13.10.2007 | 09:16
Þekkir þú einhvern sem upplifir ofbeldi í sínu sambandi??
Já þetta er stór spurning og sennilega svara henni flestir neitandi án þess að hugsa sig um. Ég fór eitt sinn á ráðstefnu fyrir starfsfólk leikskóla og grunnskóla í borg einni í Svíþjóð sem fjallaði um kynferðisofbeldi. Í upphafi ráðstefnudagsins spurði aðalfyrirlesarinn hvort við þekktum einhvern sem hefði upplifað kynferðisofbeldi. Bað þá sem slíkt gerðu að rétta upp hönd.
Einungis örfáar hendur fóru á loft. Fyrirlesarinn sagðist þora að koma með og standa við þá fullyrðingu að hver einasta persóna í salnum og þar af leiðandi samfélagin öllu þekkti að minnsta kosti eina persónu sem hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi því að því miður væri það svo algengt, við bara vissum ekki um þessa upplifun viðkomandi persónu nema í undantekningartilfellum (umræðan hefur að vísu opnast síðan þetta var og því eru fleiri sem þora að segja frá). Ég man alltaf hve mikið mér brá við þessa staðhæfingu og einnig man ég eftir þeim andköfum sem maður heyrði því það voru fleiri en ég í áfalli yfir þvílíkri staðhæfingu.
En þegar leið á þennan dag fór maður að gera sér grein fyrir að þessi staðhæfing gæti mögulega verið sönn. Síðan þetta gerðist hef ég fyllilega gert mér grein fyrir að þetta er mjög svo sönn staðhæfing. Við þekkjum öll einhvern sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi einhverntíman á ævi sinni og mörg okkar þekkja fleiri en einn.
Ég hef mikið hugsað um þessa staðhæfingu fyrirlesarans og vil sjálf meina að við þekkjum einnig öll einhvern sem hefur upplifað heimilisofbeldi - svo algengt er það. Ég ætla mér jafnvel að gerast enn kræfari og halda því fram að öll þekkjum við einhvern sem býr við heimilisofbeldi.
Já þið kunnið að grípa andann á lofti við þessa staðhæfingu mína en því miður held ég bara að hún sé mjög sönn. Það er bara enn þann dag í dag þannig að þeir sem við þessa vá búa leyna ástandinu mjög og þolandinn tekur á sig sökina og skömmina og leynir ástandinu enn frekar þess vegna. Einnig kemur óttinn við gerandann yfirleitt í veg fyrir að sá sem er beittur ofbeldinu þori að segja frá - það er ef hann/hún gerir sér yfir höfuð grein fyrir ástandinu.
Rannsóknir hafa sýnt að 4-25% kvenna hafi búið við eða búi við heimilisofbeldi. Ég persónulega hallast að því að hærri talan sé réttari. Ein rannsókn frá Svíþjóð hefur jafnvel komið með tölur sem segja að allt að 50% kvenna hafi upplifað eða upplifi heimilisofbeldi.
Já því miður er slíkt ofbeldi allt of algengt í okkar samfélagi. Er því ekki tími til kominn að við förum að horfast í augu við vandann svo hægt sé að takast betur á við hann? Og þá er ég að meina að ALLIR horfist í augu við hann - ekki bara fagfólkið.
Athugasemdir
Spurningin er: Hvernig?
Gunnar Helgi Eysteinsson, 13.10.2007 kl. 14:14
Hvernig?? Ertu að meina hvernig er hægt að horfast í augu við vandann? Eða ertu að meina hvernig er hægt að takast á við hann?
Tja þessum spurningum er kannski ekki neitt eitt svar til við. En ég vildi sjá almenna opna umræðu og viðurkenningu á þessum málum hérlendis sem og úti um allan heim. Vildi sjá að almenningur virkilega viðurkenni að ofbeldi þrýfst í okkar samfélagi í stað þess að enn heyrast of oft raddir sem slíkar að viðkomandi hljóti að vera að fara með rangt mál ef hann/hún rýfur þagnarmúrinn og segir sögu ofbeldis.
Ég vildi sjá almenning sem þekkir einkenni ofbeldis það vel að betri möguleiki sé á að grípa framm í ef einhver er á leið inn í ofbeldissamband eða ef barn er beitt ofbeldi á einhvern máta. Í dag er staðan því miður sú að fólk þekkir svo lítið til þessara mála að það fyrst og fremst sér ekki slík einkenni og ef það sér þau þá þorir það ekki að grípa inn í af ótta við að það hafi rangt fyrir sér. Sá ótti ætti ekki að vera til staðar með góðri þekkingu.
Hvernig aukum við þekkingu almennings? Jú með því að tala um vandann - aftur og aftur. Með því að segja frá einkennunum, úrræðunum, hvert hægt sé að leita og svo mætti lengi telja
Dísa Dóra, 13.10.2007 kl. 16:11
Svo er líka spurning hvort ekki er ástæða til að taka almennilega ofbeldisfræðslu í skólunum, alveg niður í grunnskólana...en væntanlega þurfum við að byrja í Kennaraháskólanum
Thelma Ásdísardóttir, 13.10.2007 kl. 17:49
Jú mikið rétt Thelma það vantar fræðslu um þetta í skólum landsins svo framtíðarfólkið okkar þekki einkennin og hvernig á að bregðast við. En eins og þú talar um þarf fyrst að fræða kennarana svo þeir geti fært visku sína áfram. Enda er það von mín að fræðsla um ofbeldi verði sett á námsskrá KHÍ og allra háskóla reyndar og það innan skamms. Krossum putta fyrir því
Dísa Dóra, 13.10.2007 kl. 21:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.