. - Hausmynd

.

Nýtt ár ný tækifæri

Já það er ekki alveg laust við að ég líti jákvæðum augum á komandi ár og áramóta heit mitt í ár er að hafa þetta frábært ár og síðustu áramótaheit mín hafa verið að gera árið enn betra en síðasta ár.  Ég ætla mér að halda þessu áramótaheiti þrátt fyrir að ég viti að það verður MJÖG erfitt að toppa síðasta ár.  Árið 2007 reyndist mér nefnilega eitt besta og gjöfulasta ár lífs míns hvorki meira né minna Smile

En þrátt fyrir það ætla ég að halda áfram að sigrast á þeim viðfangsefnum sem lífið réttir mér og ÞAÐ er einmitt það sem gerir að árin verða góð.  Ég las leiðsögn okkar Búddista (já ég er Búddisti) fyrir nýársdaginn og ákvað að sú leiðsögn muni fylgja mér þetta árið.  Leiðsögnin hljómar svona: "Þeir sem vakna hvern morgun og hafa verk að vinna og áætlunarverk að uppfylla eru hamingjusamastir allra.  Fyrir okkur er hver dagur, dagur æðsta tilgangs og fullnægju.  Fyrir okkur er hver dagur nýársdagur. Vinsanlegast leggið ykkur fram til hins ýtrasta með þeim ásetning að lifa hvern dag til fulls, svo þið megið skrifa dagbók lífsins til fulls."   Já ég ætla mér að skrifa dagbók lífsins til fulls og mun því nýta hvern einasta dag til fulls.

Síðasta ár hófst nú eins og ég sagði við mann minn um þessi áramót með ögn þyngri og ögn pirraðri frú en þetta árið.  Síðustu áramót var ég ófrísk af frumburðinum og áramótin gengu í garð með mjög svo bröltandi barn í bumbu og þreytta móður sem þurfti jú að fara á klósettið ca 100 sinnum á nóttu eins og lög gera ráð fyrir og því lítill svefn Wink Áramótin gengu því í garð með þá ósk frá mér að barnið færi nú að láta sjá sig sem fyrst en ekki 22. janúar eins og sónar sagði.  Hahaha já ég var full bjartsýni.  Stuttu eftir áramótin var mér svo bannað að halda áfram að vinna og sagt að ég yrði nú að passa að hvíla mig og hvíla mig og hvíla mig meira ef ég ætlaði að sleppa við innlögn.  Ekki skánaði skap frúarinnar við það, þar sem hangs er ekki mín sterka hlið og frúin vill hafa eitthvað að dunda sér við (eða dundur verður stundum meira en bara dundur).  En allt var nú samt gert til að erfinginn yrði örugglega frískur og frúin lét sig því hafa þetta og meira að segja tók því þegjandi og hljóðalaust að ná ekki að mæta í fyrstu lotu misserisins í skólanum.  Sat bara heima og reyndi að lesa og finna heimildir fyrir BA ritgerðina mína sem þó tókst ekki eins og vonir stóðu til þar sem heilastarfsemi frúarinnar snérist ekki um bækur.  Var því í samráði við yndislegan leiðsögukennara minn ákveðið að ég frestaði útskrift til haustsins.  

Janúar fór svo í gjörgæslu ljósmæðra á mér og erfingja og stundum fórum við allt að 3 heimsóknir á dag í tékk.  Mér leið þó vel og skildi ekkert í þessu stressi en sennilega er ekki oft sem að ljósmæðurnar standa frammi fyrir því að vera með 44 ára frumbyrju í höndunum og þótti þeim því vissara að fylgjast vel með LoL  Heldur fór þó biðin að lengjast seinnipart mánaðarins en samt neitaði frúin að trúa gömlum draumi (sem mig dreymdi fyrir ca 15 árum síðan) og hafði verið ráðin þannig að barnið kæmi í heiminn þann 5. febrúar 2007.  

Febrúar gekk í garð og enn sat erfinginn sem fastast í bumbunni móðurinni til lítillar gleði og sérstaklega þar sem fyrsta leikfangið var VEL notað sem trambolín (þvagblaðran).  5. febrúar var þó ákveðið að þessum legjanda yrði sagt upp og kastað út.  Seinnipart 5. feb fussaði þó frúin og sagði drauminn rugl þar sem hún fann varla fyrir verkjum þrátt fyrir gangsetningu.  Erfinginn sat samt sem fastast.  Litlu seinna kom svo í ljós að erfinginn í orðsins fyllstu merkingu SAT sem fastast (skorðuð sitjandi) og því var ákveðið að skella mér í keisara.  Kl. 18.08 þann dag hágrét ég svo af gleði í takt við litla stúlku sem kannski hefur samt ekki grátið af gleði Grin  Draumurinn gamli rættist því og næstu dagar og vikur fóru í sæluvímu foreldranna sem þurfti að binda niður með sterkri taug svo þau svifu ekki í burtu á sínu bleika skýi.

Vorið leið og tíminn fór í að hugsa um litla skottið og njóta þess í botn ásamt því að klára síðasta fagið í náminu mínu.  

Sumarið fór svo að mestu í að skrifa BA ritgerðina (sem ég þó var þá þegar búin að leggja mikla vinnu í).  Ritgerðin fólkst í rannsókn sem ég gerði á áhrifum ofbeldis á heilsu þolanda.  Inngang ritgerðarinnar má sjá HÉR.   

Í lok ágúst tók ég mér svo pásu frá ritgerðinni sem þá var nær fullkláruð og við skelltum okkur í smá frí hjónin ásamt litla skottinu.  Yndislegur tími og þarfur sem að mestu var eytt í faðmi góðra vina á erlendri grundu. 

Í september var ritgerðin svo kláruð og henni skilað og má með sanni segja að frúin var eins og sprungin blaðra eftir það af spennufalli.  

Í október stóð upp úr að ég loksins útskrifaðist sem tómstunda og félagsmálafræðingur frá KHÍ.  

Nóvember og desember hafa svo farið í að njóta þess að eyða tímanum með litla skottinu sem svo sannarlega veitir mömmunni næg verkefni og mikla gleði.  Enda ekki annað hægt en að vera ávalt glaður í návist lítillar skottu sem er alltaf brosandi og hlæjandi.  Hér er hver dagur nýttur í sigra og núna einbeitir frúin sér að því að aðstoða litla skottið við sína sigra.  Sigrarnir eru margir og felast þessa dagana í að læra að tala, ganga, heilla umheiminn enn frekar og slíkum nauðsynjum  Wink

Þetta árið ætla ég að halda áfram að njóta með dóttur og eiginmanni ásamt því að sigrast á því sem lífið réttir mér í dagsins önn.  Einnig er ætlunin að kynna nánar niðurstöður rannsóknarinnar sem ég gerði og fleiri stór verkefni bíða handan hornsins.  Hver veit hvað maður tekur sér fyrir hendur en eitt er vísst að ég ætla mér að halda áfram að hafa lífið yndislegt.  Það er mitt val og vona ég að slíkt val sé á færi sem flestra.

Til að auðvelda ykkur að ákveða að þessi dagur allavega verði góður ákvað ég að lofa ykkur að njóta yndislega brosins sem ég fæ að sjá oft á dag

mynd_kK0gg5

 Einnig vil ég þakka ykkur fyrir góðar móttökur hér á moggablogginu og óska ykkur margra sigra á árinu Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 2.1.2008 kl. 13:11

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

 
Ég las inngang ritgerðarinnar og vill lesa meira... frábært!
Hún "skotta" er þvílík dúlla

Gunnar Helgi Eysteinsson, 2.1.2008 kl. 15:08

3 Smámynd: Halla Rut

Yndisleg mynd.

Gott að eiga góðar stundir...Gleðilegt nýtt ár

Halla Rut , 2.1.2008 kl. 15:23

4 identicon

Gleðilegt nýtt ár. Falleg dóttir sem þú átt. 5 febrúar er góður dagur. Ég fæddi strák 5 febrúar 1982. 

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 16:28

5 identicon

hæ sæta og gleðilegt ár

takk fyrir kveðjuna, ég er ægilega hamingjusöm að vera orðin amma og hlakka til að takast á við þá ábyrgð. 

Lára (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 17:31

6 Smámynd: Kristín Snorradóttir

Gleðilegt ár, yndisleg mynd  falleg hnáta.

Kristín Snorradóttir, 3.1.2008 kl. 01:50

7 Smámynd: Þórdís Guðmundsdóttir

Óska þér og þínum gleðilegs og gjöfuls árs!  Og til hamingju með þessa fallegu stúlku.  Þetta er afar góð leiðsögn sem þú hefur þarna fyrir árið.  Mér hefur alltaf þótt Búdda og hans speki áhugaverð þótt ég hafi ekki lagt mig alla leið að skoða þá hluti.  Það er kannski verkefni nýs árs?

Kveðja, Þórdís

Þórdís Guðmundsdóttir, 5.1.2008 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband