. - Hausmynd

.

Áhrif ofbeldis á heilsu - niðurstöður eldri rannsókna

Ég ætla að setja hér inn nokkrar af þeim staðreyndum sem ég fann um áhrif ofbeldis á heilsu þess sem það upplifir (þolandans).  Sum þessara áhrifa gera einhverjir sér grein fyrir en önnur þeirra hafið þið sennilega aldrei ímyndað ykkur að gæti verið svona sterk fylgni þarna á milli. 

 

Rannsóknir hafa sýnt að 20 – 70% þeirra sem eru eða hafa verið þolendur ofbeldis, hafa ekki sagt frá því fyrr en löngu seinna og jafnvel ekki nema við svörun spurningarkannana og í ýmsum rannsóknum (Krug o.fl., 2002). Því er ljóst að erfitt er að segja nákvæmlega til um þann fjölda einstaklinga sem er og hefur verið beittur ofbeldi.

Helstu afleiðingar heimilisofbeldis (heimilisofbeldi felur í sér líkamlegt-, andlegt- og kynferðislegt ofbeldi) á heilsuna eru að líkamsástandi viðkomandi hrakar og þá er hætt við alls kyns líkamlegum sjúkdómum og kvillum sem og að þolandinn brotni andlega niður og fari út í allskonar sjálfsskaðandi atferli, sem beinist inn á við eða út á við, svo sem ofát og reiði.

Konur sem búa við heimilisofbeldi sækja meira til lækna, vegna minniháttar vandamála og veikinda, en þær sem ekki búa við ofbeldi og einnig leita þær meira til lækna vegna barna sinna en þær sem ekki búa við ofbeldi. Þær sækja einnig frekar, en aðrar konur, til lækna vegna vandamála tengdu kynlífi (Drífa Snædal, 2003, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, 2006, Heimer o.fl., 2006).

Því alvarlegra sem ofbeldið er því meiri og erfiðari verða afleiðingar þess, á líkamlega og andlega heilsu þolandans og vara áhrif þess lengi eftir að ofbeldið hefur verið framið, jafnvel svo árum og áratugum skiptir (Krug o.fl., 2002, Kirkengen, 2001).

 Samkvæmt sænskri rannsókn á tengslum ofbeldis (aðallega kynferðisofbeldis) og bak- eða stoðverkja, voru þeir sem viðurkenndu að hafa upplifað líkamlegt ofbeldi helmingi líklegri til að finna fyrir bak- og/eða stoðverkjum en þeir sem ekki höfðu upplifað ofbeldi. Einnig mátti sjá að þeir sem höfðu upplifað líkamlegt ofbeldi voru fjórfalt líklegri til að búa við almennt lélegra heilsuástand en þeir sem ekki höfðu orðið fyrir ofbeldi. Sömuleiðis voru þeir sem höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þrefalt líklegri til að þjást vegna lélegrar heilsu en hinir sem ekki höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi (Linton, 2001).

Líkamleg einkenni þeirra sem hafa upplifað ofbeldi, geta verið mörg og þau sem oftast eru nefnd eru einkenni sem þessi; höfuðverkur, ýmis stoðkerfaeinkenni, svo sem bakverkur, svefntruflanir, síþreyta, vefjagigt, móðurlífsbólgur, magabólgur og magasár, önnur meltingaróþægindi, ýmis átröskun og einnig getur verðið um að ræða tíðar sýkingar í þvag- og/eða kynfærum (Drífa Snædal, 2003, Kirkengen, 2001, Felitti, 2002, Jónína Einarsdóttir o.fl., 2004, Socialstyrelsen, 2003, Krug o.fl., 2002). Einnig eru algengir krónískir verkir, vandamál við þungun, lungnavandamál, húðvandamál og hjarta og blóðþrýstingsvandamál (Hamberg og fl., 1999, Kirkengen, 2001, Sigrún Sigurðardóttir, 2007, Krug o.fl., 2002).

            Andleg einkenni þeirra sem hafa upplifað ofbeldi, geta einnig verið margvísleg og þau sem oftast eru nefnd eru; þunglyndi, kynlífsvandamál, svo sem að geta ekki notið kynlífs, kvíði, áráttuþráhyggjuhegðun, ótti, sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir, spenna, áfengis-, eiturlyfja- og lyfjanotkun, félagsfælni, einangrun og vantraust (Hamberg og fl., 1999, Felitti, 2002, Jónína Einarsdóttir o.fl., 2004, Krug o.fl., 2002, Socialstyrelsen, 2003, Sigrún Sigurðardóttir, 2007).

Meðal annars hefur komið í ljós að nær helmingi fleiri sem greinst hafa með lotuofát (binge eating disorder) hafa upplifað kynferðisofbeldi í æsku (Gustafson og Sarwer, 2004). Offita getur síðan leitt til enn frekari kvilla, svo sem sykursýki 2, of hás kólesterólmagns í blóði og gallblöðru og gallsteinavandamála (ANAD, 2006, National Institute of Diabetes and Digestive and Kidney Diseases, 2004).

Einkenni eins og skömm, sektarkennd, erfiðar endurupplifanir, erfið tengsl við maka og reiði eru einnig mjög algengar hjá þeim sem hafa upplifað kynferðisofbeldi (Ársskýrsla Stígamóta, 2006).

Einnig þekkist að einstaklingar sem hafa upplifað ofbeldi í barnæsku loka sig af eða þróa með sér einhvers konar eigið afdrep með því að loka á ýmsa líkamlega færni, svo sem heyrn – verða þá heyrnarskert eða jafnvel alveg heyrnarlaus. Eins þekkist jafnvel að einstaklingar hafi myndað einhvers konar flogaveikieinkenni, geðklofaeinkenni og geðhvarfasýki til að mynda einskonar afdrep þar sem enginn nær til þeirra (Kirkengen, 2001). Rannsóknir sýna að börn sem hafa upplifað ofbeldi eru líklegri til að verða þolendur ofbeldis eða gerendur sjálf á fullorðinsárum (Buvinic o.fl., 1999).

Þær konur sem hafa upplifað ofbeldi á fullorðinsárum eru allt að því tvöfalt líklegri en þær sem hafa ekki upplifað ofbeldi til þess að misnota eiturlyf og áfengi. Um það bil einn þriðji heimilislausra kvenna í Bandaríkjunum, hafa upplifað ofbeldi af hendi núverandi eða nýlegs maka og nærri helmingur kvenkyns fórnarlamba morða hafði verið myrtur af núverandi eða fyrrverandi maka (Little, 2000).  

Sjálfsvígshugsanir eru mjög algengar hjá þeim sem hafa upplifað ofbeldi eða í allt að helmingi fleiri tilfellum en hjá þeim sem ekki hafa upplifað ofbeldi (Felitti, 2002, Sigrún Sigurðardóttir, 2007, Dube o.fl., 2001, Amnesty International, 2004).

Samkvæmt sænskum tölum hafa 72% þeirra sem reynt hafa sjálfsvíg, upplifað ofbeldi og 64% þeirra sem hugsað hafa um sjálfsvíg (Lundgren og fl., 2001).

Samkvæmt rannsókn frá San Diego í Bandaríkjunum kemur fram að þeir sem hafa upplifað ofbeldi í æsku eru 2-5 sinnum líklegri til að reyna sjálfsvíg en þeir sem ekki hafa upplifað ofbeldi í æsku (Dube o.fl., 2001).

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Takk fyrir þetta!

Athyglisvert þetta með heyrnarskerðinguna/tapið! Ég hef aldrei heyrt um slíkt, hinsvegar hef ég heyrt um geðklofaeinkenni og geðhvarfasýki.

Hrönn Sigurðardóttir, 11.10.2007 kl. 16:24

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Vá!! takk fyrir mjög svo fræðandi pistil. jafnframt er hann sjokkerandi. Margt þarna sem ég hafði ekki hugmynd um. Sláandi. Mér finnst sérstaklega áhugavert að konur sem lifi við ofbeldi leiti frekar til læknis með börnin sín. Ég velti því fyrir mér hvað sé þar á bak við. Ákall um hjálp? Von um að læknirinn taki eftir einhverju og grípi í taumana?

Jóna Á. Gísladóttir, 12.10.2007 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband