26.10.2007 | 09:07
Ofbeldisgen
Já ég hef oft hugsað sem svo að ég vildi að það væri til ofbeldisgen. Ef það væri til þá væri sennilega hægt að finna bara einfalda lækningu og sprauta þá sem hafa þetta gen í sér Ekki það að ég viti í raun hvort slíkt gen sé til. Það gæti alveg verið til en bara eftir að finna það. Kannski að Kári ætti að rannsaka þetta aðeins. En þessar hugleiðingar mínar eru frekar svona óskhyggja þar sem að ef ofbeldisgen væri til þá væri þokkalega mögulegt að útbúa bara eina sprautu og sprauta þá sem hafa þetta gen í sér og þar með losna við ofbeldi. Góð draumsýn það
Hins vegar er ég nærri viss um að slíkt gen er ekki til þar sem ég held að "ofbeldisgenið" sé frekar af sálrænum toga en líffræðilegum. Reyndar segi ég oft að þrátt fyrir að hafa búið með ofbeldismanni í tæp 10 ár finnst mér enn í dag óskiljanlegar ástæður þess að ein persóna finnur þörf á að beita aðra orbeldi. Það á við um hverskonar ofbeldi. Oft er sagt að gerendur hafi ákveðin einkenni sameiginleg en þrátt fyrir það tel ég að ástæðurnar séu oft mjög einstaklingsbundnar. Það er allavega mjög erfitt ef ekki ómögulegt að segja nákvæmlega hvað veldur því að einstaklingur beiti ofbeldi - einmitt vegna þess að orsakirnar eru mjög einstaklingsbundnar.
Það ætti kannski að safna saman undirskriftum til að skora á Kára að rannsaka hvort til er ofbeldisgen?
En þrátt fyrir að ég geri góðlátlegt grín af þessari hlið þá má þér lesandi góður vera fyllilega ljóst að ég lít á ofbeldismál mjög alvarlegum augum og er fyllilega alvara með þá ósk mína að það væri hægt að uppræta ofbeldi.
Eigðu góðan dag
Athugasemdir
Heimurinn yrði kannski betri ef Kári fyndi ofbeldisgenið...
Gunnar Helgi Eysteinsson, 26.10.2007 kl. 18:52
Ofbeldisgen er áreiðanlega ekki til. Hins vegar er til fólk sem er slæmt. Hvað svo veldur því er allt önnur ella.
Hrönn Sigurðardóttir, 26.10.2007 kl. 20:22
Stundum held ég að þetta ofbeldisgen sé til þegar maður er að sjá ofbeldi erfast kynslóð eftir kynslóð. Sennilegra er þó að um sé að ræða lærða hegðun hjá yngri kynslóðunum því auðvitað læra börn sem uppalin eru við ofbeldi að það sé eðlilegt að beita annað fólk ofbeldi. Í þessu sambandi sem og svo mörgum öðrum læra börnin það sem fyrir þeim er haft.
Ég er ekki viss um að það sé auðvelt fyrir barn ofbeldisforeldris að venja sig af þeirri hegðun sem það hefur lært frá unga aldri sem hina réttu hegðun. Þeir sem það geta verða að vera afar meðvitaðir um hegðun sína og hafa mikinn viljastyrk til að geta lært aðra hegðun.
Síðan er auðvitað hægt að ræða um siðblindu samhliða svona erfðaspurningum. Ég ætla ekki að gera það núna því það er ekki auðvelt að koma með óígrundaðar athugasemdir við svona mál. Ég er orðin syfjuð og geymi umræðuna þar til síðar.
Fjóla Æ., 26.10.2007 kl. 23:46
Takk fyrir athugasemdirnar öll
Eins og ég sagði í færslunni þá er þetta með ofbeldisgenið frekar svona óskhyggja en að ég haldi að það sé staðreynd.
Fjóla þú talar um erfða hegðun í þessu sambandi. Jú vissulega getur þessi hegðun lærst og þannig erfst kynslóð frá kynslóð, en við meigum samt passa okkur á þessari hugsun sem hefur verið mjög ríkjandi. Það er að ofbeldisfólk hegði sér svona því það þekki ekki annað. Það er nefnilega þannig að margir þeirra sem búa við ofbeldi í æsku beita aldrei ofbeldi á sínum fullorðinsárum. Einnig eru margir sem búa ekki við ofbeldi í æsku sem síðar beita ofbeldi.
Þannig að vissulega er þetta að sumu leiti lærð hegðun en það má samt ekki stimpla slíkt á alla sem beita ofbeldi. Þar með erum við að vissu leiti að fría þá ábyrgð sem og að við erum einnig að taka ábyrgð af þeim sem ekki hafa upplifað ofbeldi í æsku og beita samt ofbeldi. Ef allir eða flestir sem upplifa ofbeldi í æsku beita síðar meir ofbeldi væri heimurinn í dag sennilega þannig að flest öll sambönd einkenndust af ofbeldi. Það er nefnilega þannig að ofbeldi hefur þekkst í gegn um aldanna rás og í mörgum þeim samböndum alast upp nokkur börn - þessi börn stofna síðan til sambanda á fullorðinsárum. Þannig að ef þessi kenning væri rétt og til dæmis væru 5 börn alin upp í ofbeldi sem síðar stofnuðu til sambands - þau beittu svo ofbeldi í sínum samböndum - þá væri eitt ofbeldissamband þegar búið að margfalda sig 5 sinnum eða hvað??
Þannig að ef þessi kenning væri eins rétt og henni hefur verið haldið á lofti í gegn um árin þá ættu MJÖG mörg sambönd í dag að einkennast af ofbeldi.
Sem betur fer er þessi kenning ekki eins altæk eins og margir halda og því er ofbeldi ekki eins algilt og ef hún væri nú alveg rétt
Dísa Dóra, 27.10.2007 kl. 10:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.