8.1.2008 | 15:25
Ofurhetjur leikskólanna
Ég var að lesa fréttablaðið og þar á forsíðu er fjallað um að enn sé ástandið á leikskólum þannig að börn séu send heim vegna manneklu. Varð hugsað til greinar sem ég skrifaði og var byrt í morgunblaðinu árið 1999 þegar ég starfaði sem leikskólakennari. Fann greinina og sá að því miður á hún jafn vel við í dag og þá. Þá hélt ég mig vera að fjalla um tímabundið ástand en því miður virðist það ástand vera orðið nokkuð varanlegt.
Hér kemur greinin.
Ofurhetjur leikskólanna
Er ekki tími til kominn að gera ráðstafanir til að hækka laun starfsfólks leikskóla, spyr Hjördís H. Guðlaugsdóttir, svo að þar geti skapast ró.
Eru ofurhetjurnar börnin á leikskólunum? Þau eiga svo sannarlega skilið þennan heiðurstitil. Þau þurfa að þola sífelldar mannabreytingar - undirmönnun og tímaleysi. Það er langt í frá auðvelt fyrir tveggja ára barn að þurfa að læra að treysta fullorðna fólkinu þegar það neyðist til að vera sífellt að kynnast nýju og nýju starfsfólki. Jafnvel nokkrum nýjum í hverjum mánuði. Svo loksins þegar barnið er farið að þekkja nafn viðkomandi starfsmanns hverfur hann úr lífi þess fyrirvaralaust og hefur jafnvel ekki fyrir því að kveðja. Það er heldur ekki auðvelt þegar að enginn hefur tíma til að sinna barninu eins og skyldi vegna þess að starfsfólkið hefur (því miður) aðeins tvær hendur og er með fangið fullt af öðrum börnum sem einnig þurfa huggun og athygli. Hvernig á barnið að mynda sér rétt lífsviðhorf, þegar fullorðna fólkið sem það umgengst er stressað, útbrunnið og þreytt.
En kannski eru ofurhetjurnar starfsfólk leikskólanna? Það eru langt í frá góð vinnuskilyrði þegar, eins og því miður er allt of oft staðreyndin, aðeins einn af fastastarfsmönnum deildarinnar er við vinnu. Ef heppnin er með hafa komið 1-2 af öðrum deildum til hjálpar og þar af leiðir að fleiri deildir eru undirmannaðar. Kröfurnar eru samt sem áður þær sömu og áður. Þú átt að ausa af visku þinni, gleði og mannauði jafnt sem áður. Sjá til að daglegt starf deildarinnar gangi sinn vanagang þrátt fyrir undirmönnun og starfsfólk til hjálpar sem ekki er vant reglum og venjum deildarinnar og bætist því við að leiðbeina þeim. Það er nauðsynlegt að leggja inn auka skammt af þolinmæði og það stóran, því að börnin eru óörugg og ör þar sem að nýtt og ókunnugt fólk hefur enn eina ferðina tekið að sér að sinna þörfum þeirra. Samt sem áður má ekki gleyma að geisla af gleði og lífsorku því þannig vilja foreldrar auðvitað að þeir sem sjá um það dýrmætasta sem þeir eiga komi fram.
Kannski væri þetta allt gerlegt ef vitað væri um að í mesta lagi 1-2 vikur væri að ræða. En þegar ástandið varir í vikur og mánuði og ekki er hægt að sjá fyrir um hvenær ástandið batnar er það aðeins ofurhetjum gerlegt og jafnvel þær eiga líka sína slöku daga. Og ekki er einu sinni hægt að slaka á um helgar, því þá hefur starfsfólkið áhyggjur af því hvort allir mæti til vinnu eftir helgina eða kannski hafi einhver ákveðið að nú væri nóg komið og farið annað í betur launaða og auðveldari vinnu. Og staðreyndin er sú að þetta gerist allt of oft og hafa margir ekki einu sinni fyrir því að hringja og láta vita að þeir komi ekki aftur.
Eins og sjá má er listinn yfir þá sem að kallast geta ofurhetjur leikskólanna langur og hægt væri að bæta við hann. Er ekki tími til kominn að gera ráðstafanir til að hækka laun starfsfólks leikskóla svo þar geti skapast ró - vinnugleði og öryggi og það á stað þar sem svo mikilvægur þáttur í lífi barna okkar fer fram. Það eru nú einu sinni þau sem eru framtíðin og okkar að sjá til þess að hún byggist á traustum grunni.
Höfundur er leikskólakennari á Bakkaborg.
Athugasemdir
Kröfur um að hækka laun starfsfólks leikskóla og kennara almennt hef ég heyrt frá því ég man eftir mér... Flott grein.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 8.1.2008 kl. 15:37
Hugsa sér að þetta er nákvæmlega sama staðan í dag! Fannst á tímabili að það væri verið að lýsa mér í vinnunni
Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 17:12
Mikið er ég sammála þessari grein og því miður virðist ekki lausn á vandanum vera í sjónmáli. En man hve oft var erfitt að vera með 26 börn og einungis 2 eða 3 kennara og samt að reyna að halda uppi eðlilegu starfi. Mér fannst dálítið áberandi hversu börnin virtust meiða sig meira á þeim dögum en þegar deildin var fullmönnuð og held að það gæti verið fróðlegt að skoða það betur. Mannabreytingar hafa sjaldan verið til góða í tengslamyndun og fann ég það mikið en var samt það lánssöm að það varð ekki mikið um breytingar á minni deild er líða fór á.
Ég hef verið svo heppin að mörg af "mínum" börnum eru enn í sambandi við mig þrátt fyrir að ég hafi ekki kennt síðan haustið 2004.
Fjóla Æ., 9.1.2008 kl. 00:24
Frábær grein Dísa...ég er nú svo heppin já ég segi heppin því mín börn hafa öll verið heppin með leikskóla og ekki verið miklar manna breitingar hjá þeim og man ég að 2 fóstrur voru með Sverrir frá 18 mánaða til 6 ára eða til loka leikskóla og var það vegna þess að þær flttu á milli deilda þegar hann fór á eldri deild...
Ég er sammála þessu með laun leikskóla kennara og kennara þetta eru skammaleg laun fyrir jafn mikilvæg verk.
Kveðja Heiður.
Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 9.1.2008 kl. 19:58
Góð grein. Þetta er bara status quo, engin framför. Fólk í kennslu og umönnunarstörfum er aldrei metið að verðleikum. Milljarður inn í skólamálin mundu gera mikið gagn, í stað þess á að eyða því í kofaskribli, þvílík manngæska.
Ásdís Sigurðardóttir, 9.1.2008 kl. 21:30
þetta er sama vandamál hérna í dk. öll störf sem hafa með umönnun að gera eru vandmetin.
AlheimsLjós til þín
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 10.1.2008 kl. 14:25
Ótrúlegt að þetta skuli enn vera í nákvæmlega sama farinu.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 10.1.2008 kl. 16:39
Góð færsla.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 20:07
Góð grein, merkilegt að engin framför hefur orðið.
Skyldi það vera sökum "kvennastarfsgreiningar"? Er einhvern veginn viss að launin væru hærri ef fleiri karlmenn væru í greininni
Guðný (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 10:27
Góður pistill hjá þér! Og til hamingju með sigurinn á blogginu hjá honum Gunnari, þú ert sko vel að honum komin
Huld S. Ringsted, 12.1.2008 kl. 16:35
Fræðandi og áhugavert blogg.
Kveðja
Jac G. Norðquist
Jac Norðquist, 13.1.2008 kl. 02:17
kvitt-búin að lesa
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 13.1.2008 kl. 14:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.