. - Hausmynd

.

Þegar ég "kom út úr skápnum"

Ég var fyrir löngu búin að lofa ykkur að setja hér inn viðtalið sem byrtist við mig í Íslandi í dag þann 21. janúar 2002 og fjallaði um reynslu mína sem þolandi heimilisofbeldis.  Það hefur hins vegar gengið heldur brösulega að koma þessu í tölvtækt form en ég átti þetta aðeins á videospólu. 

Viðtalið má segja að hafi verið upphafið af því að umræðan um heimilisofbeldi opnaðist loksins almennilega og fleiri stigu fram í dagsljósið seinna meir og sögðu sína sögu.  Ein kona hafði nokkrum árum áður sagt frá reynslu sinni sem þolandi heimilisofbeldis og því miður fékk hún frekar dræmar viðtökur þrátt fyrir sitt gífurlega hugrekki.  En þegar ég svo kem fram opinberlega með mína reynslu var almenningur greinilega tilbúnari til að horfast í augu við þann vanda sem heimilisofbeldi í rauninni er.  Sem betur fer hefur umræðan opnast gífurlega um þessi mál síðustu árin og er ég í dag mjög stolt yfir að hafa átt þátt í þeirri opnun.  

Þetta var mér hins vegar á sínum tíma gífurlega erfitt skref að stíga og í raun skref sem ég hafði ekki almennilega tíma til að hugsa um fyrr en það var stigið - kannski sem betur fer því annars er ekki vísst að ég hefði haft styrk til að stíga það skref.  Í upphafi bloggferils míns hér á mbl setti ég inn færslu um það skref að koma opinberlega fram og má finna þá færslu HÉR.

Til að auðveldar ykkur smá að lesa þá færslu set ég hana líka hér inn. 

 

Að segja söguna opinberlega

Í dag ætla ég að byrta bréf sem ég skrifaði eitt sinn um aðdraganda þess að ég kom opinberlega fram með söguna mína sem og þær tilfinningar sem það ferli vakti hjá mér ásamt því hvernig mér leið fyrst á eftir.  Ég segi það stundum í dag að ef ég hefði vitað hve mikil vinna þetta ferli var og ég hefði með þá vitneskju í huga fengið tíma til að hugsa mig um, hefði ég sennilega bakkað og farið í felur og aldrei farið af stað með allt sem ég gerði.  Sjálfstraustið var enn veikt á þessum tíma og ég hefði nokkuð örugglega fundið ástæður til að hún litla ég ætti ekki að koma fram og segja sannleikann um ofbeldissamband mitt.  En hún litla ég fékk ekki að hugsa og skellti sér bara beint í djúpu laugina - sem betur fer segi ég eftir á þar sem það varð til að opna umræðuna um ofbeldismál til muna og af því er ég mjög stolt í dag Smile

Í dag er sálfstraustið bara gott og ég mjög hamingjusöm og sátt við mitt líf - þrátt fyrir það fæ ég alltaf ólgu í magann þegar ég tala um mína reynslu á hvaða vettvangi sem það er.  Ég hins vegar læt það ekki stöðva mig því ég er þess fullviss að til þess að hafa möguleika að fræða og efla þær forvarnir sem þarf til að hægt verði að sporna við við ofbeldi, þá þarf að tala um þau aftur og aftur.  Það þarf einnig að grafa niður þá skömm sem að þeir sem hafa upplifað ofbeldi finna svo oft fyrir þegar kemur að því að segja sögu sína.  Það þarf að sýna þeim sem ekki hafa upplifað ofbeldi að við sem í því lendum erum bara venjulegar persónur.  Við gætum þess vegna allt eins verið Jón eða Gunna í næsta húsi, systir þín eða bróðir, vinir þínir eða bara hver sem er.  Það er því nauðsynlegt að ALLIR þegnar samfélagsins þekki einkennin - að allir þegnar samfélagsins tali opinskátt um þessi mál í stað þess að sópa þeim undir teppið.  Þannig og aðeins þannig tel ég möguleika á að koma í veg fyrir að fleiri lendi í þessum ógnar vef sem ofbeldi er.

En hér kemur bréf það sem ég skrifaði fyrir nokkru um það að koma fram opinberlega:

Frá því ég skrifaði söguna mína hafa liðið ár og mikið vatn runnið til sjávar. Það hefur á ýmsu gengið og svo sannarlega hefur þetta verið dans á rósum og þá eins og Svíarnir segja:  Lífið er dans á rósum; stundum á blöðunum og stundum á þyrnunum!

Ég hefði aldrei trúað því þegar ég skrifaði söguna mína að hún yrði þess valdandi að ég léti gamlan draum rætast og að sá draumur yrði eins umfangsmikill og hann í raun varð. Í fyrsta lagi skrifaði ég söguna fyrir sjálfa mig til að reyna að koma skipulagi á mínar hugsanir í sambandi við þá reynslu sem ég hafði gengið í gegn um og til að reyna að gefa vinum og vandamönnum skýrari mynd af því.  Sendi ég söguna ásamt bréfi til vina og vandamanna einn góðviðrisdag alveg óafvitandi að nokkrir af vinum mínum sendu söguna áfram til fleiri og hún svo gekk eins og eldur um sinu um netið  (Sagði að vísu í bréfinu að þeim væri velkomið að senda áfram ef það gæti hjálpað að fá hugmyndir, en í mínum huga horfði ég aðeins á mjög fáa.  En í stað þess sendu nokkrir vinir mínir bréfið áfram á alla sem þeir þekktu og þannig koll af kolli). 

Ég var aðeins í spennufalli eftir að hafa framkvæmt eitthvað sem var mér langt í frá auðvelt en þó eitthvað sem ég hafði lengi ætlað mér og ég var viss um að væri nauðsynlegt til að stíga næsta skref í uppbyggingu þeirri sem ég hafði verið að vinna í sjálfri mér.  Ég var bæði mjög fegin að hafa látið verða af þessu og léttirinn við að skrifa söguna var ótrúlegur, en samtímis var ég mjög kvíðin yfir því hvernig viðbrögð ég fengi nú hjá þeim sem ég sendi bréfið. Ég hafði í svo mörg ár hafnað sjálfri mér sem persónu að ég hefði ekki orðið hissa ef ég hefði fengið svoleiðis viðbrögð frá einhverjum hópi. Því varð ég ekki lítið hissa þegar ég frétti að bréfið væri á hraðferð á netinu og þegar fjölmiðlar fóru að hafa samband og biðja um viðtöl. 

Ég varð eiginlega hálf hrædd við þetta allt saman og langaði mest til að bara loka mig af og svara hvorki síma, tölvupósti né dyrabjöllu. En svo fór ég að hugsa um að ein stór ástæða þess að ég sendi bréfið var einmitt ósk mín að fá ráð til að opna augu almennings gagnvart þeim ógnvaldi sem heimilisofbeldi er.  Og ekki gat ég bara skriðið í felur núna!

Ég beit því á jaxlinn og ákvað að veita nokkrum viðtal til að almenningur fengi að heyra þessa hlið málanna.   Það var skjálfandi og kófsveitt dama sem fór í beina útsendingu í Ísland í dag. Vinkona mín sem hafði ætlað að koma með mér upp í útsendingarstúdíó og halda í höndina á mér komst því miður ekki með mér vegna óviðráðanlegra aðstæðna.  Ég sat því þarna og nagaði neglurnar og hugsaði hvern fj... ég væri að gera þarna. Hvað ég héldi eiginlega að ég hefði að segja almenningi og aðrar svipaðar hugsanir ásóttu mig.  Þegar ég var  kölluð inn í útsendingu eftir óralangan tíma að mér fannst var varla að ég gæti gegnið því fæturnir skulfu svo.  Lá reyndar við að ég snéri við á síðustu mínútu en hugsunin um að ef til vill gæti ég hjálpað einni persónu sem væri í svipuðum aðstæðum og ég var, varð til þess að ég ákvað að halda áfram.  Ég hafði strax og viðtöl bárust í tal ákveðið að ég færi ekki nema undir eigin nafni og mynd.  Hafði alltaf hugsað sem svo þegar ég sá skuggamyndir á bak við skerm að það mundi aldrei nást almennilegur árangur í að opna umræður um þessi mál á meðan þyrfti enn að vera með þau í felum. Fannst það að tala á bak við skugga vera líkt og að sópa málunum undir teppi, að vísu heyrðist í viðkomandi en tilfinning mín var samt sem áður að þarna væri enn verið að fela raunveruleikann.  Eins hugsaði ég sem svo að ef maður sér einhvern tala um svona hluti og sér að viðkomandi er bara venjuleg manneskja gæti það kannski orðið til að eyða ýmsum fordómum gagnvart þolendum heimilisofbeldis.  Því kom ég fram undir nafni og mynd. En enn þann dag í dag get ég ekki horft á upptöku af þessum þætti án þess að fá herping í magann því ég man svo vel kvíðahnútinn og stressið (reyndar fæ ég þennan hnút við að skrifa þetta og það af sömu ástæðum). Ég varð sjálf mjög hissa þegar ég sá upptöku af þessu hve róleg ég virtist vera og að ég kom sæmilega til skila því sem ég vildi sagt hafa (þeir sem þekktu mig vel sáu þó auðveldlega hve stressuð ég var). Satt best að segja mundi ég ekki orð af því sem ég hafði sagt þegar ég gekk út úr salnum. Var svo stressuð að það bara var mér ómögulegt að muna það sem ég hafði sagt.  Man að ég vildi aðeins drífa mig út svo ég gæti grátið í friði. Upptökumennirnir stöðvuðu mig þó á leiðinni út og vildu fá að taka utan um mig og óska mér til hamingju með hugrekkið.  Þar láku fyrstu tárin því svo sannarlega fannst mér ég ekki vera hugrökk á þessari stundu skjálfandi af ótta við að hafa klúðrað öllu viðtalinu sem og við afleiðingarnar sem það gæti haft.  Hljóp síðan út í bíl og sat þar lengi og hágrét.

Það stóð reyndar ekki á viðbrögðunum því síminn bókstaflega trylltist og allir vildu óska mér til hamingju með þetta skref.  Smátt og smátt hvarf kvíðahnúturinn yfir að ég hefði klúðrað þessu öllu því ég gat ekki annað heyrt á viðbrögðunum en að ég hefði staðið mig með ágætum. Fór svo til vinkonu minnar og sat þar góða stund.  Þegar heim kom beið blómvöndur frá stúlku sem ég hafði þekkt í Svíþjóð með hamingjuóskum. Þarna opnuðust flóðgáttirnar aftur en í þetta sinn voru það þó hamingjutár því mér þótti mjög vænt um að heyra frá henni aftur. 

En lítið varð um svefn þessa nótt. Þegar ég ætlaði að sofna kom yfir mig þvílíkur ótti um að minn fyrrverandi mundi gera mér eitthvað til miska vegna þess að ég hafði nú sagt söguna eins og hún var. Áttaði mig á því um miðja nótt þvílíkur ógnvaldur og stjórnvaldur óttinn getur verið.  Sat þá uppi í rúmi búin að loka öllum gluggum kyrfilega, með öll ljós kveikt og búin gera allar þær varúðarráðstafanir sem ég gat og skalf samt af ótta. Bjóst satt að segja við því á hverri stundu að hann kæmi fljúgandi inn um gluggann eða álíka og réðist á mig. Allt í einu uppgötvaði ég að þetta var nákvæmlega sú tilfinning sem hafði stjórnað lífi mínu í nokkur ár. Hafði ég náð að vinna bug á óttanum að mestu og hafði það gerst smátt og smátt.  Ég gerði mér því ekki grein fyrir þessu fyrr en þarna hve gífurlega hann hafði stjórnað öllu sem ég gerði, sagði og hugsaði.  Og þegar ég kom auga á þetta tók ég ákvörðun um að ég ætlaði ekki að láta þennan mann skemma allt líf mitt.  Ég hafði gert honum kleift að stjórna lífi mínu með ótta í mörg ár og var í raun enn að gera honum það kleift að stjórna mér. Ég ákvað að ég yrði að vera sannfæringu minni trú og það gæti ég ekki ef ég óttaðist sífellt hefndaraðgerðir.  Ég yrði bara að taka því sem koma skyldi. Enginn veit til dæmis hvenær slys getur orðið og þýðir ekki að láta ótta við slíkt stjórna öllu lífi sínu. Og þetta var svipað sem ég var að gera. Eftir þetta náði ég að sofna smá stund og hef oft síðan hugsað einmitt um þessa nótt bæði til að minna mig á þessa ákvörðun og til að minna mig á hve óttinn er öflugt stjórntæki. Ætli það hafi ekki verið fyrst þarna sem ég gerði mér fyllilega grein fyrir hví við sem erum föst í þessu neti eigum svo erfitt með að slíta okkur laus (allavega stór þáttur þess að mínu áliti).

Ég kom fram í blaðaviðtali og einhverjum útvarðsviðtölum líka, en hafnaði mörgum boðum því það var aldrei meining mín að vekja athygli á mér persónulega heldur aðeins opna umræðuna um þessi mál. Taldi ég mig vera búna að gera það og nú gæti ég stigið skref til baka og fylgst með umræðunni. Ákveðið var að stofna samtök fyrir þolendur heimilisofbeldis sem og heimasíðu. Við fengum gífurleg viðbrögð og satt að segja flest mjög jákvæð. Vissulega fékk ég hótanir um kæru og fleira en var fyrirfram búin að ákveða að ef það væri sá tollur sem ég þyrfti að borga fyrir að segja sannleikann þá yrði svo að vera.

Næstu mánuðir voru mjög annasamir hjá mér og ég fylltist gleði og eldmóði þegar mér varð ljóst að ég ekki einungis gat aðstoðað fólk heldur var ég að því.  Ég gerði þó þá skyssu að ég ætlaði að bjarga öllum heiminum og setti allan minn kraft í það. En það endaði aðeins með því að ég keyrði mig út.  Var þó svo heppin að mér var bent á þetta fljótlega og ég fann það líka sjálf.  Var þó orðin þannig að ég var sífellt að fá allar pestir og orðin svo orkulaus að ég þurfti oft að leggjast gólfið til að ekki liði yfir mig.  En tók mér síðan gott sumarfrí og notaði það til að sofa og hvílast og reyndi að halda mig sem mest frá samtökunum.  Og tókst að finna minn styrk aftur þó það vissulega taki smá tíma að byggja upp þrek.  En ég lærði að þó ég vissulega vilji gera allt sem hægt er verð ég fyrst og fremst að hugsa um að setja súrefnisgrímuna á sjálfa mig áður en ég rétti næsta manni hana.  Hef síðan reynt að passa mig á að taka mér góða frídaga inn á milli til að hlaða batteríin. En það gefur mér líka mikið að geta hjálpað þeim sem á þurfa að halda og svo sannarlega hefur þetta allt gefið mér mikið.

Ég hélt líka áfram að byggja sjálfa mig upp og vinna úr þessu öllu eins og fram kemur í öðrum skrifum mínum.
 

En hér getið þið séð viðtalið og dæmt sjálf hvernig til tókst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þú ert hetja og ég er stolt af því að þekkja þig.  Gangi þér ávallt allt í haginn. þú er frábær í þessu viðtali og ég er stolt af því að þekkja þig.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.7.2008 kl. 21:59

2 Smámynd: Ragnheiður

Flottust !

Ragnheiður , 12.7.2008 kl. 22:26

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er stoltur af þér og því sem þú gerir.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 12.7.2008 kl. 22:35

4 Smámynd: Sigrún Óskars

Vá, þú ert hugrökk og sterk kona. Þú mátt vera stolt af þessu viðtali, varst mjög skýrmælt og yfirveguð. Gangi þér allt í haginn.

Sigrún Óskars, 12.7.2008 kl. 22:38

5 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Svakalega ertu sterk stelpa! Það titrar ekki einu sinni röddin

Hrönn Sigurðardóttir, 12.7.2008 kl. 22:46

6 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Þú er bara lang flottust í þessu viðtali...ég man eftir þessu viðtali og ég var svo hissa á að hann gerði svona hann var alltaf svo kammó og hress ef ég hitti hann en sem var ekki oft reyndar.

Knús til þín og þinna ég er ROSALEGA stollt af þér. 

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 12.7.2008 kl. 23:13

7 identicon

Flottust.Ég er stolt af því að vera í bloggvinahópnum þínum

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 23:16

8 Smámynd: Þóra Sigurðardóttir

Þetta viðtal var mjög gott og mér finnst þú ótrúlega hugrökk kona.

Þú mátt svo sannarlega vera stolt af þér. Ég er allavega stolt af því að eiga svona bloggvinkonu

Þó ég sé ekki dugleg í athugasemdakerfinu þá les ég bloggin þín reglulega og finnst þú mjög áhugaverð kona.

Þóra Sigurðardóttir, 12.7.2008 kl. 23:43

9 Smámynd: www.zordis.com

Æðislega stóðstu þig vel kæra Hjördís.  Skrifin þín snertu við hjartað og þú er ljómandi geislandi kona!  Hlakka til að hitta þig

www.zordis.com, 13.7.2008 kl. 10:17

10 Smámynd: Þórdís Guðmundsdóttir

Alveg frábært viðtal og það hefur þurft mikið hugrekki og styrk til að áorka því sem þú hefur gert.  Það er líka ómetanlegt og nauðsynlegt að koma svona umræðu upp á yfirborðið.

Þórdís Guðmundsdóttir, 13.7.2008 kl. 11:25

11 Smámynd: Valgerður Sigurðardóttir

Glæsilegt hjá þér. Hugrekkið sem þú býrð yfir er ótrúlegt.

Valgerður Sigurðardóttir, 13.7.2008 kl. 11:57

12 Smámynd: Dísa Dóra

Takk fyrir yndislegar athugasemdir elskur

Það er satt hjá ykkur að þetta er svo sannarlega þörf umræða og umræða sem stöðugt þarf að vinna í að halda á lofti.  Það er einnig satt að þeir sem beita ofbeldi virðast yfirleitt vera mjög dagfarsprúðir og yndælir út á við en sýna svo allt aðra hlið á sér inni á sínu eigin heimili. 

Dísa Dóra, 13.7.2008 kl. 13:56

13 identicon

Mikið ertu flott og sterk kona

Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 20:43

14 Smámynd: Huld S. Ringsted

Þú ert flott í viðtalinu, algjör hetja

Huld S. Ringsted, 13.7.2008 kl. 22:00

15 Smámynd: Solla Guðjóns

Ég man eftir þessu viðtali og umtalinu í spjallþáttum útvarpsrásanna á eftir...man meðal annars að upp komu umræður um akkúrat það sem þú sagðir í lokin..að konur gætu beitt eignmennina ofbeldi og að ástandið væri ekki stéttaskipt.Man alveg eftir nokkrum körlum sem sögðust vera beittir andlegu ofbeldi.....og spurningunni...hvað er andlegt ofbeldi ..var oft varpað fram.

Það er engin spurning elsku stelpan mín að þarna þrusaðir þú beint í MARK hjá mörgum sem ákváðu að MARKIÐ væri ekki þeirra staða á þessum velli...og það get ég sagt þér að ég fór að skilja annað svipað dæmi útfrá viðtalinu....ég taldi alltaf að viðkomandi væri að ýkja um þennan líka "sjarmakarl" sem hún átti...útfrá viðtalinu fór ég að geta spurt viðkomandi réttra spurninga......og já  og já ......Viðkomandi er skilin við sjarmakarlinn fyrir 3-4 árum og hefur þakkað mér í tíma og ótíma fyrir að vera til.ÞÖKK SÉR ÞÉR.

ANNARS GAMAN AÐ KOMAST AÐ ÞVÍ AÐ KONAN SEM Á SVO STÓRAN HLUT Í LÍFI ............. SKULI VERA ÞÚ.

Risafang til þín duglega kona.

Solla Guðjóns, 13.7.2008 kl. 22:30

16 Smámynd: Erna Björk Svavarsdóttir

Knús og kossar

Erna Björk Svavarsdóttir, 13.7.2008 kl. 22:58

17 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Bestu kveðjur til þín elsku Dísa Dóra  mín og bið ég góða nóttina og megi allir góðir Guðsenglar yfir þér vaka og vernda

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 14.7.2008 kl. 01:24

18 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Man eftir þessu viðtali og umræðunni sem fór í gang í kjölfarið.
Þú ert náttúrulega bara töffari :)

Heiða B. Heiðars, 14.7.2008 kl. 10:36

19 Smámynd: Sporðdrekinn

Á eftir að lesa þetta allt og horfa á, en mig langar bara til að segja HÆ

Sporðdrekinn, 14.7.2008 kl. 21:46

20 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Virkilega flott hjá þér Dísa mín. Ég las útúskápnumgreinina fyrir löngu og fann mikið til með þér. Gott hjá þér að gera heimasíðuna og  bloggið.  Við Steina sendum þér okkar bestu sumarkveðjur yfir vötnin sjö ásamt baráttukveðjum.

Gunni Palli kokkur.

Gunnar Páll Gunnarsson, 15.7.2008 kl. 11:56

21 identicon

Þú ert ofboðslega sterk og dugleg :)

Takk fyrir alla hvatningu sem þú hefur veitt mér (L)

Gangi þér vel áfram og ávallt!

Lúv,

Elísa

Elísa (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 12:10

22 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

Ég segi nú bara. Þú ert hetja !

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 15.7.2008 kl. 16:56

23 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ji minn einasti segi ég bara. Þetta hlýtur að hafa tekið hræðilega á. Hugrekki er rétta orðið, það er engin spurning.

Langar að benda þér á, ef þú hefur ekki tekið eftir því sjálf, muninum á þér útlitslega í þessu viðtali og svo á höfundamyndinni á blogginu þínu. Á myndinni stafar svo mikilli útgeislun frá þér og augun eru svooo björt og glaðleg.

Ég geri mér grein fyrir því að stress hefur haft áhrif á útgeislunina þína í viðtalinu, en þar er svo klárlega ekki sama manneskja á ferð og í dag.

Til hamingju með öll skrefin þín Dísa Dóra. Ég veit að ansi mörg þeirra hafa haft mikið að segja fyrir aðra líka.

Jóna Á. Gísladóttir, 15.7.2008 kl. 18:35

24 Smámynd: Gunna-Polly

man þegar ég fékk þetta bréf,tárin bara runnu, þú ert hetja,

Gunna-Polly, 15.7.2008 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband