom heim úr vinnu fór ég oft beint út að slá garðinn og þrífa hann en þú sást hvergi. Nei þú reyndar svafst mjög oft þegar ég kom heim!! Eða sast fyrir frama sjónvarpið að horfa á einhvern mikilvægan leik eða annað. Ég hef aldrei verið sjónvarpssjúklingur en eftir okkar sambúð fékk ég algjört ógeð á sjónvarpi og horfi mjög lítið á það. Í dag sé ég fyllilega og viðurkenni að þú varst LATUR!! Þetta var þó eitthvað sem alls ekki mátti nefna á nafn við þig því þá varð allt vitlaust.
En einhverra hluta vegna var það svo að þú gerðir ekkert í því að fá þér vinnu og þau verk sem þér voru útveguð voru annaðhvort of erfið eða leiðinleg eða eitthvað annað. Svo gastu hellt þér yfir mig þegar ég í nokkra mánuði fékk aðeins hlutastarf. Ég væri nú meiri auminginn að hafa ekki fulla vinnu. Það var alveg sjálfsagt að ég keyrði um 100 km á dag til að sækja vinnu en helmingi styttri vegalengd var of löng þegar þér bauðst vinna. Þetta afsakaði ég allt með að það væri nú svo erfitt að koma sér út á atvinnumarkaðinn aftur ef maður hefði orðið fyrir því óláni að missa vinnuna og bla bla bla ...... vissi reyndar innst inni að sannleikurinn var sá að þú varst latur.
Ég gæti sennilega endalaust haldið áfram að koma með dæmi.... ætla þó að láta nægja að segja nokkur sem hafa oft komið upp í huga mér undanfarin ár. Ég man að ég átti lengi vel mjög erfitt með ef einhver sagði elskan við mig. Þetta orð sem þú notaðir í tíma og ótíma við mig sem og aðra. Hvílík misnotkun á orði!!! Ég var farin að hata þetta litla fallega orð vegna þín. Í nokkur ár varð mér hreinlega óglatt og fékk hroll ef einhver sagði þetta við mig. Góð vinkona mín kenndi mér þó að sjá aftur fegurðina í þessu orði og í dag er ég sjálf líka farin að getað notað það.
Ég man að þú mjög gjarna tókst í öxlina á mér eða greypst í hálsmálið á fötunum sem ég var í, krepptir hnefann og hótaðir mér með honum og sagðir steinhaltu kjafti helvítis hækjan þín eða ég treð trantinum á þér niður í rassgat. Þetta er setning sem sennilega mun ávallt vera greypt í huga mér þó að í dag rísi hárin ekki á mér þegar ég hugsa um þetta.
Já óttinn er að hverfa og ég hef lært að takast á við hann líka. Ég hef lært að það er ég sem stjórna þessu lífi mínu og geri það líka með því að horfast í augu við óttann. Óttinn eða þú stjórna mér ekki lengur og ég ætla mér að halda því þannig um alla eilífð.
Ég hef þurft að leggja á mig mikla og erfiða vinnu til að byggja upp það sem þér tókst að rífa niður. Það er þó langt í frá vinna sem ég sé eftir heldur þakka ég fyrir þessa vinnu daglega því hún færir mér mig sjálfa aftur. Ég verð að vísu aldrei sama gamla ég, en ég verð ný og betri!! Ég hef lært að nota mér þessa reynslu til góðs fyrir mig og aðra. Núna er ég komin svo langt að ég get tekið þig burtu úr sál minni og hent þér þaðan út. Þú hefur ekki lengur áhrifavald á mig eða mitt líf og ég ætla mér að halda því þannig. Ég er í fyrsta skiptið að finna að ég get orðið heilað alla mína sálarkima. Og sú tilfinning er góð. MJÖG GÓÐ!!
Ég er að sjá að ég hélt lengi vel áfram þínu verki og með því að rífa sjálfa mig niður og neita mér um að njóta þess góða í lífinu vegna ótta og lélegs sjálfstrausts eða vantrausts á aðra. En ég segi hér með upp. Ég vil ekki þetta starf lengur og ekki nóg með það....... ég er búin að ganga þannig frá málunum að þessi staða sem ég hef haldið í gegn um árin er ekki lengur til. Ég er þess fullviss að karma mun sjá um að þú fáir þær orsakir sem þér ber og því hef ég ekki fundið eða finn neina löngun til hefnda eða annað. Ég þarf ekki að reyna að hefna mín á nokkurn hátt, karma sér til þess að þú færð það sem þér ber hvort sem það er núna eða einhverju öðru lífi.
Það að fá mitt líf aftur veitir mér mikið frelsi. Það að finna að það er ég sem stjórna í stað þín er dýrmætasta gjöf sem ég hef gefið sjálfri mér.
Það sem þú gerðir mér var mjög rangt og ég er langt í frá að taka frá þér ábyrgðina á því. Ég er hins vegar að taka ábyrgð á því sem ég sjálf gerði mér, með að viðhalda niðurlægingunni og hatrinu á sjálfa mig. Það er eitthvað sem ég hætti núna og nú rétti ég þér þinn ábyrgðarpakka til að sjá um ég ætla mér ekki lengur að geyma hann.
Ég ætla mér að elska sjálfa mig og njóta lífsins til fullnustu.
Vertu blessaður
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.10.2007 | 08:47
Vandamál eða ekki?
Í dag ætla ég að skrifa hugleiðingar mínar um vandamál. Það er nefnilega svo að jafnvel minnstu vandamál þvælast fyrir okkur og virðast vera risavaxin og skapa okkur ótta við að takast á við þau. Við frestum því að takast á við þau og reynum að horfa í aðra átt eða láta sem þau séu ekki til. Þegar við svo neyðumst jafnvel til að takast á við þau þá komumst við jafnvel að því að það sem virtist risavaxið vandamál var það í raun ekki og tiltölulega auðvelt að leysa það.
Ég hef tamið mér að horfa ekki á vandamál sem vandamál. Ef maður horfir á þau sem slík þá veldur það því að hugurinn fer ósjálfrátt að óttast málið og við frestum því frekar að takast á við þau. Ég kýs að horfa á þetta sem verkefni til að leysa. Hver kannast ekki við að ráðast með gleði og eftirvæntingu á verkefni eins og sudoku eða einhverja þraut? Mundi sá hinn sami ráðast með sömu gleðinni á þessi atriði ef þau hétu vandamál? Nei ég held ekki. Því er mun betra að horfa á hlutina sem verkefni og þrautir til að leysa í stað þess að horfa á þá sem vandamál. Þannig erum við strax búin að breyta viðhorfi okkar til viðkomandi máls og eigum mun auðveldara með að leysa það. Svo er einnig gott ráð að skipta því sem virðist vera risa þraut í okkar augum upp í smærri hluta og leysa bara smá brot í einu. Með þeim hætti komumst við oft að því að þrautin er leyst löngu áður en við höldum og margir hlutar hennar leysast um leið og maður leysir einn hlutann.
Einnig er gott að þjálfa sig upp í og hafa ávallt í huga að það er engin skömm í að fá aðstoð við að leysa verkefni ef á þarf að halda. Oftast er sá sem beðinn er um aðstoð bara stoltur og ánægður með að veita þá aðstoð svo við getum horft á þetta sem svo að við séum að gefa viðkomandi tækifæri til að gera góða hluti.
Ég veit af eigin raun að það getur virst vera algjörlega óyfirstíganlegt vandamál að slíta sambandi við ofbeldismann. Því frestar maður því endalaust þrátt fyrir að vita innst inni að þú verðir að gera það. Stundum frestast þeir hlutir alveg því miður. Það hefur hjálpað mörgum að spurja sig spurninga eins og: Vil ég vera í þessum aðstæðum þegar ég verð 50 ára, 60 ára, 70 ára? Vildi ég sjá vinkonu mína í þessum aðstæðum? Einnig hefur það reynst mörgum góð hjálp til að meta stöðuna að fara yfir spurningarlista sem meðal annars er hægt að sjá á www.styrkur.net undir spurningarlistar. Einnig að lesa yfir byrtingarmyndir ofbeldis sem sjá má á www.kvennaathvarf.is.
Það er einnig hægt að sækja sér stuðning og hjálp hjá samtökunum sem eru í tenglum hér til hliðar og er engin skömm að því að sækja sér upplýsingar og stuðning þangað.
En í hvaða aðstæðum sem við erum og hvað sem við ákveðum að gera þá er mín reynsla að það auðveldar manni mikið að horfa á hlutina sem verkefni í stað vandamála.
Aðeins meira um lausn vandamála eða verkefna:
Gagnlegar leiðir til lausnar á vandamálum
Fyrsta reglan er að fyllast ekki skelfingu verið róleg notið skynsemina þið þurfið á henni allri að halda. Staldraðu við taktu naðusynlegan tíma til að líta raunsætt á vandamálið. Vertu viss um að þú sjáir það eins og það er og látir ekki skelfinguna magna vandamálið úr öllu samhengi (taktu lífinu með ró).
Leifðu þér ekki að láta vandamálið vaxa þér yfir höfuð. Vertu ekki dramtísk/ur. Segðu sjálfri/sjálfum þér stöðugt að þú getir ráðið við þetta.
Æfðu þig að draga úr rugli. Vandamálið þvælist venjulega í ruglinu svo þú skalt draga úr rugli. Ein leiðin er að taka blað og penna og skrifa niður allar hliðar vandamálsins. Þetta er ein besta leiðin til að hægja á sér svo þú getir tekið rétta ákvörðun í málinu og einnig sérðu það í skýrara ljósi.
Öll vandamál hafa einhvern leysanlegann þátt. Leitaðu að lausn ekki endilega á öllu vandamálinu, en leitaðu að fyrsta skrefinu og svo næsta skrefi venjulega er það svo að ef hluti vandamálsins leysist heldur það áfram að leysast þar til ekkert vandamál er eftir. Gerðu þig ánægða/n með að leysa einn þátt vandamálsins í einu (taktu hlutina í réttri röð).
Stundum er gott að æfa innri hlustun. Stundum finnur þú að þú heyrir ekki nóg með ytra eyranum en, ef svo má að orði komast, ytra eyranu og þú finnur svarið í sjálfum þér. Sestu niður einsömul/einsamall og hugleiddu vandamálið í þögn.
Stundum þarftu að hætta að reyna að gera allt á eigin spýtur. Ef þú hefur reynt og vandamálið leysist ekki skaltu biðja einhvern annan um hjálp. Við reynum oft að leysa vandamálin í lífi okkar aðeins með því sem við vitum. Stundum kemur svarið í ljós ef við bara spurjum aðra um ráð og við spörum okkur gríðanlegann tíma, rugling og ónauðsynlegar áhyggjur.
Slepptu eftirmælum. Hættu að segja því ég gerði þetta því ég gerði þetta ekki eða, hefið ég nú bara - o.s.frv. þú getur ekki breytt fortíðinni eða endurlifað hana. Þú verður að vinna úr vandamálinu frá þeim stað sem þú ert staddur í því núna.
Spurðu sjálfa/n þig alltaf hver er ábyrga aðgerðin í þessu máli? hvað er raunhæft?
Haltu hugsunum þínum á réttum kyli. Haltu áfram að trúa á árangur og haltu í starfsgleðina því að hún getur verið ákaflega gagnleg til að leysa vandamálin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2007 | 16:31
Viðhorf okkar
Í dag ætla ég aðeins að tala um viðhorf okkar og þau áhrif sem þau hafa á líf okkar. Það er nefnilega mín trú að allt sem við gerum, hugsum og segjum hefur áhrif á hvernig líf okkar er og verður. Það hefur lengi verið vitað og meira að segja vísindalega sannað að jákvæðni dregur að sér jákvæðni og góða hluti. Það er því um að gera að temja sér að hugsa jákvætt.
Ég geri mér einnig fulla grein fyrir að fyrir þann sem er eða hefur nýlega verið í ofbeldissambandi eða upplifað ofbeldi getur átt mjög erfitt með að hugsa jákvætt og upplifa lífið á jákvæðan hátt. En ekki örvænta - það er nefnilega hægt að þjálfa þetta upp með því að vera meðvitaður um þetta á hverjum einasta degi, hverja einustu mínútu. Ef það tekst ekki eins og þú vilt strax skaltu samt passa þig á að fara ekki að skamma sjálfan þig fyrir mistök eða slíkt. Það er nefnilega þannig að mistök eru ekki mistök nema ef þú lærir ekkert af þeim. Ef þú lærir af þeim eru þau reynsla og reynslu er hægt að nýta sér til góðs. Já ALLA reynslu er hægt að nýta sér til góðs ef maður ákveður að maður ætli að nota þessa reynslu til góðs fyrir sjálfan sig í framtíðinni. Svo er líka gott að hugsa sem svo að hver þúsundmílnaferð hefst á einu litlu skrefi. Þó manni virðist skrefin stutt og ferðin óendanleg þá er ferðin samt sem áður hafin!! Og hálfnað verk þá hafði er
Tökum nokkur fleiri dæmi um hvering það að hugsa jákvætt breytir viðhorfi manns og smátt og smátt laðar það að sér fleiri jákvæðar hugsanir og þannig koll af kolli. Til dæmis það að klappa sjálfum sér á öxlina í stað þess að rífa sjálfan sig niður. Ef þú hefur gert eitthvað sem þér finnst ekki hafa tekist sem skyldi er mun vænlegra að klappa sjálfri þér á öxlina og segja sem svo - þú varst samt dugleg sem reyndir og ef þú heldur áfram að reyna og þjálfa þig þá mun þetta takast. Núna veistu allavegana hvernig á ekki að gera þetta svo þetta er dýrmæt reynsla. Ef þú hugsar svona þá verður þú ósjálfrátt mun sáttari við niðurstöðurnar og mun auðveldara verður að reyna aftur. Ef þú hins vegar skammar sjálfan þig og bölvar fyrir þessi mistök og að þú getir þetta aldrei og svo frv. (svona eins og okkur er svo mörgum tamt) þá er hætt við að þú sért reiður og sár út í sjálfan þig og umhverfið og reynir ekki slíktan hlut aftur. Já það skiptir ÖLLU hvernig við komum fram við sjálf okkur. Við getum hugsað þetta sem svo að við eigum að líta á okkur sem okkar bestu vini. Koma fram við okkur eins og þú vilt að vinir þínir komi fram við þig. Einnig gott að spurja okkur hvort að þú vildir að einhver komi svona fram við vini þína eins og viðkomandi kom fram við þig. Ef svarið er nei, þá átt þú ekki heldur skilið svona framkomu.
Annað sem gott er að hafa í huga er eins og áður sagði að horfa ekki á hluti sem takast ekki eins og maður vildi sem mistök. Horfðu á þá sem reynslu og það meira að segja góða reynslu. Ef þú sérð að þú hefðir átt að gera þá öðruvísi þá eru þeir samt ekki mistök því núna veistu allavega hvernig á ekki að gera hlutinn. Þú ert semsagt komin með dýrmæta reynslu og þá reynslu getur þú nýtt þér nú og í framtíðinni
Enn eitt sem er gott að hafa í huga er að segjast aldrei ætla að reyna að gera þetta eða hitt. Með því ertu ósjálfrátt búinn að skapa sjálfri þér afsökun til að þér þurfi nú ekki að takast það sem þú ætlar að reyna að gera. Segðu heldur ég ÆTLA að gera þetta eða hitt. Slepptu orðinu reyna. Þannig ertu að hvetja sjálfan þig til að gera það sem þú vilt og um leið skapa betri grundvöll til að það takist þar sem að þú ætlar jú að gera hlutinn.
Eins er gott að nota GÆSina. Get, Ætla, Skal. þannig ertu einnig búin að skapa góðan grundvöll til að ná takmarki þínu. Svo er líka mjög gott ráð að hafa í huga að hamingja er ekki takmarkið. Hamingjan er leiðin. Maður getur nefnilega verið mjög hamingjusamur ÞRÁTT fyrir að vera ekki búinn með þetta eða hitt, eða þrátt fyrir að hafa ekki þetta eða hitt. Það að ákveða að vera hamingjusamur hér og nú breytir einnig viðhorfi okkar.
Meira um þetta seinna en hér ætla ég að láta fylgja með góða sögu sem við ættum öll að hafa í huga á hverjum degi:
Við teljum okkur trú um að lífið verði betra eftir að við; göngum í hjónaband, eignumst barn og síðan eignumst annað barn. Síðan verðum við ómöguleg yfir að börnin eru enn svo ung og teljum að við verðum miklu ánægðari er þau eldast. Þegar það gerist verðum við pirruð á unglingnum okkar og teljum okkur verða ánægðari þegar þeir vaxa upp úr því aldurskeiði. Við teljum okkur trú um að við munum öðlast meiri lífsfyllingu loksins þegar; maki okkar tekur sig taki, þegar við fáum betri bíl, þegar við komumst í almennilegt frí eða þegar við setjumst í helgan stein. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.10.2007 | 12:49
Óttinn við ástina
Í dag ætla ég að skrifa aðeins um óttan við ástina sem ég fann fyrir eftir að hafa upplifað ofbeldi. Ég var fyrstu árin eftir að ofbeldissambandinu lauk svo full af ótta gagnvart karlmönnum að ég gat ekki einu sinni hugsað mér að hafa þá sem vini - hvað þá meira. Tilfinningalega var ég einnig alveg frosin svo ég leyfði mér heldur ekki að finna fyrir neinum jákvæðum tilfinningum og þá sérstaklega til karlmanns. Ég var svo hrædd við snertingu að ég stirðnaði öll upp ef einhver til dæmis klappaði mér á öxlina eða ætlaði að knúsa mig. Mér fannst slík snerting bara virkilega óþægileg og fylltist ótta. Þetta var þó mjög ólíkt mér því fyrir ofbeldið hafði ég verið mjög tilfinningalega opin og gefandi persóna. Ég elskaði snertingu og knús og klappaði sjálf gjarnan þeim sem ég var að tala við á öxlina til uppörvunar eða stuðnings til dæmis. Ég fann líka sjálf þessa breitingu á mér og leið mjög fyrir hana - langaði alls ekki að vera svona en virtist bara ekki geta ráðið við þessi viðbrögð mín. Ég man til dæmis að faðir minn, sem er mjög blíður maður og mundi aldrei gera annarri persónu mein, klappaði mér oft á öxlina þar sem hann fann mína miklu vanlíðan. Þetta var hans leið til að sýna mér hlýju og stuðning. Ég fann líka hve erfitt honum þótti að finna mig stirðna upp í hvert skipti sem hann klappaði mér á öxlina og sjálfri fannst mér mjög erfitt að stirðna svona upp þegar hann klappaði mér á öxlina því þetta var þrátt fyrir allt samskiptamáti og atriði sem mér þótti mjög vænt um. En ósjálfráðu viðbrögðin voru sterk og sátu lengi - það var ekki fyrr en ég meðvitað fór að vinna í þessu þegar sjálfsvinnan mín var komin vel á veg að þetta smátt og smátt breyttist.
Ég var líka orðin þannig í upphafi að ef einhver hreyfði sig snögglega nálægt mér og ég tala nú ekki um ef einhver lyfti hendi snögglega þá hrökk ég í kút og ósjálfrátt bar ég hendi yfir höfuð mér. Þetta var svona ósjálfrátt varnarviðbragð til að verja mig fyrir höggum sem ég hafði vanist í ofbeldisssamandinu og óttaðist orðið svo mjög. Alveg orðin ómeðvituð hreyfing hjá mér og ég hætt að taka eftir henni meira að segja - var ekki fyrr en um 2 árum eftir að samandinu lauk sem ég áttaði mig á þessu. Einnig áttaði ég mig á að ég forðaðist aðstæður þar sem að "hætta" var á að einhver mundi knúsa mig eins og til dæmis þegar verið var að kveðjast og slíkt. Knús var jú ansi ágeng snerting og hana forðaðist ég.
Þetta og fleiri atriði sem ég hef ekki nefnt eru ekki beinlínis til að hjálpa manni að stofna heilbrigt samband við karlmann. Eða það eru nú sennilega ekki mörg sambönd sem þyldu það að annar aðilinn forðast algjörlega snertingu.
Í mörg ár forðaðist ég því náið samband við karlmann og óttaðist það mjög - þrátt fyrir að ég þráði að eignast heilbrigða og hamingjusama fjölskyldu. Ég treysti heldur ekki sjálfri mér til að dæma hvort viðkomandi væri góður í raun eða ekki. Ég hafði jú orðið ástfangin af manni sem ég taldi vera góðan einstakling og hafði svo hrapalega haft rangt fyrir mér. Því var ég dauðhrædd um að ég gæti gert sömu mistök aftur.
Til einhverra kynna stofnaði ég þó og eftir á séð þá valdi ég karlmenn sem ég í raun vissi að samband mundi aldrei ganga við. Ástæðurnar voru til dæmis mjög ólíkir persónuleikar, búseta langt frá minni búsetu og aðrar ástæður. Ef ég fann að einhver alvara var að færast í kynnin var ég hins vegar fljót að forða mér. Þó var það í 2 skipti sem ég leyfði mér að verða aðeins hrifin af karlmönnum en þau sambönd gengu ekki upp. Urðu aðeins til að valda mér sárindum og til að ég varð enn varkárari um hjarta mitt en áður. Ekki segi ég að sökin hafi verið eingöngu þeirra heldur var þetta bara samspil sem ekki gekk upp og slíkt særir.
Núverandi manni mínum kynnist ég svo á spjalli á netinu. Fann það strax að þarna hafði ég hitt á algjöran gullmola en ætlaði aldrei að stofna til sambands við hann. Við höfðum tala mikið og lengi saman og passaði ég mig alltaf á að færa aldrei neina alvöru í samtölin eða framtíðarplönin okkar. Hann þurfti að hafa mikið og lengi fyrir að fá mig til að hitta sig og tala fyrir utan netið. Eftir að við hittumst fyrst varð ég mjög hrædd um hjarta mitt þar sem að ég fann að hann var alveg sami gullmolinn að hitta hann fyrir utan netið og hann sýndi á netinu. Hann var einmitt bara hreinn og beinn og sýndi ekki aðra persónu á netinu en hann er í raunveruleikanum. Þessi uppgötvun færði mér hins vegar bara ótta og gerði ég tilraun til að loka bara á okkar samskipti eftir þetta. Ákvað þó að líklega væri allt í lagi að gefa honum tækifæri þó ég vissulega væri tilbúin með fullt af afsökunum fyrir að loka svo á sambandið.
Fljótlega eftir það vorum við farin að hittast sem par og ég fann að ég var að verða alvarlega hrifin. Það olli hins vegar aðeins því að ég fékk hræðslukast og brotnaði niður eitt kvöldið og hágrét og skalf bara. Vildi bara ljúka þessu sambandi hér og nú og loka á allt. Við hins vegar náðum þrátt fyrir þetta að tala um þennan ótta minn og hví hann væri þarna og ég samþykkti að prófa hvort ég yrði eins óttaslegin morgunin eftir. Ég var hins vegar búin að finna margar margar afsakanir fyrir að þetta gengi ekki og talaði við vinkonur mínar um þesar tilfinningar mínar. Þær hins vegar tóku mig og skömmuðu og gerðu mér ljóst að jú vissulega væri það mitt val hvort ég héldi áfram þessu sambandi en ég væri hins vegar að láta ótta minn stjórna og það væri óttinn en ekki ég sem væri að stjórna þessum flótta mínum. Þær sáu það að ég var farin að bera tilfinningar til hans og þá kom óttinn. Þær eru hins vegar það góðir vinir að þær bentu mér á þetta.
Eftir þetta ákvað ég að maður vissulega ynni ekki í lottó nema að eiga miða. Ég hefði ekki tækifæri til að eignast heilbrigða og hamingjusama fjölskyldu nema að takast á við þennan ótta minn og gefa sambandi tækifæri. Ég ákvað því að takast á við óttann og gefa sambandinu tækifæri. Maðurinn minn vissi allt um mitt fyrra samband og grunninn fyrir þessum viðbrögðum mínum og hefur það hjálpað okkur mikið að takast á við ýmis atvik sem hafa komið upp á.
Það tók mig smá tíma að losna við óttann við að rífa niður þá múra sem ég hafði byggt í kring um hjarta mitt og virkilega leyfa ástinni til mannsins míns að flæða þangað inn. Það tók líka tíma að læra almennilega að treysta honum og einnig að treysta sjálfri mér. En mikið hef ég oft þakkað fyrir það að ég ákvað að hafa hugrekki til að takast á við þennan ótta minn og gefa manninum mínum tækifæri. Í dag er ég ástfangin af honum og lifi í hamingjusamu og heilbrigðu hjónabandi og saman eigum við yndislega litla dóttur sem svo sannarlega er á hverjum degi að kenna mömmu sinni enn frekar að hleypa ástinni að fullu í hjarta sitt
En þetta hefur ekki verið átakalaust og sérstaklega í byrjun komu oft upp atvik sem gerðu að óttinn náði næstum yfirtökunum. Ég brotnaði nokkrum sinnum niður vegna þessa ótta míns og oft hef ég brugðist undarlega við hegðun eða orðum sem vel voru meint. Þessi viðbrögð hafa þá verið sprottin upp vegna þess að þau minntu mig á eitthvað í sambandi við ofbeldið.
En ég keypti miðann og fékk svo sannarlega hæðsta vinning sem hægt er að fá og það tvisvar sinnum.
Ástæða þess að ég segi ykkur frá þessari upplifun minni er sú að ég vil minna á að það er langt í frá svo að lífinu sé lokið hafir þú upplifað ofbeldi. Það er hægt að byggja upp góða sjálfsmynd aftur (með mikilli vinnu jú - en sú vinna margborgar sig). Það er svo sannarlega hægt að eignast heilbrigða og hamingjsama fjölskyldu vilji maður það því það er nú svo að sem betur fer eru flestir karlmenn traustsins og ástarinnar virði
Það er til eitthvað sem heitir gott líf. Við sem höfum upplifað ofbeldi getum alveg byggt okkur upp aftur og staðið uppi sem sigurvegarar í okkar lífi. Það er meðal annars stór ástæða þess að ég er svo á móti því að tala um þolendur og fórnarlömb ofbeldis. Ég lít svo langt í frá á mig sem þolanda eða fórnarlamb. Ég lít mun frekar á mig sem SIGURVEGARA
Og við manninn minn vil ég bara segja: Takk elsku ástin mín fyrir að vera þú og fyrir að elska mig og veita mér tækifæri til að elska þig. Ég elska þig meira með hverjum deginum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.9.2007 | 08:37
Að segja söguna opinberlega
Ég var fyrir löngu búin að lofa ykkur að setja hér inn viðtalið sem byrtist við mig í Íslandi í dag þann 21. janúar 2002 og fjallaði um reynslu mína sem þolandi heimilisofbeldis. Það hefur hins vegar gengið heldur brösulega að koma þessu í tölvtækt form en ég átti þetta aðeins á videospólu.
Viðtalið má segja að hafi verið upphafið af því að umræðan um heimilisofbeldi opnaðist loksins almennilega og fleiri stigu fram í dagsljósið seinna meir og sögðu sína sögu. Ein kona hafði nokkrum árum áður sagt frá reynslu sinni sem þolandi heimilisofbeldis og því miður fékk hún frekar dræmar viðtökur þrátt fyrir sitt gífurlega hugrekki. En þegar ég svo kem fram opinberlega með mína reynslu var almenningur greinilega tilbúnari til að horfast í augu við þann vanda sem heimilisofbeldi í rauninni er. Sem betur fer hefur umræðan opnast gífurlega um þessi mál síðustu árin og er ég í dag mjög stolt yfir að hafa átt þátt í þeirri opnun.
Þetta var mér hins vegar á sínum tíma gífurlega erfitt skref að stíga og í raun skref sem ég hafði ekki almennilega tíma til að hugsa um fyrr en það var stigið - kannski sem betur fer því annars er ekki vísst að ég hefði haft styrk til að stíga það skref. Í upphafi bloggferils míns hér á mbl setti ég inn færslu um það skref að koma opinberlega fram og má finna þá færslu HÉR.
28.9.2007 | 08:37
Að segja söguna opinberlega
Í dag ætla ég að byrta bréf sem ég skrifaði eitt sinn um aðdraganda þess að ég kom opinberlega fram með söguna mína sem og þær tilfinningar sem það ferli vakti hjá mér ásamt því hvernig mér leið fyrst á eftir. Ég segi það stundum í dag að ef ég hefði vitað hve mikil vinna þetta ferli var og ég hefði með þá vitneskju í huga fengið tíma til að hugsa mig um, hefði ég sennilega bakkað og farið í felur og aldrei farið af stað með allt sem ég gerði. Sjálfstraustið var enn veikt á þessum tíma og ég hefði nokkuð örugglega fundið ástæður til að hún litla ég ætti ekki að koma fram og segja sannleikann um ofbeldissamband mitt. En hún litla ég fékk ekki að hugsa og skellti sér bara beint í djúpu laugina - sem betur fer segi ég eftir á þar sem það varð til að opna umræðuna um ofbeldismál til muna og af því er ég mjög stolt í dag
Í dag er sálfstraustið bara gott og ég mjög hamingjusöm og sátt við mitt líf - þrátt fyrir það fæ ég alltaf ólgu í magann þegar ég tala um mína reynslu á hvaða vettvangi sem það er. Ég hins vegar læt það ekki stöðva mig því ég er þess fullviss að til þess að hafa möguleika að fræða og efla þær forvarnir sem þarf til að hægt verði að sporna við við ofbeldi, þá þarf að tala um þau aftur og aftur. Það þarf einnig að grafa niður þá skömm sem að þeir sem hafa upplifað ofbeldi finna svo oft fyrir þegar kemur að því að segja sögu sína. Það þarf að sýna þeim sem ekki hafa upplifað ofbeldi að við sem í því lendum erum bara venjulegar persónur. Við gætum þess vegna allt eins verið Jón eða Gunna í næsta húsi, systir þín eða bróðir, vinir þínir eða bara hver sem er. Það er því nauðsynlegt að ALLIR þegnar samfélagsins þekki einkennin - að allir þegnar samfélagsins tali opinskátt um þessi mál í stað þess að sópa þeim undir teppið. Þannig og aðeins þannig tel ég möguleika á að koma í veg fyrir að fleiri lendi í þessum ógnar vef sem ofbeldi er.
En hér kemur bréf það sem ég skrifaði fyrir nokkru um það að koma fram opinberlega:
Frá því ég skrifaði söguna mína hafa liðið ár og mikið vatn runnið til sjávar. Það hefur á ýmsu gengið og svo sannarlega hefur þetta verið dans á rósum og þá eins og Svíarnir segja: Lífið er dans á rósum; stundum á blöðunum og stundum á þyrnunum!
Ég hefði aldrei trúað því þegar ég skrifaði söguna mína að hún yrði þess valdandi að ég léti gamlan draum rætast og að sá draumur yrði eins umfangsmikill og hann í raun varð. Í fyrsta lagi skrifaði ég söguna fyrir sjálfa mig til að reyna að koma skipulagi á mínar hugsanir í sambandi við þá reynslu sem ég hafði gengið í gegn um og til að reyna að gefa vinum og vandamönnum skýrari mynd af því. Sendi ég söguna ásamt bréfi til vina og vandamanna einn góðviðrisdag alveg óafvitandi að nokkrir af vinum mínum sendu söguna áfram til fleiri og hún svo gekk eins og eldur um sinu um netið (Sagði að vísu í bréfinu að þeim væri velkomið að senda áfram ef það gæti hjálpað að fá hugmyndir, en í mínum huga horfði ég aðeins á mjög fáa. En í stað þess sendu nokkrir vinir mínir bréfið áfram á alla sem þeir þekktu og þannig koll af kolli).
Ég var aðeins í spennufalli eftir að hafa framkvæmt eitthvað sem var mér langt í frá auðvelt en þó eitthvað sem ég hafði lengi ætlað mér og ég var viss um að væri nauðsynlegt til að stíga næsta skref í uppbyggingu þeirri sem ég hafði verið að vinna í sjálfri mér. Ég var bæði mjög fegin að hafa látið verða af þessu og léttirinn við að skrifa söguna var ótrúlegur, en samtímis var ég mjög kvíðin yfir því hvernig viðbrögð ég fengi nú hjá þeim sem ég sendi bréfið. Ég hafði í svo mörg ár hafnað sjálfri mér sem persónu að ég hefði ekki orðið hissa ef ég hefði fengið svoleiðis viðbrögð frá einhverjum hópi. Því varð ég ekki lítið hissa þegar ég frétti að bréfið væri á hraðferð á netinu og þegar fjölmiðlar fóru að hafa samband og biðja um viðtöl.
Ég varð eiginlega hálf hrædd við þetta allt saman og langaði mest til að bara loka mig af og svara hvorki síma, tölvupósti né dyrabjöllu. En svo fór ég að hugsa um að ein stór ástæða þess að ég sendi bréfið var einmitt ósk mín að fá ráð til að opna augu almennings gagnvart þeim ógnvaldi sem heimilisofbeldi er. Og ekki gat ég bara skriðið í felur núna!
Ég beit því á jaxlinn og ákvað að veita nokkrum viðtal til að almenningur fengi að heyra þessa hlið málanna. Það var skjálfandi og kófsveitt dama sem fór í beina útsendingu í Ísland í dag. Vinkona mín sem hafði ætlað að koma með mér upp í útsendingarstúdíó og halda í höndina á mér komst því miður ekki með mér vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Ég sat því þarna og nagaði neglurnar og hugsaði hvern fj... ég væri að gera þarna. Hvað ég héldi eiginlega að ég hefði að segja almenningi og aðrar svipaðar hugsanir ásóttu mig. Þegar ég var kölluð inn í útsendingu eftir óralangan tíma að mér fannst var varla að ég gæti gegnið því fæturnir skulfu svo. Lá reyndar við að ég snéri við á síðustu mínútu en hugsunin um að ef til vill gæti ég hjálpað einni persónu sem væri í svipuðum aðstæðum og ég var, varð til þess að ég ákvað að halda áfram. Ég hafði strax og viðtöl bárust í tal ákveðið að ég færi ekki nema undir eigin nafni og mynd. Hafði alltaf hugsað sem svo þegar ég sá skuggamyndir á bak við skerm að það mundi aldrei nást almennilegur árangur í að opna umræður um þessi mál á meðan þyrfti enn að vera með þau í felum. Fannst það að tala á bak við skugga vera líkt og að sópa málunum undir teppi, að vísu heyrðist í viðkomandi en tilfinning mín var samt sem áður að þarna væri enn verið að fela raunveruleikann. Eins hugsaði ég sem svo að ef maður sér einhvern tala um svona hluti og sér að viðkomandi er bara venjuleg manneskja gæti það kannski orðið til að eyða ýmsum fordómum gagnvart þolendum heimilisofbeldis. Því kom ég fram undir nafni og mynd. En enn þann dag í dag get ég ekki horft á upptöku af þessum þætti án þess að fá herping í magann því ég man svo vel kvíðahnútinn og stressið (reyndar fæ ég þennan hnút við að skrifa þetta og það af sömu ástæðum). Ég varð sjálf mjög hissa þegar ég sá upptöku af þessu hve róleg ég virtist vera og að ég kom sæmilega til skila því sem ég vildi sagt hafa (þeir sem þekktu mig vel sáu þó auðveldlega hve stressuð ég var). Satt best að segja mundi ég ekki orð af því sem ég hafði sagt þegar ég gekk út úr salnum. Var svo stressuð að það bara var mér ómögulegt að muna það sem ég hafði sagt. Man að ég vildi aðeins drífa mig út svo ég gæti grátið í friði. Upptökumennirnir stöðvuðu mig þó á leiðinni út og vildu fá að taka utan um mig og óska mér til hamingju með hugrekkið. Þar láku fyrstu tárin því svo sannarlega fannst mér ég ekki vera hugrökk á þessari stundu skjálfandi af ótta við að hafa klúðrað öllu viðtalinu sem og við afleiðingarnar sem það gæti haft. Hljóp síðan út í bíl og sat þar lengi og hágrét.
Það stóð reyndar ekki á viðbrögðunum því síminn bókstaflega trylltist og allir vildu óska mér til hamingju með þetta skref. Smátt og smátt hvarf kvíðahnúturinn yfir að ég hefði klúðrað þessu öllu því ég gat ekki annað heyrt á viðbrögðunum en að ég hefði staðið mig með ágætum. Fór svo til vinkonu minnar og sat þar góða stund. Þegar heim kom beið blómvöndur frá stúlku sem ég hafði þekkt í Svíþjóð með hamingjuóskum. Þarna opnuðust flóðgáttirnar aftur en í þetta sinn voru það þó hamingjutár því mér þótti mjög vænt um að heyra frá henni aftur.
En lítið varð um svefn þessa nótt. Þegar ég ætlaði að sofna kom yfir mig þvílíkur ótti um að minn fyrrverandi mundi gera mér eitthvað til miska vegna þess að ég hafði nú sagt söguna eins og hún var. Áttaði mig á því um miðja nótt þvílíkur ógnvaldur og stjórnvaldur óttinn getur verið. Sat þá uppi í rúmi búin að loka öllum gluggum kyrfilega, með öll ljós kveikt og búin gera allar þær varúðarráðstafanir sem ég gat og skalf samt af ótta. Bjóst satt að segja við því á hverri stundu að hann kæmi fljúgandi inn um gluggann eða álíka og réðist á mig. Allt í einu uppgötvaði ég að þetta var nákvæmlega sú tilfinning sem hafði stjórnað lífi mínu í nokkur ár. Hafði ég náð að vinna bug á óttanum að mestu og hafði það gerst smátt og smátt. Ég gerði mér því ekki grein fyrir þessu fyrr en þarna hve gífurlega hann hafði stjórnað öllu sem ég gerði, sagði og hugsaði. Og þegar ég kom auga á þetta tók ég ákvörðun um að ég ætlaði ekki að láta þennan mann skemma allt líf mitt. Ég hafði gert honum kleift að stjórna lífi mínu með ótta í mörg ár og var í raun enn að gera honum það kleift að stjórna mér. Ég ákvað að ég yrði að vera sannfæringu minni trú og það gæti ég ekki ef ég óttaðist sífellt hefndaraðgerðir. Ég yrði bara að taka því sem koma skyldi. Enginn veit til dæmis hvenær slys getur orðið og þýðir ekki að láta ótta við slíkt stjórna öllu lífi sínu. Og þetta var svipað sem ég var að gera. Eftir þetta náði ég að sofna smá stund og hef oft síðan hugsað einmitt um þessa nótt bæði til að minna mig á þessa ákvörðun og til að minna mig á hve óttinn er öflugt stjórntæki. Ætli það hafi ekki verið fyrst þarna sem ég gerði mér fyllilega grein fyrir hví við sem erum föst í þessu neti eigum svo erfitt með að slíta okkur laus (allavega stór þáttur þess að mínu áliti).
Ég kom fram í blaðaviðtali og einhverjum útvarðsviðtölum líka, en hafnaði mörgum boðum því það var aldrei meining mín að vekja athygli á mér persónulega heldur aðeins opna umræðuna um þessi mál. Taldi ég mig vera búna að gera það og nú gæti ég stigið skref til baka og fylgst með umræðunni. Ákveðið var að stofna samtök fyrir þolendur heimilisofbeldis sem og heimasíðu. Við fengum gífurleg viðbrögð og satt að segja flest mjög jákvæð. Vissulega fékk ég hótanir um kæru og fleira en var fyrirfram búin að ákveða að ef það væri sá tollur sem ég þyrfti að borga fyrir að segja sannleikann þá yrði svo að vera.
Næstu mánuðir voru mjög annasamir hjá mér og ég fylltist gleði og eldmóði þegar mér varð ljóst að ég ekki einungis gat aðstoðað fólk heldur var ég að því. Ég gerði þó þá skyssu að ég ætlaði að bjarga öllum heiminum og setti allan minn kraft í það. En það endaði aðeins með því að ég keyrði mig út. Var þó svo heppin að mér var bent á þetta fljótlega og ég fann það líka sjálf. Var þó orðin þannig að ég var sífellt að fá allar pestir og orðin svo orkulaus að ég þurfti oft að leggjast gólfið til að ekki liði yfir mig. En tók mér síðan gott sumarfrí og notaði það til að sofa og hvílast og reyndi að halda mig sem mest frá samtökunum. Og tókst að finna minn styrk aftur þó það vissulega taki smá tíma að byggja upp þrek. En ég lærði að þó ég vissulega vilji gera allt sem hægt er verð ég fyrst og fremst að hugsa um að setja súrefnisgrímuna á sjálfa mig áður en ég rétti næsta manni hana. Hef síðan reynt að passa mig á að taka mér góða frídaga inn á milli til að hlaða batteríin. En það gefur mér líka mikið að geta hjálpað þeim sem á þurfa að halda og svo sannarlega hefur þetta allt gefið mér mikið.
Ég hélt líka áfram að byggja sjálfa mig upp og vinna úr þessu öllu eins og fram kemur í öðrum skrifum mínum.
En hér getið þið séð viðtalið og dæmt sjálf hvernig til tókst.
Bloggar | Breytt 12.7.2008 kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.9.2007 | 08:43
Hver ber ábyrgðina?
Í dag ætla ég að setja hér inn smá pistil sem ég skrifaði eitt sinn um hugleiðingar mínar á hver ber ábyrgðina á ofbeldinu. Það er nefnilega enn þann dag í dag þannig að við sem höfum upplifað að vera beitt ofbeldi erum allt of gjörn á að taka á okkur ábyrgðina fyrir öllu því sem gerist í sambandinu. Kannski ekki nema von þar sem að það er aðeins nýlega farið að tala um það að ábyrgðin er ALLTAF gerandans að bera. Sama hvað gerist í sambandinu þá er það alltaf ákvörðun gerandans að bregðast við með ofbeldi.
Þetta er þó eitthvað sem gerandinn er oft mjög duglegur að vísa frá sér og mjög oft heyrir maður um að gerandinn sé duglegur að láta þann sem hann beitir ofbeldi heyra að það sé vegna þess hvernig viðkomandi hegðar sér að hann "neyðist" til að beita ofbeldi. Minn x var mjög duglegur að segja mér að ég ætti alla ábyrgð á því hvernig hann kom fram því ég væri svo ómöguleg og allt það - og því miður trúði ég honum fullkomlega á þeim tíma og tók á mig ábyrgðina, skammaðist mín fyrir ástandið og gerði allt sem ég gat til að leyna því hve slæmt það var. Eftir að sambandinu lauk hafði hann meira að segja viðurkennt eitt sinn við vini að hann hefði beitt mig ofbeldi - hafði vísst orðað það sem svo að ég væri svo erfið og hefði hreinlega króað hann af í horni og neytt hann til að beita mig ofbeldi!!
Ég vildi gjarna fá að vita ef einhver einhverntíman hefur neytt aðra persónu til að beita sig ofbeldi. Sjáið þið það ekki fyrir ykkur að þeir sem eru að upplifa ofbeldi út um allan heim eru að upplifa það vegna þess að þeir neyða gerandann til að beita sig ofbeldi??? Ehhhhhh neiiiiiiiiiiiiiiiiiiii ekki alveg og mér finnst bara ótrúlegt að nokkur mannvera skuli láta sér detta í hug að segja slíkt - en auðvitað er allt sagt til að reyna að fyrra sig ábyrgðinni.
Við sem búum í þessu samfélagi þurfum því að fara að setja ábyrgðina 100% þar sem hún á heima - hjá gerandanum! Þá ábyrgð setjum við þar með því að hætta að reyna að finna afsakanir fyrir hann, hætta að reyna að finna ástæður fyrir því að hann beitti ofbeldi, hætta að sópa þessu undir teppi og þannig horfast ekki í augu við það ofbeldi sem fram fer í samfélagi okkar, hætta að hugsa sem svo að það eigi ekki að tala um þessi mál við fjölskyldu gerandans til að þau fái ekki sektarkennd til dæmis. Það er nefnilega ekki heldur fjölskylda gerandans sem ber ábyrgðina - sama hve gott (eða slæmt) uppeldi og aðbúnað gerandi hefur fengið frá fjölskyldu sinni, þá er það alltaf hans ákvörðun hvernig hann bregst við lífinu.
En hér kemur bréfið sem ég skrifaði um þessi mál fyrir nokkrum árum síðan.
Að taka á sig ábyrgðina á því að leyna ofbeldinu jafnvel eftir að ofbeldissambandinu er lokið.
Fór að velta fyrir mér þeirri aldagömlu vanþekkingu að þolandi ofbeldisins taki á sig ábyrgðina á því, sem og ábyrgðina á því að leyna ofbeldinu. Man sjálf að það sem hefti mig lengi vel við að koma fram og segja mína sögu sem þolandi ofbeldis var einmitt það að ég vildi ekki opinbera ofbeldið, vegna þess að þar með væri ég að opinbera það fyrir fjölskyldu hans, auk þess sem og mér fannst ég vera að opinbera fjölskyldu hans.
Það hefur nefnilega alltaf verið sá misskilningur í gangi að fjölskylda ofbeldismannsins hljóti að eiga einhverja sök á því hvernig komið er. Einhverja sök þess að gerandinn hegðar sér eins og hann gerir. Það er, að sú sök sem ekki sé hægt að setja á þolandann sjálfan (því þolandinn hefur alltaf verið sakaður) sé sett á fjölskyldu gerandans. Sennilega er þessi hugsun sprottin aðallega vegna þess að það hefur tíðkast að horfa á gerandann sem einhvern sem á bágt og getur því ekki stjórnað sér. Oftast er þá þolandanum kennt um, hann hljóti að vera svo ómögulegur að gerandinn hafi engin önnur úrræði en að bregðast við með ofbeldi. Ef þolandinn á ekki sökina er oft litið á að ástæðurnar séu uppeldislegar. Gleymist að horfa á að það er alveg sama hverjar aðstæður í uppeldi eða ofbeldissambandinu eru, þá er það alltaf fullkomin ábyrgð gerandans hvernig hann bregst við. Hann einn getur stjórnað því á hvaða hátt hann bregst við og þar af leiðandi að hann bregðist við með ofbeldi. Hann einn ber ábyrgðina á þeirri ákvörðun sinni og þar af leiðandi ekki við neinn annan að sakast.
Eins og ég sagði fyrst þá velti ég þessu mikið fyrir mér áður en ég kom fram með mína sögu því sjálf óttaðist ég að foreldrar og fjölskylda hans yrðu gerð ábyrg á ofbeldinu að einhverju leiti. Það hefur þó aldrei verið á nokkurn hátt þeirra ábyrgð í mínum huga en ég vildi samt ekki valda því að augu fólks beindust að þeim. En ákvörðun mín um að koma fram var byggð á því að ég vildi opna augu almennings fyrir ofbeldismálum og þá yrði þessi hluti að vera eitt af því hugsaði ég.
Síðar var það í raun systir mín sem hjálpaði mér að sjá þetta í alveg nýju ljósi án þess að hún gerði sér grein fyrir hve mikilvæg orð hennar voru. Þannig var að þegar ég átti afmæli og var á skemmtistað ásamt vinum og fjölskyldu hitti ég bróður mannsins míns fyrrverandi. Tókum við tal saman og meðal annars voru þessi mál rædd. Það sem hann var ósáttastur við í sambandi við að ég kom fram var einmitt það að eins og hann orðaði það "þú (ég) hefði nú getað hugsað um að X ætti foreldra áður en þú (ég) ákvaðst að koma fram". Ég fékk sting í magann því hann margítrekaði í samtali okkar einmitt það sem olli mér sem mestri vanlíðan áður en ég tók endanlega ákvörðun. Því ég vildi ekki á nokkurn hátt særa fjölskyldu hans. Systir mín hlustaði á þetta í nokkurn tíma og lagði inn orð við og við. Að lokum ofbauð henni endurtekning fyrrverandi mágs míns á þessum hluta og sagði við hann " x hefði sjálfur átt að hugsa um að hann ætti foreldra á meðan hann var að berja Dísu"
Þar með enduðu samræður okkar við manninn en ég hugsaði mikið um þessi orð systur minnar því þau sýndu mér sannleikann í alveg nýju ljósi. Þarna loksins gat ég viðurkennt fyllilega það sem satt og rétt er að ég ætti ekki að bera ábyrgð á að leyna ofbeldinu á nokkurn hátt. Ábyrgðin á ofbeldinu var ekki mín og ég þurfti ekki að hafa sektarkennd yfir að tala um ofbeldið. Ef einhver ætti að hafa sektarkenndina yfir að fjölskyldan frétti af því, þá væri það enginn annar en x því hans var ákvörðunin um að beita ofbeldinu og einn hluti ábyrgðarinnar því sá, að aðstandendur gætu fengið veður af því hvað um væri að vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.9.2007 | 08:35
Að byggja sig upp
Ég vil byrja á að þakka fyrir kommentin. Alltaf gott að fá viðbrögð við því sem maður er að gera
Í dag ætla ég að koma með bréf sem ég skrifaði eitt sinn um hópastarfið í Stígamótum en það var sá hluti minnar uppbyggingar sem tók jú hvað mest á en skilaði líka hvað mestum árangri.
Það er nefnilega mikil uppbygging á líkama og sál sem sá sem hefur upplifað ofbeldi þarf að fara í gegn um eftir á til að ná að öðlast sjálfstraust og heilsu á ný. Sú uppbygging er oft mjög erfið en ég segi samt að hún er mjög auðveld samt. Svona miðað við hvernig það var að búa við ofbeldið sjálft er flest auðvelt eftir á ef maður fer að miða við hvernig var að lifa í stöðugum ótta. Sú uppbygging gefur manni einnig jákvæðari og glaðari persónu sem hefur betur færi á að njóta lífsins en áður og þá er hún vissulega margfalt þessi virði þrátt fyrir að vera meira en að súpa blávatn
Ég reyndar hef síðustu ár mikið hugsað um að ég vil útrýma orðum eins og þolandi ofbeldis og fórnarlamb ofbeldis. Ég tel að þessi orð bjóði upp á að þeir sem hafa upplifað ofbeldi (tel það betra orð) horfi á sig sem þolendur og fórnarlömb allt sitt líf - jafnvel eftir að sambandinu er lokið. Það býður líka upp á neikvæða mynd samfélagsins á þá sem hafa upplifað ofbeldi. Við sem höfum upplifað ofbeldi erum nefnilega langt í frá einhverjir aukvisar eða aumingjar. Við erum vissulega flest okkar niðurbrotin eftir þessa upplifun okkar en það er svo sannarlega hægt að breyta því og við getum staðið uppi sem algjörir sigurvegarar í okkar lífi. Jafnvel mun sterkari en við höfum nokkru sinni verið. Það er nefnilega langt í frá hægt að setja samansemmerki á milli þess að hafa upplifað ofbeldi og að einstaklingurinn sé ekki með sama styrk og þeir sem ekki hafa upplifað það. Það þarf sterk bein til að byggja sig upp eftir slíka reynslu og ef maður finnur ekki þann styrk sjálfur er hægt að sækja aðstoð við að finna hann hjá aðilum eins og þeim sem eru hér í tenglum á þessari síðu.
En hér kemur frásögn mín sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum um reynslu mína af hópastarfinu hjá Stígamótum:
Hópastarfið hjá Stígamótum er sá þáttur í uppbyggingu minni sem tók hvað mest á mig tilfinningalega en jafnframt sá þáttur sem hjálpaði mér einna mest. Ég hafði svo sem leitt að því huga að kannski ætti ég að fara í eitthvað svona hópastarf en sló því alltaf frá mér aftur. Hugsaði sem svo að ég hefði nú ekkert að gera þarna þar sem mín reynsla væri svo aumkunarverð miðað við marga aðra. Og hvað þá að ég ætti erindi til Stígamóta til að vinna mig út úr afleiðingum heimilisofbeldis. Ég fór reyndar fyrst til Stígamóta fyrir hönd samtakanna og var ekki fyrr en seinna að ég viðurkenndi að ég persónulega ætti erindi þarna. Fór ég í einkaviðtöl sem urðu svo til þess að ég ákvað að fara í hópastarf í framhaldi af því. En vissulega hugsaði ég enn sem svo að ég ætti nú samt ekkert erindi þangað. Hafði að vísu eitthvað verið talað um að til væri eitthvað sem héti sambandsnauðganir en hvað kom það svosem mínu sambandi við? Ég komst þó að því að ég átti fyllilega erindi þarna og vissulega hafði kynlífið ekkert verið undanskilið ofbeldinu. Tók mig smá tíma að viðurkenna að ég hafði síðustu árin stundað kynlíf þó svo að ég hefði engan áhuga á því lengur. En til að forðast aðrar afleiðingar þess að neita kynlífi lét ég það yfir mig ganga. Hataði svo sjálfa mig enn meira fyrir að stunda kynlíf með manni sem ég óttaðist. Ekki ætla ég að telja upp nein dæmi eða fara nánar út í þennan hluta ofbeldisins hér. Svo sannarlega var það mér mjög erfitt og tók mikið á mig tilfinningalega að gera upp þessar hliðar sambandsins sem og aðrar hliðar þess, en það hjálpaði mér líka að losa mig við tilfinningar eins og sjálfshatrið og reiðina út í sjálfa mig. Ég skildi að ég hafði einungis brugðist rétt við í óheilbrigðum aðstæðum. Ég man að jólin þetta árið var ég einmitt í miðju ferlinu í hópastarfinu og í mikilli og erfiðri tilfinningavinnu. Ég fór í sveitasæluna til foreldra minna þó ég hafi í raun alls ekki verið í stakk búin að vera innan um fólk. Þessi jól tóku líka mikið á mig og þá sem í kring um mig voru. Man að ég var með tárin í augunum nánast allan tímann þó ég vissi ekki alveg hvað væri að valda því. Það var alveg sama hvað við mig var sagt (jákvætt eða neikvætt) ég bara táraðist en náði samt aldrei að sleppa grátinum fram og hafði aðeins grátið í örfá skipti undanfarin ár því ég frysti allar tilfinningar mínar til að brotna ekki gjörsamlega saman. Var ég mjög viðkvæm og fann að það var einhver sorg að plaga mig þó ég vissi ekki alveg hvað ég var að syrgja. Það var svo vinur minn sem hjálpaði mér að losa tappann nokkrum dögum seinna. Hann hringdi í mig og talaði við mig þar til ég loks gat grátið, og úfffffffffff hvað ég grét, það komu grátkviður í gusum og mér fannst ég hreinlega vera að rifna því það þurfti svo mikið að komast út í einu. Það var mjög sárt líkamlega og andlega að sleppa öllum þessu sáru tilfinningum út en jafnframt mikill léttir. Ég grét í fleiri tíma og var algjörlega uppgefin á eftir. En þarna náði ég að taka tappann úr og þetta var byrjunin á því að ég fór að leyfa sjálfri mér að finna tilfinningar eins og sorg og reiði. En þetta var þó aðeins byrjunin og það vissi ég og hef verið að vinna í þessum tilfinningum sem og öðrum síðan. Hópastarfið hjá Stígamótum er þó eitthvað sem ég þakka fyrir að hafa farið í og þakka þeim hjá Stígamótum fyrir að koma slíku starfi á laggirnar. Ég lærði þar til dæmis að reiðin sem ég hafði byrgt niðri svo lengi var ekki hættuleg. Ég hafði verið hrædd við að horfa upp á reiði fólks sem og að finna þessa tilfinningu hjá sjálfri mér því í mörg ár hafði ég jú þurft að takast á við afleiðingar reiði hjá sambýlismanni mínum. Ég var alveg viss um að ef ég mundi leyfa mér að viðurkenna reiðina í mér mundi ég bókastaflega springa og gera eitthvað sem ég síðar sæi eftir. Því fannst mér betra að frysta þessa tilfinningu. Hjá Stígamótum lærði ég að viðurkenna reiðina og nýta hana sem drifkraft í lífinu til að byggja upp eitthvað jákvætt. Ég lærði að það að vera reiður er ekki það sama og að skaða aðra manneskju líkamlega eða andlega. Ég fór smátt og smátt að leifa mér að verða reið og sýna það. Þetta var líka stór þáttur í því að þora að sýna ef mér var misboðið og jafnvel reiddist þess vegna. Ég til dæmis lærði þar eina aðferð til að fá góða útrás fyrir reiði sem ég hef oft notað eftir það. Aðferðin er sú að fara á afskekktan stað og öskra og öskra eins hátt og þú getur, það veitir manni ótrúlega útrás sem og að þá er maður líka að viðurkenna reiðitilfinninguna í stað þess að afneita henni. Þú ert bara að vinna úr reiðinni án þess að skaða aðra. Svo er líka gott að taka til dæmis tóma kókflösku og nota hana sem barefli til að berja stein til dæmis. Það er allt í lagi að ímynda sér að þú sért að berja þann sem þú ert reiður út í því þú veist að þú getur stjórnað reiði þinni og mundir aldrei beita ofbeldi gagnvart öðrum. Fyrst og fremst hjálpaði hópastarfið mér að sjá og viðurkenna margar tilfinningar og atvik sem ég hafði afneitað eða fryst. Ég hreinsaði mikið til í minni sál þarna og ekki síður mikilvægt að þetta var mér driffjöður að halda áfram úrvinnslunni eftir hópastarfið. Ég hvet fólk endilega til að fara í einhverskonar hópastarf (Stígamót, Kvennaathvarfið, 12 spora kerfið eða annað) og þó það vissulega taki mikið á og sé erfitt þá veitir það manni svo mikla hjálp í úrvinnslunni að það er ómetanlegt. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2007 | 09:31
Að upplifa ofbeldi
Fyrir nokkrum árum settist ég niður og skrifaði sögu mína um reynslu af því að búa við ofbeldi. Ég er nýbúin að ljúka BA verkefni mínu sem tengist ofbeldismálum og mun ég seinna segja ykkur frá því. Ég hins vegar hef ákveðið að byrta aftur söguna mína svona til upprifjunar og seinna mun ég skrifa framhaldið þ.e. hvernig mér hefur gengið í lífunu eftir að ég skrifaði söguna. Mín saga er ekki sérstakari að nokkru leiti en saga annarra sem hafa upplifað ofbeldi á heimili sínu. Mín saga er aðeins sérstök fyrir mig þar sem hún er einmitt mín saga, en allar sögur af ofbeldi eru jafn "mikilvægar". Ég skrifaði söguna mína til að átta mig sjálf betur á hlutunum sem og til að opna augu fleiri fyrir því sem gerist í ofbeldissambandi. Þessa hlutu þurfum við nefnilega að horfast í augu við og tala um. Ekki bara þau sem upplifað hafa ofbeldi heldur allir sem í heiminum búa. Ofbeldi er nefnilega ekki einkamál heldur samfélagsmál.
Hér er sagan eins og ég skrifaði hana fyrir um 7 árum
Ég er ein af þeim sem lent hafa í ofbeldissambandi og verið föst í því í langan tíma, án þess þó að getað sagt til um það í dag af hverju það gerðist. Það er röð atvika og tilfinninga sem gera það að maður festist í svona vítahring án þess að sjá það.
Eftir á að hyggja þá var sambandið aldrei gott og andlegt ofbeldi var til staðar allan tímann. Ég fékk mjög fljótt að vita það að ég væri ekki mikils virði og ætti bara að þakka fyrir að hann skildi umbera mig. Í fyrstu var þessum orðum pakkað inn í umbúðir svo að þær voru ekki svo augljósar, en skildust samt og særðu. Og svona ofbeldi er mjög skilvirkt, því fái maður að heyra það nógu oft að maður sé lélegur pappír fer jafnvel hin sterkasta persóna að trúa því að lokum. Og ég trúði því!! Hef sjálfsagt aldrei haft gott sjálfstraust og því auðvelt að telja mér trú um að ég væri drusla, hækja, hóra eða hvað af þeim nöfnum sem honum datt síðar í hug að nefna mig.
Nokkrum mánuðum seinna fórum við svo út að skemmta okkur og endaði sú skemmtun með drykkju og því að ég fékk á kjaftinn í fyrsta skiptið. Það var áfall, mikið áfall. Ég var lömuð. Það er ekki hægt að lýsa í orðum því áfalli sem maður verður fyrir þegar einhver sem maður heldur að elski sig slær mann, og það ekki neinn kinnhest heldur hnefahögg. En daginn eftir var hann mjög miður sín og lofaði öllu fögru og hætti ekki fyrr en ég fyrirgaf honum þessi mistök eins og hann orðaði það. Og ég taldi mér trú um að þetta hafi bara verið fyllerísrugl. Já sjálfsblekkingin getur verið sterk. Og þar með hófst vítahringurinn. Fyrstu 2-3 árin gerðist þetta æ oftar en þó aðeins ef hann var undir áhrifum áfengis. Á þessum tíma fluttum við líka til Svíþjóðar sem gerði að ég varð mjög einangruð. Ég hafði alltaf leynt þessu og það að búa erlendis gerði mér það mun auðveldara að leyna þessu. Andlega ofbeldið jókst alltaf og oft kom það fyrir að ég hugsaði sem svo: vildi að hann lemdi mig frekar en þetta. Það var sárt já .en andlega ofbeldið var þó sárara!
Svo fór ofbeldið að koma án vínsins. Og síðust árin var það nánast daglegur viðburður. Stundum í formi högga og stundum í formi þess að taka í öxlina á mér og hóta mér, en þó oftast bæði í senn og nokkur skipti tók ég mér veikindafrí úr vinnu til að ekki sæjust þessir marblettir. Þó má segja að það var sjaldan sem hann barði mig í andlit eða þar sem sæist á mér. Meðvitað eða ómeðvitað?? Það veit ég ekki og fæ sennilega aldrei svör við.
Ég lifði í hræðslu. Var hrædd við að koma heim til mín en jafnframt hrædd við að koma of seint heim til mín. Því allt gat skapað högg. Það sem var svo miður í dag að ég átti skilið að vera barin fyrir var allt annað á morgun. Ég reyndi alltaf að breyta minni hegðun til að þóknast honum, en það tókst aldrei því kröfurnar breyttust sífellt. Einu sinni man ég að ég sagði við hann: og þú biðst ekki einu sinni fyrirgefningar á því að berja mig. Svarið var: til hvers að biðjast fyrirgefningar á einhverju sem að ég veit að gerist aftur!!!
Ég man að nágrannakona mín reyndi eitt sinn að tala við hann og það endaði bara með því að hann gekk í skrokk á henni .þá brjálaðist ég og henti honum út. Kannski vegna þess að þá var ég að verja einhvern annan, ég veit í raun ekki hvað gerði það, ég fékk bara nóg.
En þetta atvik varð líka til þess að ég leyndi þessu enn betur því ekki ætlaði ég að verða þess valdandi að hann gengi í skrokk á vinum mínum.
Hann hótaði í sífellu að drepa mig. Sagði að það væri sér sönn ánægja að sitja í fangelsi fyrir það. Bara ef hann vissi að ég væri dauð. Svona hækja og fífl og allt það ætti ekki skilið að lifa.
Undir það síðasta var ég orðin svo hrædd að ég svaf með kökukeflið við hliðina á mér. Til að hafa séns á að lifa af ef hann réðist á mig í svefni.
En eftir 9 ár fékk ég nóg. Það var hræðsla sem hélt mér fastri síðustu árin ásamt því að ég trúði því að ég ætti ekki annað skilið og gæti ekki staðið á eigin fótum. Maður finnur sér allskonar afsakanir og einblínir á þær, sér ekki nema eitt atriði hversu vitlaust sem það getur verið. En það var líka hræðsla sem gerði að ég sagði stopp. Ég vildi lifa lengur. Einhversstaðar djúpt í sálu minn átti ég von um betra líf mér til handa.
Svo ég fann loksins hugrekkið og sagði stopp. En það tók 3 mánuði að gera upp okkar mál og selja íbúðina okkar. 3 mánuði í helvíti, því þrátt fyrir fyrri viðburði þá keyrði þetta út. Honum fannst ég vera að svíkja sig og hótaði í sífellu að drepa mig. Ég vissi aldrei hvort ég mundi lifa þennan daginn af.
En það tókst!!!
Ég flutti í litla íbúið og kom mér þokkalega fyrir. Og þá tók næsta sjokk við.
Ég hafði alltaf leynt þessu. Var orðin niðurbrotin andlega og líkamlega og vildi reyna að byggja upp mitt líf. Þurfti styrk og stuðning og vildi hætta þessu leynimakki. Sagði því vinum mínum frá. Hélt að það væri besta vinkona mín. En hún gat ekki horfst í augu við þetta og henti mér út með þeim orðum að ég væri of feit, of rugluð og of frek til að umgangast.
Þarna brotnaði ég.
Ég veit ekki enn þann dag í dag hvað gerði að ég lifði næsta sólahring af. Ég vildi ekki lifa, fannst lífið ekki þess virði. Hugsaði um sjálfsmorð og reyndi.
En ég er hér enn. Og fyrst ég lifði þetta af ákvað ég að ég ætlaði að komast í gegnum þetta og verða sterk persóna.
Það hefur ekki verið átakalaust. Var mjög langt niðri hvað varðar sjálfstraust og treysti heldur engum lengur. Hoppaði hæð mína og greip um höfðu mér (mér til varnar) ef einhver hreyfði sig snögglega nálægt mér. Forðaðist allt sem líkamsleg snerting hét.
En smátt og smátt tókst mér að vinna á þessu. Það hefur að vísu verið ganga smárra skrefa en gott er gullkornið sem segir að hver þúsundmílnaferð hefst á einu litu skrefi.
Eitt það fyrsta sem ég lærði var að hætta að hlusta á gagnrýni og fara að hlusta á hrós annarra. Það var mjög erfitt í fyrstu því ég trúði því alls ekki að ég ætti skilið hrós eða hefði unnið fyrir því. Smátt og smátt varð það eðlilegra að hlusta á hrósið og láta ekki gagnrýnina rífa mig niður. Síðar kom stærra skref að virkilega trúa og viðurkenna að ég átti hrósið skilið og hafði unnið fyrir því. Svona má lengi telja litlu skrefin sem hjálpuðu mér.
Í dag er ég sterk persóna og elska að knúsa vini mína. Eina sem ég þarf að vinna með er að ég vantreysti karlmönnum það mikið enn að ef einhver nálgast mig með áhuga á sambandi fer ég í baklás og forða mér. Þetta er eitthvað sem ég er að vinna í og ætla mér að sigra í þerri orrustu eins og þeim fyrri.
Ástæða þess að ég segi brot af minni sögu hér er sú að ég vona að hún verði til að hjálpa einhverjum til betra lífs og að skilja kannski smá hvað það er sem gerist í ofbeldissamböndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.9.2007 | 08:36
Saga Hetju
Ég rakst á þessa sögu í bloggheimum og verð bara að setja hlekkinn hér inn og hvetja þig lesandi góður til að lesa http://skessa.blog.is/blog/skessa/entry/315407/#comments og í framhaldi af þessari lesningu er ekki hægt að sleppa hinni hlið sögunnar http://kleopatra.blog.is/blog/kleopatra/
Sit hér með tárin í augum eftir þessa lesningu og langar að segja svo margt til að lýsa aðdáun minni á þreki þeirra sem þessar sögur skrifa. En aldrei þessu vant er ég bara orðlaus - enda erfitt að finna orð sem lýsa þeim styrk sem þær eru að sýna þarna. Mér dettur samt helst í hug HUGREKKI.
PS þar sem ég er ekki svo klár að ég sé búin að finna út hvernig hægt er að hlekkja hér inn svo þið getið farið beint á síðurnar verðið þið bara að gera copy/paste í vafrann ykkar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)