20.6.2008 | 18:20
Þegar heimilið hættir að vera griðarstaður
Þetta hefur verið mér ofarlega í huga síðustu vikur og eitthvað sem ég hef hugsað mikið um. Heimili manns á jú að vera staður þar sem að maður finnur sig öruggan og verndaðan. Þar sem að maður finnur grið fyrir hættum og öðru sem maður vill ekki hafa í sínu lífi. Heimili manns á jú að vera sá staður sem að maður getur horfið til ef hætta eða óöruggi af einhverju tagi steðjar að manni og heimilið þá veitir manni tilfinningu um öryggi og ró og að maður sé verndaður fyrir flestu.
Tvisvar á ævi minni hef ég upplifað að heimili mitt hafi ekki reynst þessi griðarstaður. Ástæðurnar fyrir því eru mjög misjafnar en afleiðingin hefur verið að ég hef ekki fundið mig örugga á mínu eigin heimili. Þetta er mjög vond tilfinning get ég sagt ykkur. Hvert getur maður svosem flúið þegar manns eigið heimili veitir manni ekki það skjól sem það ætti að gera?
Í fyrra skiptið sem heimili mitt hætti að vera minn griðarstaður var ofbeldi orsökin. Andlegt-, líkamlegt-, og kynferðislegt ofbeldi það sem minn fyrrverandi beitti mig í mörg ár orsakaði jú að heimili mitt varð einmitt einn hættulegasti staðurinn sem ég gat verið á. Ég upplifði mig ekki örugga og reyndar þvert á móti - ég var ávalt hrædd á mínu eigin heimili og þar var mesta hættan á að ógnin (ofbeldið) steðjaði að mínu lífi. Ég man eftir þeirri tilfinningu að vera með þvílíkan kvíða og óttahnút í maganum þegar ég var á leið úr vinnu eða örðu heim til mín. Það er langt í frá eðlilegt ástand þegar maður óttast það sem felst innan veggja heimilis síns í stað þess að það veiti manni öryggi. Ég man þá tilfinningu að vera alltaf með augun og eyrun upp á gátt til að reyna að meta hvort að hættan væri mikil eða ekki. Ég man þá tilfinningu að tipla á tám á mínu eigin heimili og óttast um líf mitt. Já svo sannarlega var heimili mitt ekki minn griðarstaður þessi ár og það tók mig langan langan tíma eftir skilnaðinn að finna mig örugga á mínu heimili. Það var eitthvað sem kom ekkert til baka einn, tveir og þrír eftir skilnaðinn heldur þurfti ég að vinna mikið í sjálfri mér til að heimilið yrði mér aftur griðarstaður.
Í seinna skiptið sem heimilið hætti að vera minn griðarstaður var jarðskjálfti orsökin. Náttúran er eitthvað sem við getum ekki stjórnað og því gjörsamlega ómögulegt að vita að heimili þitt verði örugtt fyrir slíku næstu mánuði eða ár eða alls ekki. Ég fann þessa tilfinningu eftir jarðskjálftann og sérstaklega fyrstu dagana. Ég fékk kvíðahnút í magann í hvert skipti sem ég þurfti að fara inn og vildi helst bara vera utanhúss. Heimili mitt var jú hætt að veita mér það öryggi sem það hafði veitt mér og ég óttaðist mest að annar stór skjálfti kæmi og heimili mitt gæti hreinlega orðið slysagildra með fallandi hlutum og öðru. Næstu daga á eftir var maður einmitt með eyru og augu galopinn að reyna að meta hvort slík hætta væri á ferðinni. Heimilið var í annað skipti hætt að vera minn griðarstaður. Ég hugsa að margir sunnlendingar viti um hvaða tilfinningu ég er að tala um að einhverju leiti allavega eftir slíkan skjálfta.
Þessi tilfelli eru hins vegar mjög ólík. Í fyrra skiptið endaði ég með að viðurkenna að heimili mitt yrði mér aldrei griðarstaður á meðan ég byggi með manni sem beitti mig ofbeldi og yllir því þar af leiðandi að mér stafaði hætta af því að dvelja á mínu eigin heimili. Ég vissi því að stórkostlegar breytingar yrðu að verða á lífi mínu ef ég ætti nokkurn tíman að verða örugg aftur. Í seinna skiptið komst ég hins vegar að því að ég átti mér í raun griðarstað þrátt fyrir að í byrjun væri hann ekki alveg innan fjögurra veggja heimilis míns - hann var hins vegar í því falinn að vera með fjölskyldu minni. Að finna að ég, maðurinn minn og litla skottið okkar vorum saman og heil á húfi. Það skipti ekki máli hvort staðurinn var fellihýsi, suðurland eða norðurland - öryggið fólst í að vera með fjölskyldu minni. Í seinna skiptið veit ég líka að þrátt fyrir að enn sé heimili mitt ekki fullkomlega orðinn sá griðarstaður sem hann var, því ég viðurkenni að enn er smá kvíðahnútur í maga mínum, þá veit ég að heimili mitt mun innan ekki svo langs tíma verða minn griðarstaður.
Bara smá hugleiðingar um hverjar orsakir geta verið fyrir því að heimilið hættir að vera griðarstaður manns. Gaman væri að fá smá hugsanakorn frá ykkur um þessi mál
Athugasemdir
Þessi færsla vekur mann sannarlega til umhugsunar..... hræðilegt að lesa um ofbeldið í fortíð þinni, ég get ímyndað mér að þarna hafi heimilið ekki verið það skjól sem manni yfirleitt finnst heimili sitt vera.
Hins vegar rétt hjá þér, að ætli maður upplifi ekki öryggið og skjólið þegar maður er með sínum elskuðu, hvar sem það er. Að mínu mati er þó alveg nauðsynlegt að eiga griðastað á sínu heimili, þú átt örugglega eftir að losna við kvíðahnútinn.
Bestu kveðjur,
Lilja G. Bolladóttir, 20.6.2008 kl. 22:53
Elsku hjartað mitt.Ég veit nákvæmlega um hvaða tilfinningu þú ert að tala.Þó á líka hafi ekki skeð á mínu heimili né í mínu hjónabandi......þá bjuggum við í blokk......Ég var hætt að þora heim til mín....ég svaf hjá mömmu og pabba eða svaf ekki því Ári svaf heima hjá okkur og ég svaf ekki fyrir áhyggjum um að hann yrði limlestur eða verra.......Marg sinnist þurtftum við að hringja á lögreglu úta þessum nágrönnum okkar.....kanan hlaupandi fram á stigapall öskrandi á hjáp og litlu börnin þeirra skjálfandi komin í fósturstellingu út í horn.
Ofsahræðsla og kvíði er ein óhuggulegasta tilfinning sem ég hef upplifað.....ég var að leita geðhjálpar útaf þessu.
Elsku stelpan mín ég vona svo innilega að þú náir tökum á þessu og getir unnt þér vel á þínu heimili.
Ég veit það er hægt.
Risa umvefjandi faðmlag frá mér
Solla Guðjóns, 21.6.2008 kl. 13:02
Dísa Dóra mín við eigum þetta sameiginlegt sem gerðist, það varði í 27 ár hjá mér og hvernig ég komst út úr þessu var þegar hann ætlaði að banna mér að hjálpa Dóru minni er tvíburarnir hennar voru veikar. það var náttúrlega allt löngu búið,
ég bara þorði ekki, hann meira að segja hótaði að drepa hundinn okkar.
þarna allt í einu var punkturinn yfir i ið kominn, og ég sagðist ekki koma heim aftur.
Síðan byrjaði langt ferli að vinna sig úr úr öllum málum, en það tókst með hjálp barnanna minna. Yngsta barnið mitt var 18 ára elsta 31. þannig að ekki var um nein smábörn að ræða. en heimili mitt á þessum árum var heilt hel. er hann varheima og þetta var ekki mitt heimili. Ég skildi 1993 flutti á Húsavík 1995
þarna á milli átti ég eiginlega ekki heimili sem ég gat kallað mitt, þó mér liði ekki illa. Heimili mitt í dag er fullt af því sem ég trúi á bara með mínum gömlu góðu mublum sem amma og afi áttu + eitthvað nýtt, ég hef allar dætur mínar hér og barnabörnin mín, og er það ómetanlegt, sonur minn og tengdadóttir eru í
Njarðvíkunum með sín þrjú og reynum við að hittast oft.
Ég er alsæl í dag og mun aldrei aftur láta bjóða mér ofbeldi á neinn handa máta.
Það að vera með sínum er allt sem maður þarf.
Kærleik til þín Dísa Dóra Mín.
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.6.2008 kl. 20:49
Heimili manns á að vera griðarstaður en því miður er það ekki alltaf svo. Þú hefur sem betur fer náð að finna þinn griðarstað og vona að þú náir að jafna þig á jarðskjálftanum og heimili þitt verði aftur sá griðarstaður sem það á og hefur verið undanfarið. Fjölskyldan er mikilvægust en það hef ég fengið að finna undanfarin ár. Mér finnst ég skilja hvað þú ert að meina með ofbeldið en ég ákvað að skilja við minn fyrrverandi þegar hann vildi m.a. fá að ráða hverja ég talaði við og hverja ekki um leið og hann var úti á sjó mánuð í senn. Núna er ég í fullkomnu jafnræði við minn mann þar sem stuðningur og hvatning er meginmálið. Knús á þig.
Fjóla Æ., 21.6.2008 kl. 21:09
Drottinn blessi heimilið. Já margt má manninn reyna. Gerum heimilið okkar að okkar.
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 22.6.2008 kl. 22:20
Knus á þig.......... við hittumst bara þegar ég kem suður
Guðný (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 19:27
Ég var að hlusta á cdinn hans Bubba.4 naglar.Lag nr 4 græna húsið er lag sem fær tilfinningarnar í gang.Varð hugsað til allra sem þekkja ofbeldi.Þar á meðal þín.Góðð færsla
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 17:59
Góð færsla og vonandi hjálpar þeim sem eiga við þetta öryggisleysi og ótta að stríða í sínu lífi til að taka af skarið og setja endapunkt. Það á enginn að þurfa líða slíkt en því miður er oft ansi langt í að einstaklingurinn sem er beyttur ofbeldi geti fundið þann sjálfsstyrk til að yfirgefa slíkar aðstæður. Þeir þurfa á öllum þeim stuðningi sem mögulegur er til að auðvelda sér það og sannfærast um að þeir eigi skilið hamingjuríkt og gott líf.
ÉG ER VERÐUG
Sólveig Klara Káradóttir, 28.6.2008 kl. 18:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.