. - Hausmynd

.

Er ekki verið að afsaka ofbeldið??

Því miður finnst mér þetta aðeins bera vott af því að verið sé að afsaka ofbeldið og ofbeldismanninn.  Eða réttara sagt að ofbeldismennirnir séu að afsaka gjörðir sínar en ekki taka ábyrgð á þeim eins og prógrammið þó ber nafn til. 

Karlar til ábyrgðar er vissulega þarft verkefni og gott verkefni sem ég vona að muni verða betur nýtt í framtíðinni.  Hins vegar finnst mér skjóta skökku við að kalla þetta karla til ábyrgðar og koma svo með slíkar staðhæfingar.  Slíkar staðhæfingar eru nefnilega til þess gerðar að afsaka ofbeldismanninn og hans gjörðir.  En það er einmitt ofbeldismaðurinn sem að einhversstaðar á leiðinni tekur sjálfur ákvörðunina um að beita ofbeldinu og er hann því fullkomlega ábyrgur fyrir því.  

Þeir virðast einnig hafa það mikla stjórn á gjörðum sínum að yfirleitt velja þeir að berja á þeim stöðum sem ekki sjást og sjaldnast berja þér til dæmis í andlit þar sem áverkarnir sjást strax.  Einnig velja þeir oftar en ekki að beita aðeins ofbeldi þegar engin vitni eru til staðar.  Hvar er þá þetta fullkomnar valdaleysi sem talað er um í fréttinni??  Þeir virðast allavega hafa það mikið vald að þeir ná að stjórna gjörðum sínum að stórum hluta.

Einnig tel ég mjög svo hættulegt að útskýra ofbeldið sem eitthvað sprottið úr barnæsku ofbeldismannsins.  Vissulega er það tilfellið hjá einhverjum en langt í frá öllum.  Það er nefnilega þannig að þeir sem að upplifa ofbeldi í æsku hafa alveg sama valið og allir aðrir.  Það er að það eru aðeins þeir sem að ákveða hvort að þeir beiti annan ofbeldi eða ekki.  Það eru langt í frá allir sem að upplifa ofbeldi í æsku sem verða síðar á ævinni ofbeldismenn.  Það eru nefnilega (sem betur fer) flestir þeirra sem að ákveða að beita ekki ofbeldi.  

Einnig eru margir sem að beita ofbeldi sem hafa aldrei verið beittir ofbeldi sjálfir.  Þeir einfaldlega hafa einhversstaðar á leiðinni ákveðið að það sé ok að beita ofbeldi.  

Þess vegna er hættulegt að ég tel að horfa sífellt á að einhverjir einstaklingar sem beita ofbeldi hafi sjálfir upplifað slíkt í æsku.  Slíkt er aðeins til þess fallið að veita afsökun fyrir ofbeldinu og að horft sé á ofbeldismanninn sem einhvern sem því miður hafi ekki stjórn á gjörðum sínum vegna fyrri upplifunnar.  En þessi einstaklingur á eins og ég sagði áður sama valið og allir aðrir.  

Einnig segi ég að ef að þetta væri eins algilt og stundum er látið í skína þá væru mun fleiri sem beittu ofbeldi í dag en staðreyndin er.  Það er nefnilega svo að í flestum ofbeldissamböndum (eins og öðrum samböndum) eru börn til staðar og það oft fleiri en eitt.  Ef þetta væri svona algilt þá ættu flest þessara barna ef ekki öll að beita ofbeldi síðar á ævinni.  Þá væri ofbeldi búið að margfalda sig ansi mikið á nokkrum kynslóðum ekki satt?

Aðalmálið ætti að vera að ofbeldisfólk taki á sig ábyrgð sinna gjörða sem og að við hin förum að setja ábyrgðina þar sem hún á algjörlega heima.  Það er hjá þeim sem hefur ákveðið að beita ofbeldinu. 


mbl.is Berja konurnar af örvæntingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Tek undir þetta með þér en er samt að spá í eitt, karlmenn hafa ekki þann eiginleika að tala sig í gegnum vandamál, konur eru betri í því, getur verið að þeir beiti meiru líkamlegu ofbeldi þess vegna?  bara hugmynd

Ásdís Sigurðardóttir, 30.7.2008 kl. 11:24

2 identicon

Hvernig færðu út að það sé verið að aksaka ofbeldið? Verkefnisstjórninn minnist á það sem hann telur vera orsök í a.m.k. hluta tilfella ofbeldismannanna. Orsök og afsökun er ekki það sama.

Þessu er heldur ekki slegið algilt upp eins og þú segir heldur er einstaklingur líklegri til að beita maka ofbeldi ef hann hefur orðið fyrir ástvinamissi eða svikum, líkt og einstaklingur sem hefur verið misnotaður í æsku er líklegri að misnota aðra.

Fyrir utan það virðistu ekki hafa lesið greinina vel því það stendur hvergi að ofbeldsmenn hafi margir hverjir verið beittir ofbeldi sjálfir, það er minnst á ástvinamissi og svik.

Það hlýtur að vera mikilvægt að finna orsök (ef einhver er) hvers vegna fólk beitir ofbeldi, þá er kannski hægt að koma í veg fyrir það í staðinn fyrir að þurfa að takast á við afleiðingarnar.

Karma (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 11:34

3 identicon

Góðan dag

Það er leitt ef þetta kemur þannig út að verið sé að afsaka ofbeldið eða gerandann. Það var vissulega ekki meiningin og ef ég væri að skrifa grein um málið hefði ég nálgast þetta um margt með öðrum hætti. En það er í mínum huga mikilvægt að reyna að skilja af hverju sumir karlar leggja hendur á konur en flestir ekki. Skýringarnar eru margar og snúnar en þær hjálpa okkur til að stöðva ofbeldið. Það er rétt að fjarri því allir sem hafa upplifað ofbeldi á æskuheimili endurtaka leikinn, skástu alþjóðlegu kannanir sem ég þekki benda til að um þriðjungur geri það. Þetta er því verulegur áhættuþáttur. Það er líka rétt að þrátt fyrir upplifunina af valdaleysi þá er oftast ákveðin stjórn á ofbeldisbeitingunni. Þetta þarf ekki að vera mótsögn frekar en hjá foreldrum sem "tapa stjórn" og slá til barns en á stað sem ekki veldur varanlegum skaða. Í þessu felst einmitt að verulegu leiti lykillinn til að aðstoða þá karla sem vilja breyta hegðun sinni þ.e.a.s. að fá þá til meðvitundar um að hafa val. Að þeir einir beri ábyrgð á því sem þeir gera og þeir geti hegðað sér með öðrum hætti. Örvænting er sjaldnast alblind og það er reynslan af þeim sem í meðferð koma að þeir upplifa sambandið þannig að þetta sé þeirra eina leið til að halda í þann sem þeim þykir vænt um. Samt gera þeir sér grein fyrir því að þetta er rangt og vilja leita annarra leiða. En auðvitað á þetta bara við um þá sem leita sér aðstoðar og við vitum allt of lítið enn um það hvort þeir skeri sig verulega frá þeim gerendum sem ekki leita sér aðstoðar

Ingólfur V. Gíslason (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 11:49

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Aðspurður um hvað leiði svo til ofbeldisins segir Ingólfur það vera örvæntingu. „Þegar við tölum við karlana er algengt að þeir segist upplifa fullkomið valdaleysi þegar þeim er laus höndin" (Úr frétt)

Já, eg veit ekki... er þetta þá ekki "heiðurs" eða "æru" tengt ?

Þe. ofbeldið er tæki til að endurheimta völd og rétta við skaddaða æru ?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 30.7.2008 kl. 11:53

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sammála Dísa Dóra.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.7.2008 kl. 12:14

6 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Er þetta ekki bara eins og hjá ölkunum, að viðurkenna vandamálið? Þeir menn sem hafa áttað sig á þessu og vilja breyta því hafa þarna alveg brilljant lausn.

Hinir nota þetta eflaust bara sem eina afsökunina enn.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 30.7.2008 kl. 12:38

7 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Ég er alls ekki sammála.  Mér finnst vera finna rót vandans, sem liggur hjá gerandanum.  Hvernig má koma í veg fyrir að gerandinn brjóti á annarri persónu. 

Ég trúi því ekki að einhver sé alvondur og það sé hægt að stopa slíkt ef nógu snemma er gripið inn í og manneskjan sjálf gerir sér grein fyrir að vandamálið liggi hjá sér.

Mér finnst mikilvægt að hægt sé að ræða þetta án þess að verða dæmdur eða gríttur.

Lausnin er ekki að þolandinn leiti sér hjálpar eftir á.  Hún er að gerandinn lagi sitt vandamál, því annars færist það bara á aðra persónu. 

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 30.7.2008 kl. 12:53

8 Smámynd: Dísa Dóra

Ásdís - Áhugaverð pæling hjá þér og jú vissulega einn þáttur en samt sem áður er það alltaf ábyrgð og ákvörðun ofbeldismannsinns að beita ofbeldi (eða ekki).

Karma - Vissulega las ég greinina.  Eins og ég segi í skrifum mínum er það sennilega líka ofbeldismennirnir sem koma með þessar útskýringar á hegðun sinni og það finnst mér bera vott um afsökun í stað þess að taka ábyrgð.

Jú ég tal um upplifun af ofbeldi í æsku þrátt fyrir að ekki sé talað um það í greininni.  En ég legg einnig áherslu á að það er ALLTAF ábyrgð og ákvörðun ofbeldismannsins hvernig hann bregst við.  Það gildir sama hvort undanfarinn á að vera ástvinamissir, svik, misnotkun (sem jú vissulega er ein tegund obeldis) eða annað ofbeldi.   

Vissulega er mikilvægt að finna orsök vandans en hingað til hefur umræðan nær eingöngu fjallað um mögulegar orsakir sem hafa gjarnan verið notaðar sem afsakanir fyrir ákvörðun ofbeldismannsins í stað þess að fjalla meira um að ofbeldismaðurinn ber alltaf ábyrgðina og tekur ákvörðunina hverjar sem orsakirnar kunna að hafa verið.  Ef horft er meira á þann þátt tel ég að meiri líkur sé á að ábyrgðin sé sett þar sem hún á að vera - hjá ofbeldismanninum sjálfum.

Ingólfur - Takk fyrir svar þitt.  Af þeim samskiptum sem ég hef átt við þig hef ég einmitt fengið þá niðurstöðu að þú setjir ábyrgðina nákvæmlega þar sem hún á að vera.  Því þótti mér þessi umfjöllun skjóta svolítið skökku við það og var einmitt að spá í hvort þessi stutta grein í raun sýndi það sem þú vildir koma fram með.  Enda set ég spurningarmerki við fyrirsögnina mína.

Eins og ég hef sagt hér áður þá finnst mér að umfjöllunin í þjóðfélaginu okkar megi einmitt fara að snúast meira um eins og þú segir að ofbeldismennirnir bera einir ábyrgð á því sem þeir gera og þeir hafa ávallt val um hvenrig þeir bregðast við.  Vissulega eitthvað sem er mjög mikilvægt og löngu viðurkennt meðal þeirra sem starfa í þessum geira en því miður eitthvað sem virðist ekki komast alveg til skila í umræðunni.  

Karlar til ábyrgðar er að mér finnst mjög gott og þarft verkefni sem því miður hefur fengið of litla umfjöllun í fjölmiðlum - kannski vegna þess að þið einmitt eruð að kalla á að ábyrgðin fari á réttan aðila??  

Ómar - Það að beita ofbeldi er ekki og ætti aldrei í hugum fólks að vera leið til að rétta við skaddaða æru.  Hins vegar eins og ég hef áður sagt hefur umræðan einmitt verið á þá leið að það sé yfirleitt hægt að finna afsökun fyrir ofbeldinu og því getur fólki fundist ofbeldi leið til að rétta við skaddaða æru.  En sýnir sú hugsun ekki einmitt á hve rangri leið umræðan er??

Jenný -

Margrét - Mjög góð spurning

Dísa Dóra, 30.7.2008 kl. 13:02

9 Smámynd: Dísa Dóra

Nanna - jú vissulega þarf að ræða þetta án þess að vera dæmdur og gríttur.  Enda er þetta málefni sem þarf að vera opið alltaf og almenningur þarf að vera mjög meðvitaður um.

