. - Hausmynd

.

Pabbi gleymir (skyldulesning fyrir foreldra) eftir W. Livingston Larned

Hlustaðu, sonur sæll. Ég segi þetta, meðan þú sefur með litla lófann undir vanganum og glóbjarta lokkana límda á rakt ennið. Ég læddist einn inn í herbergið þitt. Fyrir nokkrum mínútum, meðan ég var að lesa í blaðið í stofunni, varð mér allt í einu þungt um andardráttinn af eftirsjá. Sakbitinn kem ég að rúmstokknum þínum.

Þetta er það, sem ég var að hugsa, sonur minn: Ég var önugur við þig. Ég skammaði þig, þegar þú varst að fara í skólann, af því að þú rétt straukst framan úr þér með handklæðinu. Ég atyrti þig af því þú burstaðir ekki skóna þína. Ég hreytti í þig ónotum af því að þú fleygðir einhverju af dótinu þínu á gólfið.

Ég fann líka að við þig við morgunverðarborðið. Þú sullaðir niður. Þú gleyptir í þig matinn. Þú studdir olnbogunum á borðið. Þú smurðir of þykku lagi af smjöri á brauðið. Þegar þú hljópst út að leika þér og ég lagði af stað til vinnu þá snerir þú þér við og veifaðir til mín og kallaðir: "Bless, pabbi", en ég yggldi mig og svaraði: "Réttur úr þér strákur, stattu beinn."

Svo byrjaði þetta allt á nýjan leik um kvöldið. Þegar ég kom upp götuna sá ég til þín þar sem þú kraupst niður í kúluspili með vinum mínum. Sokkarnir þínir voru götóttir. Ég auðmýkti þig frammi fyrir vinum þínum með því að reka þig á undan mér heimleiðis. Sokkar værur dýrir og "þú færir betur með þá ef þú þyrftir að borga fyrir þá sjálfur". Hugsaðu þér, sonur minn, að hann faðír þinn skuli hafa sagt þetta.

Manstu, þegar þú komst seinna um kvöldið inn í bókaherbergið og ég var að lesa, komst feiminn og augnaráðið var eins og þú værir eitthvað sár. Þegar ég gaut augunum upp fyrir blaðið, önugur yfir trufluninni, þá hikaðir þú í gættinni. "Hvað er nú?" sagði ég gremjulega.

Þú sagðir ekkert en tókst undir þig stökk og yfir gólfið, lagðir handleggina um háls mér og kysstir mig og litlir handleggirnir féllu þéttar og fastar að mér í þeirri ástúð sem guð lét blómstra í hjarta þínu og jafnvel vanrækslan gat ekki upprætt. Og svo varstu farinn, tiplaðir upp stigann.

Jæja, sonur minn, það var skömmu eftir þetta að blaðið rann úr höndum mér og hræðilegur ótti læstist um mig og lamaði. Hvað var vanafestan að gera úr mér? Þessi ávani að leita galla, að snupra - þetta fékkstu að launum frá mér fyrir það að vera barn. Ástæðan var ekki sú að ég elskaði þig ekki heldur sú að ég ætlaðist til of mikils af æsku þinni. Ég mældi þig eftir mælikvarða minna eigin aldursára.

Og það var svo margt sem var svo gott og einlægt og fagurt í fari þínu. Litla hjartað þitt var heiðríkt eins og dagsbrúnin yfir háfjöllunum. Það kom svo berlega í ljós á ósjálfráðri löngun þinni til að hlaupa inn og kyssa mig góða nótt. Ekkert annað skiptir máli í kvöld sonur sæll. Ég er kominn að höfðalagi þínu í myrkrinu, krýp þar og skammast mín.

Það er léttvæg friðþæging. Ég veit að þú mundir ekki skilja þetta ef ég segði þér það þegar þú værir vakandi. En á morgun skal ég verða alvöru pabbi! Ég skal leika við þig, ég mun þjást þegar þú þjáist og hlæja þegar þú hlærð. Ég skal bíta í varirnar þegar skammir koma fram á þær. Ég skal þylja það látlaust fyrir sjálfum mér, "hann er bara drengur - lítill drengur".

Ég er hræddur um að ég hafi gert ráð fyrir að þú værir fullorðinn. En eins og ég sé þig núna, sonur minn, hnipraðan og lúinn í bólinu, sé ég að þú ert ennþá barn. Í gær varstu í fangi móður þinnar og hallaðir höfðinu á öxl hennar. En ég hef krafist of mikils af þér - of mikils.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna

Svo sannarlega skyldulesning.

Takk fyrir yndislega færslu.

Erna, 28.4.2009 kl. 15:20

2 Smámynd: www.zordis.com

Knús í daginn þinn og megi sá allra heilagasti forða okkur frá að stíga þessi villuspor með fallegu börnunum okkar.

www.zordis.com, 29.4.2009 kl. 07:34

3 Smámynd: Solla Guðjóns

Frábær lesning og þörf.

Því miður er þetta nú bara það sem er að gerast í lífi okkar alltof oft.Hversu heitt sem við elskum börnin okkar þá eru við alltof oft með rangar og of miklar væntingar og kröfur.

Takk fyrir þessa skyldulesningu.

Knús á þig ástin

Solla Guðjóns, 29.4.2009 kl. 09:23

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er algjörlega yndislegt, takk fyrir að deila þessu með okkur elsku Dísa. Kær kveðja til ykkar allra.

Ásdís Sigurðardóttir, 2.5.2009 kl. 13:46

5 Smámynd:

Já svo sannarlega skyldulesning. Hversu oft er maður ekki fljótari að skamma en hrósa. Takk fyrir þessa áminningu.

, 4.5.2009 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband