. - Hausmynd

.

Heppni

Það er þetta með heppnina.  Ég hef verið að hugsa um hana undanfarna daga og hef eins og svo oft áður komist að þeirri niðurstöðu að ég er gríðarlega heppin.  Ég á yndislegan mann og enn yndislegri dóttur, bý í góðu húsnæði, á vel í mig og á, er að ljúka námi sem er bara frábært nám, er í góðri vinnu og á frábæra vini og góða fjölskyldu.  Já ég er sko MJÖG heppin Grin

En fyrir rúmlega 10 árum síðan taldi ég mig langt í frá heppin einstakling og taldi meira að segja að heimurinn yrði mun betri ef ég væri ekki hér.  Reyndi meira að segja að stytta líf mitt (en það tókst nú sem betur fer ekki).  Vissulega voru þessar tilfinningar mínar sprottnar af því að ég var andlega og líkamlega gjörsamlega niðurbrotin eftir margra ára ofbeldisssamband.  Samband sem einkenndist meðal annars að því að x-ið sagði mér oft hve mikil áþján ég væri fyrir alla og meira að segja sagðist oft ætla bara að drepa mig sjálfur til að losa heiminn við mig.  Hann þyrfti sko örugglega ekki að sitja í fangelsi fyrir það heldur yrði hann nú bara verðlaunaður og honum þakkað.   Það versta við þetta allt finnst mér í dag ekki endilega að hann kom svona fram heldur það að ég trúði honum orðið algjörlega.  Já það skilur sennilega enginn svona ferli nema að lenda í því sjálfur.  Sem betur fer reyndar því það ferli sem fer í gang í ofbeldissambandi er svo sjúkt.  En samt væri mjög gott að fleiri skildu þessar tilfinningar og líðan sem sá sem upplifir að vera beittur ofbeldi finnur fyrir, því þannig væri möguleiki á að fleiri yrðu vakandi gagnvart slíkum einkennum hjá sjálfum sér (þegar þeir eru á leið að sigla inn í slíkt samband) sem og hjá öðrum og gætu þannig jafnvel komið í veg fyrir að svo margir festist í þessum vítahring sem ofbeldissamand er.

En þrátt fyrir þessar tilfinningar mínar fyrir 10 árum má jafnvel segja í dag að ég sé heppin að hafa upplifað þær.  Án þeirrar uppbyggingar sem ég fór í eftir þetta tímabil lífsins væri ég ekki sú sem ég er í dag og í dag er ég persóna sem ég má vera stolt af Smile  Vissulega á ég mína daga eins og allir þar sem að púkinn situr á öxlinni hjá mér og reynir að telja mér trú um að ég sé ekki nógu klár eða góð.  En púkinn gerir ekki annað í dag en að minna mig á að þroska mig og halda áfram að byggja mig upp því það er eilífaðrverkefni.  Ég er nefnilega langt í frá fullkomin - eins og reyndar við öll - og því er alltaf hægt að bæta það sem gott er fyrir.

Það að ég bjó við ofbeldi í svo mörg ár gerir líka að í dag er ég meðvituð um þessa hlið okkar samfélags og horfist í augu við að slíkt er staðreynd sem þarf að takast á við.  Staðreynd sem aðeins er möguleiki til að sporna við með að vera meðvitaður um vandann, tala um hann, greina hann og fræða um hann.  Aðeins þannig höfum við möguleika á að beita forvörnum sem virka svo æ færri lendi í þessum vítahring.  Ef fleiri og fleiri þekkja einkenni ofbeldis og eru meðvitaðir um að slíkt getur komið fyrir aðstandendur þína, vini og jafnvel þig sjálfan, þá er meiri möguleiki á að viðkomandi nái að sjá hættumerkin í tíma og forða sér áðurn en að slíkt samband nær að skaða andlega og líkamlega heilsu viðkomandi og það jafnvel fyrir lífstíð.

Þessi mál þarf nefnilega að tala í hel en ekki þegja í hel.  Svo kæru lesendur - sameinumst í að tala þessi má í hel í stað þess að stinga höfðinu í sandinn og hugsa sem svo að slíkt hendir aðra en ekki mig. 


Spennufall

Já það er ekki alveg laust við að það sé smá spennufall í gangi hér núna.  Skilaði BA ritgerðinni í dag og það verður að viðurkennast að það var mjög ljúft.  Vissulega er námið búið að vera MJÖG skemmtilegt og gefandi og ýmislegt gæti ég meira að segja hugsað mér að endurtaka.  Frábærir bekkjarfélagar og flestir kennarar algjörlega framúrskarandi.  Heyrði reyndar í flestum þeirra bekkjarfélaganna sem einnig voru að skila af sér í dag og öll vorum við í sama tilfinningapakkanum - höfðum dansað af gleði, argað af létti og langaði helst til að setjast niður og gráta þegar spennufallið varð algjört Grin

Rannsóknin sem ég gerði var  bæði áhugaverð og þörf og vissulega mjög gaman og reynsluríkt að vinna hana - en þrátt fyrir það var gott að vera búin.  Gott að vita til að ég nýtti BA ritgerðina í verkefni sem sennilegast á eftir að nýtast mörgum vel. Gott að vita að núna get ég leyft mér að bara VERA - að njóta þess 150% að vera mamma og getað eytt öllum þeim tíma sem ég vil með litlu skottunni minni án þess að fá samviskubit eða stresskast yfir að ég sé að taka tíma frá ritgerðinni.  Ekki er verri tilhugsunin að í fyrsta skiptið í mörg ár eigi ég jafnvel tíma til að föndra, mála og fleira hér heima og gera allt annað sem setið hefur á hakanum.

En núna er það spennufallið sem er ríkjandi og ég ætla að njóta þess að liggja í leti í kvöld vitandi að ég þarf ekki að hafa nokkuð samviskubit vegna þess - get þess vegna legið í heita pottinum allt kvöldið þó ég reyndar viti að ég hafi aldrei þolinmæði til þess haha.  Spennufallið er meira að segja svo mikið núna að ég er að hugsa um að taka morgundaginn sem letidag og jafnvel bara vera á náttsloppnum allan daginn mmmmmmmmmmmm ljúft Smile


Jómfrúbloggið

ákvað að prófa að blogga hér þar sem svo margir af mínum vinum nota þetta svæði og það er hreinlega óþolandi að þurfa alltaf að pikka inn fullt af upplýsingum ef ég ætla að kommenta Tounge

Hér er búinn að vera rólegur dagur með leti inn á milli þryfa á heimilinu.  Já maður þarf vísst að skúra og skrúbba af og til og sérstaklega þegar lítið skott er farin að ýta sér um öll gólf og sér hverja minnstu örðu sem er á gólfinu.  Svo fer restin af deginum í matarboð þar sem við bjóðum upp á grillað íslenskt lambalæri sem er búið að liggja í hvítlaugsmareneringu síðan í gær.  Verður vonandi jafn gott og vanalega svo allir fari saddir og sælir héðan.

Svo fer kvöldið í ritgerð þar sem að hún kemur frá prófarkarlesara á eftir og þarf að skila henni á morgun.  Mikið rosalega verður morgundagurinn góður - sérstaklega eftir að ég er búin að skila ritgerðinni.  Langþráðúr dagur og ég á sennilega eftir að dansa stríðsdans.  Þannig að ef það kemur suðurlangsskjálfti á morgun vitið þið hvað er um að vera Wink


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband