. - Hausmynd

.

Yndislegir bloggvinir

Ég verð að viðurkenna að ég þrjóskaðist lengi við að stofna moggablogg og hafði því lengi vel ýmislegt til foráttu.  Sagði meðal annars að mér virtist þetta vera lítið annað en samfélag fólks sem kepptist um að vera sem háfleygast um menn og málefni og safna að sér sem lengstum bloggvinalista og þannig væri það í einskonar vinasamkeppni.  Ákvað þó að ekki gæti ég haft slíka fordóma gagnvart einhverju kerfi og hópi án þess að hafa prófað og skráði mig því fyrr í vetur í þetta samfélag.

Verð að viðurkenna að ég hafði að miklu leiti rangt fyrir mér.  Vissulega finnst hér inni fólk sem virðist helst vera í vinasamkeppni en flestir hér inni eru yndislegt fólk sem virkilega les blogg bloggvinanna og hér hef ég einnig séð að myndast oft góður og innilegur vinskapur.  Ég hef fræðst mikið um ýmis málefni með því að lesa bloggin hérna og eignast góða vini sem ég hef ekki einu sinni séð í raunheimunum.  Já stundum er undarlegt að finna slíkan vinskap og hlýhug frá persónum sem maður hefur aldrei hitt en yndislegt er það og í framtíðinni mun ég vonandi hitta sem flesta og hlakka til Smile

Hér hef ég einnig fundið ættingja, gamla kunningja og vini ásamt nýjum vinum.  Hópur einstaklinga sem mér finnst mjög gaman að lesa skrifin frá.  Bloggvinalistinn minn lengist og lengist en ekki er það vegna einhverrar samkeppni heldur áhuga míns til að fræðast um menn og málefni sem gerir að stundum bið ég um að gerast bloggvinur einhvers svo ég geti betur fylgst með skrifum viðkomandi. Einnig hafa margir beðið um að gerast minn bloggvinur og er það nú yfirleitt auðsótt mál og þannig hef ég einnig kynnst enn fleirum áhugaverðum persónum.  Sum bloggin heimsæki ég daglega og hlakka alltaf til að lesa eitthvað nýtt frá viðkomandi því hann eða hún hefur einstakan hæfileika til að hrífa mig (og aðra) með skrifum sínum.  Ég verð samt að viðurkenna að ég er ekki rosalega dugleg að kvitta og skil ekki nærri alltaf eftir mig spor í kommentakerfi viðkomandi Blush  Önnur blogg fer ég sjaldnar inn á en reyndi þó alltaf að fara yfir allan bloggvinalistann 2-3 sinnum í viku.  Ekki er það að ég fer sjaldnar inn á blogg sumra vegna þess að þeir séu eitthvað minna virði í mínum huga heldur er nú tímaleysið sem sér til þess.  Listinn orðinn svo langur að það tekur tíma að fara í gegn um hann allan.  Ekki tími ég þó að eyða út af honum þar sem mér finnst einstaklega gaman að lesa allt það sem bloggvinir mínir skrifa hér.

Þessi lestur vekur oft hlátur í huga mér og stundum sit ég hér við tölvuna og hreinlega græt af hlátri.  Stundum eru það líka sorgartár sem renna niður.  Oft læri ég eitthvað nýtt við lesturinn og fræðist um nýja hluti og ávalt finnst mér lesturinn gagnlegur fyrir fróðleiksfúsa kerlu Wink

Ég hef þó eitt sinn fljótlega eftir að ég fór að blogga hérna setið og roðnað við lesturinn en það var þegar ég las að góður bloggvinur hann Gunnar hefði valið mig sem bloggvin októbermánaðar.  Það kom mér mjög á óvart þar sem í þessu samfélagi finnast svo frábærlega góðir pennar.  Ég var og er hins vegar mjög stolt yfir þessum titli.  Enn meira roðnaði ég þó áðan þegar ég las á blogginu hans að ég hefði verið valin áhugaverðasti bloggvinur ársins.  Ég hreinlega veit ekki alveg hvernig ég á að þakka þennan heiður.  Vil samt þakka þér kæri vinur fyrir þennan heiður og auðvitað þakka ég líka þeim sem kusu mig.  Takk þið yndislegu bloggarar.  Ég vona að ég standi nú undir merkjum og haldi áfram að fjalla um málefni sem vekja áhuga ykkar.

Það er mér reyndar mjög mikils virði að frásagnir mínar af minni reynslu skuli ná til ykkar.  Von mín hefur ávalt verið sú að reynsla mín verði til að almenningur læri eitthvað af henni og augu ykkar opnist fyrir því sem svo oft gerist í ofbeldissambandi og hví svo erfitt getur verið fyrir þann sem því er beittur að slíta sambandinu.  Einnig vona ég að almenningur læri að þekkja einkenni ofbeldis og þannig verði erfiðara fyrir ofbeldismenn að stunda iðju sína á bak við luktar dyr og í þögninni.  Það veldur einungis því að ofbeldið þrífst enn frekar.  Ofbeldi nefnilega á ekki að þegja í hel heldur er mun vænlegra að tala það í hel.  

Því mun ég halda áfram að fjalla um ýmsar hliðar þessa málefnis og þannig stuðla að því að æ fleiri fræðist um þessi mál og þannig geti hjálpað til við að uppræta ofbeldi.  Já ég á mér draum eins og King sagði eitt sinn.  Draum um samfélag laust við ofbeldi.  Vissulega segja margir að slíkt sé óraunhæfur draumur en ég held samt sem áður fast við þann draum.  Því framfarin og þróun byrja einmitt með draumum Smile

Kæru bloggvinir og aðrir.  Það er því ósk mín að þið hjálpið mér að stuðla að bestu forvörninni sem er að tala opinskátt um þessi málefni af heiðarleika. 

  • Þannig læra fleiri og fleiri að þekkja einkennin og vonandi sjá þau það fljótt að viðkomandi festist ekki í vítahring ofbeldis. 
  • Þannig læra fleiri og fleiri að þekkja einkenni ofbeldissambands og geta stutt viðkomandi til að byggja sig upp og þannig betur í stakk búin að raunverulega velja hvort hann/hún vilji halda áfram að vera í sambandinu eða fara í burtu. 
  • Þannig hafa þeir sem eru fastir í vítahring ofbeldis fleiri möguleika á að sjá að það finnst hjálp og að slíkt samband er ekki eðlilegt.
  • Þannig komum við best í veg fyrir þá fordóma sem hafa verið og eru því miður enn að einhverju leiti í samfélaginu gagnvart þolendum ofbeldis.
  • Þannig komum við ábyrgð ofbeldisins þangað sem hún á heima - hjá ofbeldismanninum/konunni en ekki þolandanum.
  • Þannig fræðum við komandi kynslóð um ofbeldi og einkenni þess og komum í veg fyrir að svo margir festist í þeim vítahring.

Takk fyrir mig og takk fyrir heiðurinn.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sporðdrekinn

Draumur þinn er draumur minn, ofbeldið út kærleikann inn.

Sporðdrekinn, 13.1.2008 kl. 17:15

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

 Góður draumur

Hrönn Sigurðardóttir, 13.1.2008 kl. 17:32

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gaman að vera orðin bloggvinur þinn, hlakka til að ferðast með þér í gegnum tölvuheima.  Hafðu það gott mín kæra.

Ásdís Sigurðardóttir, 13.1.2008 kl. 18:49

4 identicon

Takk fyrir að taka við bloggvina bón frá mér.

Bryndís R (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 19:38

5 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Þetta er góður draumur og margir til að taka undir hann! Ég kíki oft hingað inn hjá þér, kvitta ekki alltaf en fylgist reglulega með, takk fyrir mig !

Sunna Dóra Möller, 13.1.2008 kl. 19:46

6 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þú átt þetta svo sannarlega skilið
Góður málstaður og góðar færslur.
Ég er mjög ánægður yfir því að þú
varst valin

Gunnar Helgi Eysteinsson, 13.1.2008 kl. 19:46

7 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

þú átt þa svo sannarlega skilið og ekkert roðna yfir því ! ég get skrifað undir allt sem þú skrifar um bloggvini og bloggvinatengsl. ég hef búið í öðru landi í 14 ár, og fyrir mig er þetta eins og aftur að verða hluti af þjóðinni, á miklu breiðari hátt en ég var áður, þetta er fyrir mig íslenski púlsinn

hafði gott kvöld

Bless

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 13.1.2008 kl. 22:01

8 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

þetta kalla ég telepatí, ég var að lesa þína færslu, þegar þú varst að lesa mína !!

kvitt, kvitt og góða nótt fallega kona

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 13.1.2008 kl. 22:03

9 Smámynd: www.zordis.com

 Yndislegur draumur sem hefur fullkominn tilverurétt.  Í sameiningu getum við bætt heiminn með því að byrja taka þátt.  Til hamingju!  Ég hef ómælda trú á Kærleikanum og þeim rétti sem við höfum öll til að öðlast hamingjuna. 

Kær kveðja inn í nóttina til þín

www.zordis.com, 13.1.2008 kl. 23:26

10 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Knús til þín frænka mín

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 14.1.2008 kl. 08:14

11 Smámynd: Ragnheiður

Ragnheiður , 14.1.2008 kl. 08:26

12 Smámynd: SigrúnSveitó

Svo sammála þér.  Ég les ekki alltaf hjá öllum bloggvinum, tíminn leyfir það ekki, en ég tek reglulegan rúnt samt sem áður.  Vildi ekki vera án þess.  Margt yndislegt fólk sem hefur orðið á vegi mínum hér í netheimum og er líf mitt sannarlega ríkara þar af.

Mér hefur þótt gott að mína reynslu af ýmsu ofbeldi, hef ég getað nýtt mér til að hjálpa öðrum sem eru í sömu sporum og ég eitt sinn var.  Gott að lesa þína reynslu og hef ég getað samhæft með ýmsu sem þú hefur haft fram að færa.

Kærleikskveðja af Skaganum,

S. 

SigrúnSveitó, 14.1.2008 kl. 13:49

13 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þú átt það svo skilið.

Kristín Katla Árnadóttir, 14.1.2008 kl. 18:12

14 Smámynd: Dísa Dóra

Takk fyrir fallegar kveðjur

Gott að sjá að fleiri eru tilbúnir að taka þátt í draumnum með mér

Dísa Dóra, 15.1.2008 kl. 11:14

15 Smámynd: Þórdís Guðmundsdóttir

Til hamingju með titilinn, þú ert vel að honum komin.  Og mér finnst styrkur.net frábær síða.

Kveðja,

Þórdís

Þórdís Guðmundsdóttir, 15.1.2008 kl. 11:40

16 identicon

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband