. - Hausmynd

.

Hví er ekki hægt að blogga um frétt eins og þessa?

Innlent | mbl.is | 15.10.2007 | 15:45

Sakfelldur af ákæru um líkamsárás en ekki gerð sérstök refsing

Rúmlega tvítugur karlmaður, sem á síðasta ári var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sakfelldur af ákæru um líkamsárás gagnvart ungri stúlku en ekki gerð sérstök refsing í málinu. Í umsögn dómara segir að honum sé ekki gerð sérstök refsing í málinu þar sem tekið sé tillit til þess að hann hafði fengið þriggja ára fangelsisdóm fyrir nauðgun skömmu áður og ef málin tvö hefðu verið tekin fyrir á sama tíma þá hefði hann ekki hlotið sérstakan dóm fyrir líkamsárásina.

Í héraðsdómi kemur fram maðurinn játar að hafa slegið fyrrverandi sambýliskonu sína í andlitið þann 29. mars 2006 líkt og hann var ákærður fyrir. Hann bar hjá lögreglu að hún hefði gripið um andlit sitt og sagt að hann hefði nefbrotið sig. Hann kvað að um óhappatilvik hefði verið að ræða og að hann hefði ætlað sér að slá annan mann, en í málinu liggur fyrir að ákærði og félagi hans slógust inni í íbúð þess síðarnefnda, þar sem stúlkan var stödd. Manninum og stúlkunni ber ekki saman um það hvort hann var að slást við annan mann í herberginu þar sem stúlkan var, þegar höggið lenti á henni. Segir í dómi héraðsdóms að þetta misræmi breyti þó engu um að sannað er að maðurinn hefur, með höggi því sem lenti á stúlkunni, gerst sekur um líkamsárás hvort sem höggið var henni ætlað eða einhverjum öðrum.

Í niðurstöðu dómsins segir að samkvæmt sakavottorði mannsins hlaut hann 3 ára fangelsisdóm 12. desember 2006 fyrir nauðgun, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 31. maí 2007. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu er framið fyrir uppkvaðningu dómsins og ber því að ákvarða refsingu ákærða sem hegningarauka við þann dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er samsvari þeirri þynging hegningarinnar sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um bæði brotin í fyrra málinu.

Brot mannsins, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu, er alvarlegt og beindist gegn mikilsverðum hagsmunum og á refsing ákærða að taka mið af því. Dómurinn verður þó að leggja mat á það hvort ákærði hefði hlotið þyngri dóm en þann 3 ára fangelsisdóm sem hann hlaut 31. maí sl., ef dæmt hefði verið um bæði brotin í einu. Það er niðurstaða dómsins að refsing ákærða hefði ekki orðið þyngri en dæmd var með þeim dómi. Samkvæmt framangreindu verður ákærða ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.

 

Mér er spurn hví ekki er gefinn möguleiki á mbl að blogga um þessa frétt?  

Ég get ekki varist þeirri hugsun þegar ég les slíka frétt hví íslenskt réttarkefi er svona uppbyggt?  Hvaða réttlæti er í því að menn geti "safnað" brotum og þau dæmd sem eitt?  Eða er það kannski bara svo að ofbeldisbrotið þykir ekki það alvarlegt að það þurfi að dæma aukalega fangelsisvists fyrir það?  

Ég ætla ekki einu sinni að byrja að tjá mig um hve allt of stuttir dómar eru fyrir nauðganir og kynferðisbrot almennt sem og ofbeldisbrot.  Það tæki mig sennilega allan daginn að tala um hve mér finnst réttarkefið taka of slælega á þeim málum.  En ég verð bæði hneiksluð og reið þegar ég sé svona fréttir sem segja frá því hve réttarkefið er lint gagnvart ofbeldisbrotum hverskonar.  Það semsagt er hægt að brjóta af sér með margskonar ofbeldi og við fleiri en eitt tilfelli og gagnvart fleiru en einum einstaklingi, en það er samt bara fellt undir sama hatt í dómnum.  Færð hvort eð er ekki nema hámark 3 ár fyrir að nauðga þannig að það er alveg eins hægt að berja mann og annan því þú færð ekkert meira fyrir það.

Já réttarkefið er ansi götótt finnst mér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

100% sammála

Gunnar Helgi Eysteinsson, 15.10.2007 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband