. - Hausmynd

.

Einelti

Mig langar að benda ykkur á að lesa blogg ungrar stúlku og vera dugleg að senda henni athugasemdir en slóðina má sjá HÉR!

Þessi unga stúlka fjallar þarna um það einelti sem hún hefur upplifað.

Einelti er ein tegund ofbeldis og svo sannarlega þarf að ræða opinskátt um þennan hluta ofbeldismála eins og önnur ofbeldismál.  Einelti getur nefnilega haft ótrúlega viðtækar afleiðingar á líf þeirra sem það upplifa.

Ég ákvað að setja hér inn kafla úr rannsókn minni sem einmitt fjallar um einelti og áhugaverðar niðurstöður sem rannsóknin sýndi á þeim málum.
  Ég vil þó taka það fram að þó ég tali þar um að samband virðist vera á milli algengi þess að verða fyrir einelti og annarskonar ofbeldi er ég ekki þar með að segja að þessi stúlka hafi lent í annarskonar ofbeldi.  Það er eitthvað sem ég hef ekki hugmynd um - vil aðeins hvetja ykkur til að lesa reynslu hennar af eineltinu sem slíku.

 

Einelti

Rannsakanda þótti athyglisvert hve stór hluti þátttakenda höfðu upplifað einelti eða tæpur helmingur þátttakenda. Þegar þetta er skoðað nánar má sjá að flestir þeirra sem höfðu upplifað einelti, höfðu einnig upplifað andlegt-, líkamlegt-, eða kynferðisofbeldi í æsku og rúmlega helmingur þeirra höfðu upplifað slíkt ofbeldi bæði í æsku og á fullorðinsárum. Um fjórðungur þeirra sem höfðu upplifað einelti höfðu aðeins upplifað andlegt-, líkamlegt-, og/eða kynferðislegt ofbeldi á fullorðinsárum en ekki í æsku. Aðeins um 2% þátttakenda höfðu upplifað einelti án þess að upplifa annarskonar ofbeldi.

Samkvæmt könnun meðal nemenda í íslenskum grunnskólum, sögðust um 4 – 10% nemanda vera lagðir í einelti. Samkvæmt rannsóknum í nokkrum öðrum löndum er tíðni eineltis svipuð þar ef ekki algengari (Olweus, 2003, Þorlákur H. Helgason, 2005). Þær tölur sem þessi rannsókn sýnir, eru því mun hærri en rannsóknir í skólum hafa verið að sýna. Engar rannsóknir á einelti meðal fullorðinna fundust.

Rannsóknir meðal barna sýna að þau sem upplifa einelti, hafa ákveðin sameiginleg einkenni. Þó ekki sé hægt að alhæfa að þeir sem upplifa einelti hafi þessi einkenni, þá setja þau barnið í áhættuhóp gagnvart einelti.

Þessi einkenni eru þau að börnin er óöruggari, hræddari, feimnari, hlédrægari og hægverskari en börn almennt. Þau stríða öðrum síður en önnur börn, eru ekki árásargjörn til jafns við hin og í raun á móti ofbeldi og beita því helst ekki. Ef börn eru félagslega veik er meiri hætta á að þau verði fyrir einelti. Þau geta verið líkamlega veikbyggðari en jafnaldrarnir (Olweus, 2003, Heimili og skóli, 2005). Áhugavert væri að rannsaka hvort þolendur ofbeldis hafi svipuð einkenni og þolendur eineltis.

Það væri áhugavert í  að skoða þessi tengsl nánar í rannsóknum í framtíðinni og hvort eineltið sé í raun orsök eða afleiðing af því að upplifa annarskonar ofbeldi.

 

Ø     Heimili og skóli (2005). Einelti upplýsingar fyrir foreldra. Tekið af vef þann 4. september 2007. Vefslóð: http://heimiliogskoli.is/heimiliogskoli/frettir/?cat_id=27362&ew_0_a_id=133121

Ø     Olweusarverkefnið (2004). Gegn Einelti. Tekið af vef þann 19. ágúst 2007. Vefslóð: http://www.olweus.is/Einelti.pdf  

 

Tekið úr BA verkefni frá Kennaraháskóla Íslands árið 2007:

Tengsl ofbeldis og heilsu

Hefur ofbeldi áhrif á heilsu þolandans og ef svo er hvernig áhrif hefur það?

 

Höfundur: Hjördís H. Guðlaugsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Flott samantekt, nauðsynlegt að halda eineltisumræðunni opinni því fólk er að lenda í bitri reynslu á öllum aldri og á ólíklegustu stöðum.

Ég ætla að kíkja á síðuna hjá ungu stúlkunni á morgun, er á leið í kúrinn og kom við til að segja, góða nótt og sofðu rótt!!!

www.zordis.com, 17.1.2009 kl. 01:55

2 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Það vekur furðu að skólastjórinn skuli ekki hafa opnað augu sín í mörg ár fyrir þessu vandamáli.Þessi skólastjóri sagði dóttur minni þetta sama þegar hún kvartaði undan einelti í þessum sama skóla og það var fyrir um tíu árum,en  sökum þess að ekkert var gert og ekki hægt að gleyma því þá tók líf hennar aðra stefnu og urðu af því miklir erfiðleikar í langan tíma.

Guðjón H Finnbogason, 17.1.2009 kl. 05:47

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Einelti er alltof algengt!!

Þegar ég smellti á hlekkinn og ætlaði að lesa þá þurfti ég að vera innskráð sem Dísa Dóra. Komst ekki áfram.

Eigðu góðan dag ljúfust  

Hrönn Sigurðardóttir, 17.1.2009 kl. 09:11

4 Smámynd: Dísa Dóra

 Zordís - það er svo sannarlega rétt hjá þér að fólk er að lenda í einelti á öllum aldri og það er ekki bundið við skóla eingöngu.

Guðjón - já það vekur alltaf furðu þegar skólayfirvöld neita að horfast í augu við vandann.  Síðustu ár hefur einelti verið þekkt og eitthvað sem skólayfirvöld hafa fengið fræðslu um og ættu því ekki að snúa baki í slíkan vanda vegna vankunnáttu.  Voandi hafa skólayfirvöld í þessum skóla (sem og öðrum skólum) horfst í augu við þennan vanda í dag.

Hrönn - takk fyrir að láta mig vita að hlekkurinn vikraði ekki.  Hann á að vera kominn í lag núna

Dísa Dóra, 17.1.2009 kl. 09:31

5 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þetta var áhugavert - Takk fyrir þetta.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 17.1.2009 kl. 11:18

6 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Takk fyrir þetta elsku Dísa Dóra...þekki þennan viðbjóð allt of vel...á son sem er enn að vinna í sínum málum....þetta er bara skelfilegt!

Bergljót Hreinsdóttir, 17.1.2009 kl. 12:00

7 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Takk Dísa Dóra mín las þetta strax og er búin að fylgjast með þessum málum lengi.
Það þarf miklu meira en bara bloggið til að moka þessum sora út, fólk er bara ekki að skilja hvað um er að vera og óskapast stórum en er kannski sjálft að iðka einelti.
Ég var eitt sinn í barnaverndarnefnd í heil átta ár, og sá margt á þeim árum fyrir utan að vinna með börnum í 7 ár í Íþróttahúsi við skóla.
hef aldrei hætt að sýna þessum málum áhuga, en allt of lengi er búið að hjakka í sama farinu vegna skilningsleysis ráðamanna.

Ljós og kærleik til þín
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 17.1.2009 kl. 12:22

8 Smámynd: Fanney Björg Karlsdóttir

Takk fyrir þarfa og góða ábendingu.... Ég datt "óvart" inn á síðuna hjá þessari stúlku um daginn.. dáist af henni......og´þér líka fyrir að halda umræðunni stöðugt gangandi.....

Fanney Björg Karlsdóttir, 17.1.2009 kl. 23:22

9 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Það sem mér blöskrar svolítið er hvernig fjölmiðlar hafa smattað á þessu.  Þarna er ungt fólk sem eru gerendur en að mínu mati fullorðna fólkið sem er ábyrgt og hefði átt að grípa inn í. 

Ég er hrædd um að öll þessi umfjöllun myndi annars konar einelti gegn gerendum en það er ótrúlegt hvað mikið af fullorðnu fólki hefur skrifað ljótt gegn gerendum og jafnvel fólki sem stóð hjá aðgerðarlaust en voru ekki virkir gerendur.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 19.1.2009 kl. 13:48

10 Smámynd: Solla Guðjóns

Flott Dísa Dóra !!

Góð ´síða hjá stelpunni.

Ég held að foreldrar umgangist krakka ekki nógu mikið til að taka eftir hvað er að gerast.Ég held líka að krakkar sem verða fyrir einelti segi ekki nógu fljótt frá.Ég held líka að gerendur fatti ekki alltaf hvað gerðir þeirra geta þítt og leitt af sér.

Solla Guðjóns, 19.1.2009 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband