21.4.2008 | 08:37
Að axla ábyrgð
Það er þetta með siðblinduna og það að axla ábyrgð á gjörðum sínum og því ofbeldi sem maður beitir. Hef mikið verið að hugsa um þetta síðustu ár og sérstaklega undanfarið. Hef nefnilega alltaf borið þá von í brjósti að minn fyrrverandi axli loksins ábyrgð á gjörðum sínum og viðurkenni að hann hafi beitt mig ofbeldi og það sem ég hef sagt um okkar samband er ekkert nema sannleikurinn. Hins vegar geri ég mér alltaf betur og betur grein fyrir því að sennilegast er það algjörlega borin von. Í hans huga nefnilega er það svo að hann gerði mér ekkert. Ég er barasta geðsjúkur lygari að vera að halda því fram að hann hafi beitt mig ofbeldi.
Hann nefnilega stendur sem fastast á því að það sé ekki satt. Hann stóð einnig sem fastast á því í okkar sambandi. Hann að vísu viðurkenndi einhverju sinni að hann tuskaði mig til eins og hann orðaði það en í hans huga er það að tuska mann til og að beita ofbeldi alls ekki sami hluturinn. Sérstaklega þar sem að hann taldi nú nauðsynlegt að tuska mig aðeins til þar sem ég hegðaði mér ekki eins og ég átti að gera í sambandinu. Að hann bæri sök eða ábyrgð hvarlaði aldrei að honum.
Afleiðingin var líka að ég tók á mig ábyrgðina af ofbeldinu - þar sem hann var jú duglegur að kenna mér að ábyrgðin á því væri mín. Hann var líka duglegur að fá mig og aðra í umhverfi sínu til að vorkenna sér fyrir ótrúlegustu hluti. Þannig nýtti hann sér umhverfið til hins ýtrasta.
Ég man eftir einu skipti í okkar sambúð sem kannski lýsir mjög vel hversu skekkt mat manns á aðstæðum og ábyrgðinni var. Þetta var 2-3 árum áður en við skildum en ég get ómögulega tímasett atvikið nákvæmlega. Það er nefnilega svo að flestu í sambandinu valdi ég að gleyma til að byrja með (til þess hreinlega að lifa af) og í gegn um árin hef ég svo verið að muna meira og meira eftir því sem ég styrkist sjálf og er þar af leiðandi tilbúnari til að takast á við minningarnar. En ég á samt oft erfitt með að tímasetja atburðina nákvæmlega.
En þessi viðburður var semsagt svona. Herrann hafði farið eitthvað í næsta bæ og hafði ég nú grun um að hann ætlaði eitthvað að teiga á áfengisveigum. Það sat í mér ótti því slíkt var næstum öruggt til að valda sprengingu í hans skapi og var ég jú sú sem fékk að kenna á því. Ég fór hins vegar að sofa og náði örugglega eitthvað að sofna því um miðja nótt vakna ég við að dyrabjöllunni er hringt. Fyrir utan er maður sem ég hef aldrei séð áður og segist hann vera íbúi í þorpinu sem við bjuggum í og að maðurinn minn hafi lent í smá óhappi og sé frekar illa stemmdur. Þurfi sennilega helst að koma honum undir læknishendur.
Í því að hann er að segja mér þetta sé ég minn fyrrverandi koma gangandi eftir götunni alveg arfa vitlausann af reiði á milli þess sem hann grenjar að hann sé að deyja. Hann heldur um aðra höndina á sér og ég sé að eitthvað blæðir þar. Ég man hins vegar að fyrsta hugsunin hjá mér varð sú að upp gaus allt í einu gífurleg reiði og ég hugsaði: Jæja réðist þú loksins á einhvern sem gat tekið á móti þér! Á næsta augnabliki skammaðist ég mín gífurlega fyrir þessa reiði og hugsun og varð reyndar mjög hrædd við að hafa látið mér detta þetta í hug - þakkaði bara mínu sæla fyrir að ég hafði aðeins hugsað þetta en ekki sagt það upphátt því þá hefði ég sennilega verið í lífshættu.
Herrann kom upp að húsinu og brjálaðist þegar hann sá þennan nágranna okkar þarna og ætlaði að hjóla í hann - einhvernvegin tókst okkur þó að koma honum inn og nágranninn fór. Þá hellti herrann sér yfir mig og ég fékk nokkur högg svona til að árétta að ég ætti nú sök á þessu öllu þar sem að ég væri svo ómöguleg í alla staði að hann neyddist bara til að fara á barinn og drekka smá. Nágranninn hafði greinilega heyrt lætin og hringdi aftur á dyrabjölluna til að athuga hvort hann gæti eitthvað aðstoðað. En hann var fljótur að sjá að sennilegast væri nú betra þrátt fyrir allt að halda sig fjarri þar sem að herran bókstaflega trylltist þegar hann sá nágrannan aftur. Hann hótaði öllu illu og ætlaði að skjóta mann og annan. Hann hótaði þessu reyndar af og til það sem eftir lifði af þessari nótt og ég þakkaði mikið fyrir að ekki væri til byssa í fórum okkar því ég er 100% viss á því að þá hefði herran framið eitthvað voðaverk.
Nú tók við mikil barátta að fá herran til læknis og endaði með því að ég þurfti að vekja nágranna okkar til að fá þá til að aðstoða mig við að fá herrann af stað. Það tókst af lokum. Á bráðamóttöku næstu borgar var þónokkuð að gera og þurftum við að bíða í klukkutíma eða svo áður en hann komst að. Ég man hve ofboðslega ég skammaðist mín þennan tíma þar sem að herran sat og jós svívirðingum og skömmum yfir allt og alla og þessa læknadruslur sem ekki gátu þjónustað hans háting alveg strax. Á milli skammana hótaði hann alltaf að verða sér úti um byssu og skjóta allt og alla. Ég þakkaði mikið fyrir það þessa nótt að skammir þessar fóru fram á íslensku svo að svíarnir skildu þær ekki alveg þó að vissulega skildu þeir tóninn og svipbrigðin hjá þessum útúrdrukkna einstakling.
Þegar hann svo loksins komst að voru saumuð nokkur spor til að koma saman nokkuð djúpum skurði. Læknirinn tók mig svo á eintal og spurði hvað hefði gerst þar sem honum virtist sem að um hnífskurð væri að ræða og það yrði þá að tilkynna. Ég man að ég skammaðist mín mikið þegar ég sagðist ekkert vita hvað hefði gerst (sem var sannleikurinn) og ég tók í mínum brenglaða huga á mig ábyrgðina fyrir að vita þetta ekki sem og ábyrgðina á því að hann var yfir höfuð drukkinn og reiður. Já hve brengluð hugsun hjá þolanda getur orðið er ekki auðvelt að skilja - jafnvel ekki fyrir mig sem þó hef upplifað þetta á eigin skinni.
Það var kominn morgun þegar við loksins komum heim og þá tóku við stórþrif hjá mér þar sem íbúðin leit út eins og sláturhús. Herrann skreið þó upp í rúm og átti óskaplega bágt þennan dag og næstu daga - hafði einstakt lag á að nýta nú að hann var slasaður til að láta þjóna sér extra. Ég fann á gólfinu glerbrot sem sennilega hefur orsakað þennan skurð. Sennilegast þykir mér að honum hafi ehv orðið uppsigað við húsráðendur og slegið í gegn um rúðu sem hefur brotnað með þessu afleiðingum. Ég fékk þó aldrei að vita hvað gerðist þar sem að nágrannan sá ég ekki aftur og herrann mundi ekki hvað hafði gerst að eigin sögn. Ég veit ekki hvort hann í raun mundi það ekki eða þótti bara hentugt að muna það ekki.
Hins vegar er þetta dæmi um brenglaða hugsun mína á þessum tíma þar sem að ég tók á mig ábyrgðina á þessu atviku og skammaðist mín lengi á eftir gagnvart nágrannanum - sem olli því að ég var bara glöð að þurfa ekki að sjá aftur - sem og gagnvart nágrannakonu minni sem hafði hjálpað mér að koma honum til læknis. Ég ætlaði varla að þora að horfast í augu við hana aftur vegna skammarinnar og bað hana margsinnis afsökunnar á því að hafa vakið hana og sett hana í þessar aðstæður. Herran hins vegar bað engann afsökunnar (enda sagðist hann ekki muna eftir neinu og þá hafði jú ekkert gerst - og ef ehv hafði gerst þá var það mín sök eins og vanalega).
Vonandi sýnir þetta litla sæmi ykkur hvernig síðblindur einstaklingur getur virkað og sýkt umhverfi sitt sem og hvernig þolandi hans brenglast í hugsun og jafnvel tekur á sig alla ábyrgð þess sem miður fer.
Athugasemdir
Gott að þú ert laus
Hrönn Sigurðardóttir, 21.4.2008 kl. 09:20
Tek heilshugar undir orð Hrannar. Gott að þú ert laus!
Knús á þig og þína í amstur dagsins
Fjóla Æ., 21.4.2008 kl. 09:33
Segi það sama,gott að þú ert laus
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 09:36
Til hamingju með að gera þér grein fyrir þessu í dag.
Maður gerir það nefnilega ekki þegar maður býr við svona aðstæður.
Lovísa , 21.4.2008 kl. 11:20
Mér finnst ekki hægt að kalla þennan mann "Herra", "skrímslið" virðist passa betur, gott að þú ert ekki lengur í þessum hlekkjum og flott hjá þér að skrifa þig út úr þessu. Sjáumst fljótlega mín kæra.
Ásdís Sigurðardóttir, 21.4.2008 kl. 13:31
Knús á þig elsku besta frænka.... man ég eftir Herranum og man eftir því þegar þið bjugguð í svíþjóð en ég vissi ekki meir fyrr en mamma sagði mér að þið væruð skilin og ég er eins og hinar sem hafa skrifað fegin að þú ert laus.
Knús til ykkar frá mér......
Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 21.4.2008 kl. 13:36
Það er með ólíkindum hvað við göngum í gegn um til að sjá ljósið eina. Ég fagna því af hreinu hjarta að þú sért laus.
Mikið á viðkomand aumt í hjarta þótt honum finnist hann í lagi. Þú ert yndisleg og ert að gera rétt með því að vekja athygli á þinni upplifun.
Ofbeldi er ógeðslegt, hvort sem það er andlegt eða líkamlegt.
www.zordis.com, 21.4.2008 kl. 18:12
Segi það sama,gott að þú ert laus
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 21.4.2008 kl. 20:52
Mér finnst eins og hin hér mjög mjöög gottt að þú skulir vera laus úr þessu sambandi og að þú skulir vera yndislega ÞÚ.
Knús á þig ástin
Solla Guðjóns, 21.4.2008 kl. 22:57
Sunna Dóra Möller, 22.4.2008 kl. 12:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.