Vissulega er lausnin sú að gerandinn viðurkenni vandann og lagi til hjá sér.  En til þess að það verði markvisst þá þarf umræðan einmitt að snúast í þá átt að gerandinn beri ábyrgðina og hafi valið.  Umræðan hefur bara því miður ekki verið á þann veg hingað til og því þarf að breyta. 

Dísa Dóra, 30.7.2008 kl. 13:06

10 identicon

Það er kannski rétt að undirstrika að þetta er ekki grein frá mér heldur viðtal sem blaðamaður síðan vinnur úr. Hún bar þetta undir mig þannig að ég er ekki að segja að rangt sé eftir haft, alls ekki. En ef ég hefði skrifað grein um málið hefði nálgunin verið öðruvísi. Meðal annars með meiri áherslu á að grunnurinn undir þessu öllu saman er auðvitað sú staðreynd að verulega hefur hallað á konur í tilverunni og því er ég þeirrar skoðunar að möguleikar verkefnis eins og KTÁ séu skástir þar sem almennt er viðurkennt (a.m.k. í orði) að konum og körlum beri sömu möguleikar. Enda virðast rannsóknir benda til að minnst sé um ofbeldi karla gegn konum í samfélögum þar sem möguleikar kvenna hafa batnað verulega. Ég er hins vegar ekki alveg viss um að rétt sé að umræðan hafi fram að þessu verið fyrst og fremst um mögulegar orsakir. Mér finnst að eftir að viðurkennt var orðið að eiginmenn hefðu ekki rétt til að leggja hendur á konur sínar þá hafi "umræðan" fyrst og fremst verið í refsigírnum þar til fyrir nokkrum árum en hafi breikkað að undanförnu. Raunar er athyglisvert að í breskri athugun fyrir nokkrum árum kom í ljós að öll úrræði skiluðu einhverjum árangri hvað það varðaði að draga úr líkamlega ofbeldinu. Hvort sem ofbeldismennirnir voru sektaðir, fangelsaðir eða dæmdir í meðferð þá dró það úr ofbeldisbeitingu þeirra. Þetta undirstrikar mikilvægi fordæmingarinnar og þess að skipta sér af. Hins vegar var það einnig niðurstaða þessarar rannsóknar að eina úrræðið sem dró líka úr stjórnunaráráttunni og kúguninni var sálfræðileg meðferð í líkingu við KTÁ. Raunar var það þessi rannsókn sem endanlega ýtti KTÁ úr vör á sínum tíma fyrir tilstilli Rauða kross Íslands

Ingólfur V. Gíslason (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 13:19

11 Smámynd: Dísa Dóra

Ingólfur - jú það er vissulega rétt hjá þér að umræðan hefur að einhverju leiti snúist um refsigírinn sem og að hún hafi breikkað að undanförnu.  Reyndar hefur hún breikkað töluvert síðustu ár - en betur má ef duga skal segi ég.  Enn er allt of mikið um það að ábyrgðin sé sett annarstaðar en þar sem hún á að vera.  Jafnvel eru til mjög nýleg dæmi þar sem að refsiramminn setur ábyrgðina annarstaðar en á ofbeldismanninn.  Slíkt er eitthvað sem á ekki að vera til í þó svo upplýstu þjóðfélagi eins og okkar.

Áhugavert að rannsóknin sýni að öll úrræði dragi úr ofbeldisbeitingu þeirra sem beita ofbeldi.  Slíkt ætti einmitt að vera mikil hvatning til að laga refsiramma okkar að því að dæma einstaklinga sem beita ofbeldi sem og að nýta þann refsiramma sem þegar er til staða.  Slíkt er því miður alls ekki alltaf gert.

Miðað við niðurstöður þessarar rannsóknar ættu kannski refsingarnar fyrst og fremst að felast í því að ofbeldisgerendur færu í sálfræðimeðferð líkt og KTÁ.  Hins vegar gæti það kannski verið erfitt ef að einstaklingurinn viðurkennir ekki vandann.  Fyrst og fremst hlýtur viðurkenningin að þurfa að vera til staðar ef að slík meðferð á að bera árangur. 

Dísa Dóra, 30.7.2008 kl. 14:07

12 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

Það er enginn að segja að ofbeldi sé ekki á ábyrgð brotaþola. Það er heldur enginn að hugsa það eða skrifa um það, nema mögulega að það sé e.h. siðblindur ofbeldismaður þarna úti sem er með þetta allt öfugsnúið í hausnum á sér.

Mér finnst það vera fyrir neðan okkar virðingu, að taka umræðuna niður á þetta plan, að það sé verið að taka ábyrgðina úr höndum einhvers, þegar umræðan á klárlega að snúast um hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir ofbeldi.

Við ættum að gleðjast yfir þessu framtaki. Því það kostar mikið hugrekki að kafa ofan í mýrarfen hugarlenda ofbeldismanna og bjarga þeim þaðan. Ekki aðeins hugrekki, heldur einnig visku og mikinn kærleika.







Ofbeldismenn eru geðsjúkir einstaklingar sem eru fastir í dýrslegri hegðun, þar sem stórir fiskar éta þá minni. Geðsjúkum einstaklingum á að hjálpa, ekki aðeins til að vernda umhverfið gegn þeim, heldur einnig því að þeir eru manneskjur eins og við, þeir eiga jafnan tilverurétt, og jafnan rétt á að lifa hamingjusömu lífi.







Ef við ekki hjálpum þeim sem eru veikastir, erum við þá eitthvað skárri en villidýrin, stóri fiskurinn étur þann minni ?  Nei, það er þetta grundvallar gildi sem við byggjum siðmenningu okkar á, hjálpsemi!

Viðar Freyr Guðmundsson, 30.7.2008 kl. 14:08

13 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

'brotaþola' átti auðvitað að vera 'brotamanna'  í pistlinum hér á undan 

Viðar Freyr Guðmundsson, 30.7.2008 kl. 14:11

14 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Ég er sammála Viðari.  Þetta er nátturulega veikleiki að ráða ekki við skap sitt og sjálfan sig.  Það er engin afsökun heldur staðreynd sem verður að takast á við.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 30.7.2008 kl. 14:23

15 Smámynd: Dísa Dóra

Viðar - það er nú samt sem áður staðreyndin að það eru ekki einungis siðblindir ofbeldismenn sem að fyrra sig ábyrgðinni af obeldinu.  Allt of margir koma með afsakanir ofbeldismanninum til handa í stað þess að horfast í augu við að hann ber ábyrgðina og ákvörðunina.  Það til og með sýna nýlegir dómar að jafnvel dómstólar landsins reyna enn að setja ábyrgðina annarstaðer ein einmitt á ofbeldismanninn.

Vissulega á umræðan að snúast um hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir ofbeldi.  Enda er ég að benda á að ein leiðin til þess er einmitt að setja ábyrgðina þar sem hún á heima í stað þess að koma alltaf með afsakanir fyrir ofbeldinu.

Það eru nú ekki allir sammála því að það að beita ofbeldi flokkist undir geðsjúkdóm.  Vissulega get ég verið sammála um að það sennilega flokkist undir geðveilu og vissulega eiga þessir einstaklingar einnig tilverurétt.  En sá tilveruréttur á ekki að afsaka gjörðir þeirra samt sem áður heldur ætti að hjálpa þeim að viðurkenna þær og taka ábyrgð á þeim.

Dísa Dóra, 30.7.2008 kl. 14:34

16 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Maður þarf kannski ekki að vera siðblindur til að fyrra sig undan ábyrgð, hræðsla getur líka spillað inn í og ég held að fólk sé yfirleitt mest hrætt við að missa mannorðið.

Þú getur auðveldlega miss það ef uppkemst að þú sért barna/konuberjari, nauðgari eða annað slíkt. 

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 30.7.2008 kl. 14:44

17 Smámynd: Dísa Dóra

Nanna - jú vissulega getur óttinn við að missa mannorðið spilað þarna stóran þátt inn í.  En ef sá ótti er svona mikill hjá ofbeldismanninun ætti hann þá ekki að hugsa um mögulegan mannorðsmissi áður en hann beitir ofbeldinu??

Dísa Dóra, 30.7.2008 kl. 15:01

18 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Held nefnilega að menn/konur sem gera svona, séu svo littlir menn að þeir bara ráða ekkert við sjálfan sig. 

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 30.7.2008 kl. 15:06

19 Smámynd: Dísa Dóra

Nanna - jú vissulega er ég sammála þér í því að ofbeldismenn og konur eru svo litlir menn - en ég er ekki sammála þér að þeir ráði ekkert við sjálfan sig samanber að þeir geta allavega stjórnað sér þannig að til dæmis berja þar sem að hægt er að hylja áverkana og einnig þar sem að engin vitni eru til staðar.  Slíkt segi ég að bendi nú til þess að þeir ráði bara þokkalega vel við sjálfan sig þrátt fyrir allt.

Dísa Dóra, 30.7.2008 kl. 15:08

20 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Bjó með einum slíkum í 3 ár, held að honum fannst þetta mjög leiðinlegt, jafnvel í fyrstu brotið hann meir en mig.  Fólk gerir oft hluti þvert á móti sínum vilja.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 30.7.2008 kl. 15:13

21 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 30.7.2008 kl. 19:40

22 Smámynd: Dísa Dóra

Nanna - þar erum við ekki sammála.  Ég er á þeirri skoðun að sá sem virkilega ekki vill beita ofbeldi gerir það ekki heldur.  Ég bjó með ofbeldismanni í tæp 9 ár og í byrjun virtist hann líka iðrast mjög gjörða sinna.  Iðrunin náði þó ekki langt og hann meira að segja sagði seinna að hann þyrfti ekkert að byðja fyrirgefningar þar sem hann vissi hvort sem er að þetta mundi gerast aftur.  Sýnir ekki að þetta sé mikið á móti hans vilja og því miður er hans hegðun langt í frá einsdæmi.  Enda er það líka sagt að maður velur sjálfur hvernig maður hagar sér - maður velur til dæmis hvort maður reykir eða ekki, hlær eða ekki, grætur eða ekki.  Maður velur einnig hvort maður beitir ofbeldi eða ekki.

Dísa Dóra, 30.7.2008 kl. 19:52

23 Smámynd: Sporðdrekinn

Ég hef orðið það reið að mig langar til að berja frá mér eða henda hlutum, en... ég geri það ekki. Ég hef völina að gera eða gera ekki.

Ég var í sambandi í þrjú ár þar sem að líkaminn var bæði barinn og misnotaður. Ég var líka beitt andlegu ofbeldi, held að það fylgi oftast með í pakkanum.

Jú jú það var vælt og beðist fyrirgefningar á eftir, í flest skiptin. En það skal engin segja mér að hann hafi ekki vitað upp á hár hvað hann var að gera. Hurðum var læst svo að enginn kæmist inn til að hjálpa mér, ef að hann hefði verið að gera þetta í einhverju kasti þá hefði hann ekki farið að læsa. Oft fylgdi nauðgun á eftir barsmíðunum og það segir mér að hann hafi fengið eitthvað út úr því að hafa mig svo algerlega á valdi sínu.

Menn og konur sem beita ofbeldi eru litlar mannverur í mínum augum.

Sporðdrekinn, 31.7.2008 kl. 04:01

24 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Nei Dísa við erum ekki ósammála.  Ég trúi því líka að fólk hafi val og eigi að bera ábyrgð á gjörðum sínum.  Þrátt fyrir það, velur fólk oft gegn vilja sínum.  Það er veikleiki og fólk þarf að takast á við það sjálft. 

Það sem ég er að reyna segja að við sem höfum óvart lent í svona veikum fólki verðum ekki veik fyrir vikið.  Gerandinn er það og honum ber að vorkenna, hann er lítill, ekki þolendum sem eru bara hetjur að komast í gegn um þetta. 

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 31.7.2008 kl. 15:14

25 Smámynd: Dísa Dóra

Nanna - ok núna skil ég betur hvað þú ert að meina - þú hefur verið að tala út frá þolandanum en ég var að tala út frá gerandanum.  Er algjörlega sammála þér um að við verðum sko langt í frá veik fyrir vikið

Dísa Dóra, 31.7.2008 kl. 15:33

26 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Dísa Dóra ég er sammála þér´i því að greinin slær mig eins og ýjað sé að því að vissir atburðir í lífi gerandans geti afsakað hegðun hans. Trúi því samt að þar sé meint að atburðirnir geti ''skýrt´´ hegðunina.

Ég trúi því líka að fólk sem beitir maka sinn og/eða fjölskyldu ofbeldi geti vel verið veikt á geði. Sennilega er það svo í flestum tilvikum. Allavega ef við viljum trúa því að mannskepnan sé siðmenntuð, hjálpfús og samúðarrík að eðlisfari.

Ég get þó ekki haft neina samúð með slíku fólki því nákvæmlega eins og þú segir Dísa Dóra: viðkomandi hefur alltaf valið. Við höfum öll alltaf val. Í hvaða aðstæðum sem er. Það er alltaf hægt að velja um eitthvað.

Ég ber ofsalega mikla virðingu fyrir ykkur hér að ofan sem segið blátt áfram frá því að þið hafið búið við ofbeldi. Ekki síst fyrir þær sakir að hafa lifað af, náð að komast út úr aðstæðum og skapa ykkur nýtt líf.

En spyr sá sem ekki veit: Nanna Katrín, er ekki beinlínis hættulegt að hafa svo mikla samúð með ofbeldismanninum, eins og ég þykist lesa út úr athugasemdinni þinni? Er ég kannski að misskilja þig?

Jóna Á. Gísladóttir, 31.7.2008 kl. 21:25

27 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Jóna, það væri hættulegra ef sammúðin væri öll hjá mér.  Ef ég myndi festast sem fórnarlamb allt mitt líf, að einhver manneskja geti haft slík áhirf á mig.

Ég held að besta leiðin til að ná hugarró eftir ofbeldi er að ná að verða sama um gerandan, ekki eyða tímanum í að hata hann eða óska honum ills, heldur sjá hann sem hann er, veikur og sorglegur.   Koma sér burt og óska honum sem bestum bata.  Ég nákvæmlega enga virðingu fyrir fólki sem betir ofbeldi en fólk sem vill breyta sér og reynir að breyta sér á mikla virðingu hjá mér.

Ég veit sjálf að ef ég hef gert eitthvað á kostað annarra óvart/viljandi þá líður mér ekki vel, þannig ég get ekki ímyndað mér hvernig fólki líður sem hefur beitt grófu ofbeldi gegn einhverjum líður.   Ef ég þyrfti að velja myndi ég velja að vera þolandinn.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 31.7.2008 kl. 21:52

28 Smámynd: Dísa Dóra

Jóna - Þakka þér fyrir þessi orð þín.  Ég hef heldur ekki samúð með þeim sem að beita aðra ofbeldi en svo er spurningin hvort það er geðveila, geðsjúkdómur eða eitthvað annað sem veldur.

Nanna - Ég er sammála þér þar til kemur að neðstu málsgreininni þinni.  Það virðist nefnilega því miður oft vera þannig að gerandinn sér ekki að hann hafi gert neitt rangt og finnst ofbeldið bara eitthvað sem er öðrum að kenna, vel skiljanlegt og afsakanlegt - því líður gerandanum oft alls ekkert illa með gjörðir sínar (því miður).  Hvort orsök þessa hugsunar hjá gerandanum er siðblinda eða annað hef ég oft spáð í. 

Hins vegar ef ég mætti velja þá vel ég að vera hvorki gerandi né þolandi

Dísa Dóra, 31.7.2008 kl. 22:21

29 Smámynd: Sporðdrekinn

Það sagði við mig góður vinur "þú verður að fyrirgefa honum, annars mun hatrið menga þig".

Ég sá og skildi hvað hann var að segja, ég bað því fyrir manninum og að ég gæti fyrirgefið honum. Nú ber ég engar tilfinningar til hans, ja ok... ég er stundum sár út í hann fyrir að hafa blettað restina af lífi mínu á þann hátt að ég ómeðvititað bregst kannski ekki alltaf við hlutum á þann hátt sem manneskja sem hefur ekki gengið í gegnum mína reynslu myndi bregðast við.

Svo að ég tek undir þessi orð þín Nanna: "heldur sjá hann sem hann er, veikur og sorglegur.   Koma sér burt og óska honum sem bestum bata." 

Ég vil undirstrika sorglegur

Sporðdrekinn, 1.8.2008 kl. 01:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband