. - Hausmynd

.

Mannúðarbylting - grein í mbl í dag eftir Eygló Jónsdóttir

ÞJÓÐFÉLAG okkar stendur á miklum tímamótum. Það ríkir vonleysi, ótti og reiði sem fær útrás í þeirri miklu öldu mótmæla sem dunið hefur yfir samfélagið. Þjóðin er reið, það hefur verið gengið á rétt okkar og við viljum breytingar.

Búddískar kenningar segja að þær kringumstæður sem ríkja í samfélaginu og landinu séu endurspeglun á hugarfari fólksins. Máttur hugans er takmarkalaus: Það er hugurinn sem skapar umhverfið. Ef við lítum til baka þá hafa undanfarin tíu til fimmtán ár einkennst af gegndarlausri græðgi, peninga- og neysluhyggju. Fjárhagsleg arðsemi og takmarkalaus gróðahyggja var sett ofar öllu. Manngildi og jöfnuður gleymdust á þessum tímum ofurlauna og útrásar. Mörg okkar kvörtuðu í hálfum hljóðum þegar bankamenn fengu hundruð milljóna í arðgreiðslur ofan á mánaðarleg ofurlaun og við spurðum okkur, hvað er svona merkilegt við vinnuna þeirra? Er ég, sem er að kenna ungmennum landsins, hjúkra þeim sjúku eða gæta barnanna, á einhvern hátt ómerkilegri eða framlag mitt til samfélagsins minna virði? Ég sem rétt skrimti í þessu mikla góðæri á smánarlaunum.

En raddirnar voru hjáróma og þaggaðar niður af valdamönnum sem útskýrðu mikilvægi þessara stóru og miklu peningamanna.

Þegar einstaklingar samfélagsins eru ekki lengur metnir að verðleikum heldur eftir auðsöfnun þeirra og fjárhagslegu umfangi þá er samfélagið sjúkt. Þá eru hugir fólksins sjúkir. Afleiðingin var hrun hagkerfisins með þeirri gríðarlegu þjáningu sem það hefur haft í för með sér fyrir fólkið í landinu.

Reiði er það ástand sem nú endurspeglast í þjóðfélaginu. Þessi reiði er réttlát og eðlileg afleiðing af því sem á undan er gengið. Reiðin er lífsástand sem felur í sér mikla orku og knýr fólk áfram til framkvæmda. Reiðin getur því orðið sá drifkraftur umbreytinga sem fólkið í þessu landi þráir. Hins vegar hefur reiðin aðra birtingarmynd. Hún getur einnig snúist upp í neikvæðni og niðurrif eins og grits aðfaranótt 22. janúar þegar hópur fólks réðst með grjótkasti á lögreglumenn sem voru að sinna sínum skyldustörfum. Það var skammarblettur sem vonandi mun aldrei endurtaka sig á Íslandi, því ofbeldi er ekkert annað en ósigur mannsandans.

„Við viljum byltingu“ heyrði ég nokkur ungmenni hrópa í þessum mótmælum.

Hvað þýðir bylting? Í gegnum söguna hafa ýmsar byltingar verið gerðar á stjórnarfari og þjóðfélögum. Því miður er það nú svo að flestar byltingar hafa endað þannig að það eina sem breyttist var að nýir herrar settustvið stjórnvölinn. Ef við viljum sjá raunverulega umbreytingu í okkar þjóðfélagi þá verður að eiga sér stað bylting hugarfarsins.

Hinn mikli friðarsinni og heimspekingur Daisaku Ikeda kallar slíka umbreytingu „mannúðarbyltingu“. Hann segir: „Stórfengleg innri umbreyting á einum einstaklingi mun eiga þátt í að breyta örlögum þjóðar og mun ennbfremur breyta örlögum mannkynsins.“ Þegar einstaklingur ákveður að gera jákvæðar breytingar í lífi sínu mun það hafa í för með sér breytingar á umhverfi hans. Þetta kraftmikla ferli sköpunar og uppbyggingar frá ótta til öryggis, frá niðurrifi til sköpunar, frá hatri og reiði til umhyggju og samkenndar hefur í för með sér endurnýjun samfélagsins.

Við sem byggjum þetta land getum umbreytt þeim gildum sem þjóðfélagið byggir á. Með því að breyta okkar hugarfari. Við getum breytt þessu þjóðfélagi í mannvænt samfélag þar sem manngildin eru metin að verðleikum og þar sem réttlæti og jöfnuður þegnanna er álitinn sjálfsagður. Við getum öll lifað mannsæmandi og góðu lífi á þessu gjöfula landi. Þetta getur þó aðeins gerst ef þjóðin hefur skýra mannúðarheimspeki til að lifa eftir. Heimspeki

þar sem lífið sjálft er metið það dýrmætasta og allir þjóðfélagsþegnar sitja við sama borð og hafa rétt á að lifa hamingjusömu mannvænu lífi. Sönn bylting hefst í hjarta einnar manneskju og breiðist þannig út til samfélagsins.

 

Mannúðarbylting

Eygló Jónsdóttir er formaður SGI á Íslandi,

friðar- og mannúðarsamtaka búddista.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Svo rétt, svo rétt. 

Ég vona svo innilega að kreppan hafi í för með sér hugarfarsbreytingu.  Þá væri hún þess virði.

Anna Einarsdóttir, 15.2.2009 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband