1.2.2009 | 17:48
Guðlaugur Tristan og Tekla Mist
Litli kúturinn okkar fékk reyndar nafnið sitt strax við fæðingu en í dag þá var svona formleg nafnaveisla ásamt því að haldið var upp á afmæli stóru systur. Við reyndar skírum ekki þar sem við erum Búddistar og er reyndar mjög misjafnt hvað Búddistar gera þegar barni er gefið nafn. Við höfum valið að hafa veislu og þar fara veislugestir í hlutverk heilladísa og skrifa niður einhvern eiginleika eða heilræði sem þeir óska barninu til handa. Þessir miðar eru svo settir í lokað umslag ásamt bréfi frá okkur foreldrunum og í bankahólf. Fermingarárið fær barnið svo þetta umslag í sína vörslu.
Við vorum búin að ákveða bæði stráka og stelpunafn áður en litla skottið okkar fæddist svo það þurfti ekkert að spá í nöfn þegar litli herrann okkar sýndi okkur snemma á meðgöngunni að þar væri strákur á ferð. Tekla er nafn sem ég hef haft í hausnum í mörg ár og svo bættist Mist við það þegar litla daman var á leiðinni. Mig hefur alltaf langa til að nefna í höfuðið á manni sem ég elska og virði mikið og hefur ávalt reynst mér vel. Þaðan kom Guðlaugs nafnið og ákváðum við hjónin svo að bæta Tristan við. Það nafn finnst okkur báðum mjög fallegt og verður það aðalnafn litla mannsins okkar.
Daman að blása á afmæliskertin
Og að lokum set ég hér inn bréfið sem herrann fær eftir 14 ár (daman fær eins eftir 13. ár héðan í frá).
Sunnudagurinn 1. febrúar 2009
Elsku Guðlaugur Tristan
Á þessum degi fyrir fjórtán árum kom saman hópur fólks til að heiðra þig í tilefni fallega nafnsins þíns. Athöfnin var einföld því við ákváðum að láta ekki skíra þig heldur leyfa þér að taka þá ákvörðun þegar þú værir komin til vits og ára. Fermingarárið er nú liðið hjá og við erum viss um að þú tókst ákvörðun sem er rétt fyrir þig.
Í stað athafnar sem tengdist nafninu þínu eða trú báðum við alla sem komu að skrifa á miða einn mannkost sem þau óskuðu þér og miðana settum við í þetta umslag. Fólkið sem heimsótti okkur þennan dag var náið okkur og við vissum að þau kæmu til með að vera stór hluti af lífi þínu. Því tókum við af þeim það loforð að gera sitt besta til að innræta þér það sem þau skrifuðu á miðann.
Nú ert þú í þann mund að fullorðnast og þá er kominn tími til að velta því fyrir sér hvernig þú lifir lífinu.
Sestu niður á rólegum stað og skoðaðu miðana. Við lestur hvers miða skaltu velta því fyrir þér hve mikilvægt þér finnst það sem á honum stendur.Tilgangur þeirra er að hjálpa þér að átta þig á því hvernig manneskja þú ert og hvernig manneskja þú vilt verða. Hverjum einasta miða fylgir heilmikil ást og óskir um bjarta framtíð og auk þess að hvetja þig til sjálfsskoðunar eru þeir fyrst og fremst til að minna þig á hve þú ert elskaður af öllum sem eru í kringum þig.
Njóttu vel,
Mamma og pabbi
Athugasemdir
Ó hvað þetta er fallegt..... og hvað börnin ykkar eru heppin að eiga ykkur sem foreldra......Gæfan fylgi ykkur um ókomna framtíð fallega fjölskylda
Fanney Björg Karlsdóttir, 1.2.2009 kl. 18:14
Tek undir með Fanney! Til hamingju með fallegt nafn og falleg börn
Hrönn Sigurðardóttir, 1.2.2009 kl. 18:56
Tek heilshugar undir með þeim sem á undan mér hafa skrifað.
Innilegar hamingjuóskir með þetta allt.
SigrúnSveitó, 1.2.2009 kl. 19:39
Yndislega fallegt. Þetta mættu fleiri taka til fyrirmyndar.
Jenný Anna Baldursdóttir, 1.2.2009 kl. 19:39
Hjartanlegar hamingjuóskir. Nefningarsiðir af þessu tagi eru yndislegir. Óska ykkur gæfu og hamingju.
, 1.2.2009 kl. 21:27
Til hamingju með nöfnin á litla prinsinum og afmæli stóru systur. Falleg börn :-) Bestu kveðjur og risaknús frá okkur !!!
p.s. trúlega er afi Gulli stoltur af því að fá nafna :-)
Jóhanna og Bjarni Ásg. (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 22:18
Innilega til hamingju elskurnar mínar! Yndisleg hugmynd hjá ykkur,þegar við gáfum Agli Úlfari nafnið sitt þá héldum við veislu og Sjöbba hélt ræðu og kynnti hann fyrir fjölskyldunni. Mjög fallegt og yndislegt
Kolbrún Kvaran, 2.2.2009 kl. 02:06
Vá, en fallegt. Ég fékk notalegan il um líkamann við tilhugsunina hversu hátíðlegt það verður fyrir þau að opna umslögin sín.
Til hamingju með krúttmolana þína
Sporðdrekinn, 2.2.2009 kl. 04:35
Falleg stund sem þið hafið átt með ástvinum. Mikið eiga elskurnar þínar gott að hafa valið sér fallegan farveg með ykkur foreldrum.
Megi lífið ávallt vera þeim sú fegurð er geislar í hjarta þeirra! Til hamingju með G.Tristan og Teklu Mist!
www.zordis.com, 2.2.2009 kl. 09:06
Falleg börn með falleg nöfn.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 11:47
Mikið eru börnin þín heppin að hafa fengið ykkur sem foreldra. Þú ert yndisleg Dísa mín og ég veit að maðurinn er það líka þó ég þekki hann ekki neitt.
Ótrúlega margt breytt síðan við hittumst fyrst haustið 2004
Unnur Björk Arnfjörð (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 12:15
Hjartanlega til hamingju þetta er afar falleg og sterkt nafn og hann er fallegur hann Guðlaugur Tristan og ekki er hún síðri Tekla Mist.
Kveðjur til ykkar allra
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 2.2.2009 kl. 19:53
Falllegra getur það varla orðið.
Sniðugt að hafa þetta svona og leifa svo barninu að ráða hvort það heldur nafninu.Ég mæli með svona nafnagift.
Knús og til hamingju.
Solla Guðjóns, 3.2.2009 kl. 09:20
Innilega til hamingju, var einmitt á síðunni þeirra áðan.
Ásdís Sigurðardóttir, 3.2.2009 kl. 22:11
En fallegt! Innilega til hamingju með þetta allt saman.
Hugarfluga, 4.2.2009 kl. 09:18
Innilega til hamingju. Yndisleg hugmynd þetta með bréfið og miðana sem gestirnir skrifa á til að setja í umslagið
Auður Proppé, 4.2.2009 kl. 16:59
Takk fyrir bloggvináttuna
Auður Proppé, 4.2.2009 kl. 19:35
Ofsalega ertu rík! Og þessi aðferð- þetta bréf ...þetta er æðislegt!
Dísaskvísa, 13.2.2009 kl. 10:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.