. - Hausmynd

.

Að skrifa bréf

Í dag ætla ég að birta bréf eitt sem ég skrifaði til ofbeldismanns míns þegar ég var í hópastarfinu hjá Stígamótum.  Þar er maður hvattur og ráðlagt að skrifa bréf til geranda síns til að ná að segja frá þeim tilfinningum sem eru og hafa verið að bærast innra með okkur gagnvart honum.  Þetta bréf þarf ekki endilega að senda til gerandans heldur er það gert til að hjálpa okkur sjálfum í bataferlinu.  Það er nefnilega ótrúlega heilandi að skrifa svona bréf og fá loksins að viðurkenna tilfinningar gagnvart gerandanum sem maður jafnvel hefur aldrei þorað að gera annað en að hugsa um í gegn um árin.  Ég til dæmis skrifaði hluti í bréfið mitt sem ég hafði hugsað en aldrei þorað að segja upphátt áður.  Það var mikill léttir og lausn að setja það í bréfið og síðan lesa bréfið fyrir hópfélagana mína. 

Ég hins vegar valdi að senda ekki  bréfið þar sem ég hreinlega sá ekki tilgang með því.  Fjölskylda hans öll veit mína hlið málsins þar sem ég hef jú sagt mína sögu og maðurinn sjálfur mun sennilega seint viðurkenna sína sök.  Hann hefur kallað mig ýmsum miður fallegum nöfnum eftir að ég fór að opna mig um okkar samband og má þar nefna að hann segir mig geðveika, lygara, hræsnara og fleira og fleira.  Hann má reyna að afneita sannleikanum endalaust en ég veit að ég hef einungis sagt satt frá.  Ég hef oft sagt að ég laug og laug á meðan á okkar sambandi stóð og fyrst á eftir til að leyna því sem fram fór í sambandinu.  Það gerði ég til að hlýfa honum (ótrúlegt já) og vegna skammarinnar þar sem ég skammaðist mín og tók á mig sökina.  En eftir að ég ákvað að hætta að vernda sannleikann ákvað ég líka að aldrei framar skyldi ég ljúga um okkar samband (eða nokkuð annað reyndar).  Við það hef ég staðið og mun standa við það í framtíðinni. 

Bréfið hefur hins vegar lengi verið undir reynslusögum á www.styrkur.net en ekki undir nafni.  Nú hins vegar fáið þið að vita hver skrifaði þetta bréf.  Ef hann les það á netinu þá er það bara fínt og ef hann les það þá er það einnig allt í lagi.  Bréfið var skrifað fyrir mig til að hjálpa mér í uppbyggingunni og það gerði það svo sannarlega svo þá er takmarkinu með skrifum þess fyllilega náð Smile

En hér kemur bréfið:

Bréf til þín!!

(skrifað til ofbelsimannsins sem braut mig niður)

Jæja þá er ég sest niður að skrifa bréf til þín. Ég gerði það reyndar einu sinni áður .... skrifaði þá margra blaðsíðna bréf til þín sem þú reyndar aldrei fékkst að sjá því ég þorði ekki að sýna þér það, heldur reif það í tætlur til að vera viss um að þú sæir það aldrei.  Var alveg viss um að ég fengi nokkur högg eða verra ef þú kæmist í það bréf. Í dag vildi ég gjarna eiga þetta bréf samt.... svona til að sjá muninn á mér í dag og þá.

Ég hef mikið verið að hugsa undanfarna daga um hvernig okkar samband var og hvað ég vildi segja í þessu bréfi. Ég hef eiginlega ekki komist að neinni niðurstöðu heldur læt ég bara á blað það sem kemur upp í hugann núna.

Í gegn um árin hef ég oft hugsa um það hvað olli því að þú taldir þig þurfa að niðurlægja mig og beita ofbeldi á allan mögulegan hátt.  Ég veit ekki svarið og mun sennilega aldrei vita. Svona eðli er svo óskiljanlegt í mínum huga þrátt fyrir að hafa búið með þér mörg ár.

Ég man að síðustu árin var ég alveg viss um að þú værir hreinlega persónuklofi.... það var ekkert eðlilegt hvernig þú gjörbreyttir persónu þinni frá einni stund til annarrar. Hins vegar vissi ég um leið að það var heldur ekki sannleikurinn því þrátt fyrir að neita stundum fyrir að viðurkenna eða vita hvað þú hefðir gert mér þá skiptir þú á milli þessara “persóna” fullkomlega meðvitað.

Fyrstu árin þá var það ofbeldispersónan sem ég hugsaði alltaf með mér að ég þekkti ekki því hann var sá sem mér fannst vera víkjandi....... þar kom afneitunin reyndar sterkt inn í hjá mér en líka sú staðreynd að fyrstu árin var líkamlega ofbeldið minna og andlega ekki eins, hvað á ég að segja.... niðurlægjandi þó það hafi verið niðurbrjótandi.

Seinni árin fannst mér hins vegar ofbeldismaðurinn vera sá ríkjandi því það var hann sem ég sá á hverjum degi á okkar heimili,  ég sá “hinn” manninn orðið þegar við fórum eitthvað innan um fólk eða þegar komu gestir. Þá varstu hvers manns hugljúfi svo að segja og lékst við hvern þinn fingur...... það reyndist þér auðvelt því ég var orðin svo hrædd að ég þorði ekki að segja mikið og þurfti ekki nema eitt augnaráð frá þér til að stöðva mig alveg.

Ég hef líka oft velt því fyrir mér hvernig það er  hægt að segjast elska persónu en koma svo svona fram við hana eins og þú við mig.  Hvað það sé sem gerir að þú vildir og naust þess að sjá mig hrædda og niðurbrotna.

Eitt af fyrstu skiptunum sem ég man eftir að ég gerði mér grein fyrir að hegðun þín væri ekki rétt, og reyndar mótmælti, en jafnframt sá líka leikarann í þér var að mig minnir á afmælisdaginn minn......nokkrum mánuðum eftir að við kynntumst og fórum að búa saman. Við vorum með smá partý og fullt af fólki kom og síðan farið niður í bæ. Ég man að þú varst búinn að vera allt kvöldið að skjóta að mér leiðinlegum athugasemdum og til dæmis man ég að þú sagðir oft sem svo “þegiðu og ekki reyna að þykjast hafa vit á einhverju sem þú veist ekkert um” þetta var eitthvað sem mér fannst þú segja hátt og fyrir framan alla en áttaði mig svo löngu seinna á að það væri ekki rétt.  Allavega endaði þetta með því að í lok kvöldsins var mér nóg boðið og sagði á móti “þegiðu sjálfur” ég orðin reið yfir hvernig þú komst fram við mig.  Viðbrögðin létu ekki á sér standa...... þú vissir nákvæmlega hvernig þú áttir að snúa þessum orðum mínum þér í hag.  Þú barmaðir þér og kveinaðir við hina í hópnum yfir því hve illa ég kæmi fram við þig og það væri sko hámark niðurlægingarinnar að ég segði þér bara að þegja og það fyrir framan alla. Mér til mikillar furðu þá fékkstu samúðina og nokkrir komu til að tala við mig um að svona hegðun væri nú ekki hegðun sem maður sýndi öðrum hvað þá sínum heittelskaða. 

Já svo sannarlega gapti ég,  því í mínum huga hafðir þú sagt mér að þegja allt kvöldið og það svo að hinir heyrðu, gerði mér löngu seinna grein fyrir því að þú sagðir það einungis þegar við vorum ein eða hvíslaðir því. Þarna hins vegar fékk ég þau viðbrögð frá umhverfinu sem ég túlkaði sem svo að ég ætti sökina á þessari misklíð og þessi hegðun mín væri mjög svo ósæmileg.  Og ég man líka sigurglottið á þér þegar við komum heim og lesturinn frá þér að þarna sæi ég sko að ég væri klikk og hegðaði mér eins og algjört fífl. Já mikil gat blekkingin verið og þetta dæmi er reyndar mjög vægt miðað við þau sem seinna komu þó það sé enn svo ljóslifandi í huga mér. 

Hins vegar eru þessi dæmi öll hvort sem um er að ræða líkamlegt eða andlegt ofbeldi ávallt eitthvað sem þú munt ekki  viðurkenna því í þínum huga gerðir þú ekki neitt rangt og eins og þú sagðir einhvern tíma “ég er í mínum fulla rétti að gera það sem ég vil heima hjá mér” hmmmm mér er bara spurn... hver var þá réttur minn???  Þú sagðir líka eitt sinn þegar ég í einhverri örvæntingu sagði við þig að þú værir meira að segja hættur að biðjast fyrirgefningar á ofbeldinu ...“til hvers að biðjast fyrirgefningar á því sem ég veit að mun gerast aftur?” Reyndar var það í þínum huga ég sem átti sökina á því að þú “neyddist” til að beita mig ofbeldi.

Í fyrstu eftir að við skildum blokkeraði ég allar minningar um okkar sambúð því þær voru allt of sársaukafullar..... síðar fór ég að muna þessar góðu stundir og eina og eina slæma stund.  Í dag er alltaf að koma upp eitt og eitt smáatvik sem ég er í stakk búin að horfast í augu við núna.  Ég veit að fyrstu árin voru ekki alltaf slæm en ég get hins vegar ekki séð annað en óttann og hryllinginn sem hélt mér í heljargreipum síðustu árin. Og síðustu 1-2 árin bættist við ógeðið sem ég fékk á þér. Þrátt fyrir þetta hafði ég ekki hugrekki og orku til að slíta sambandinu fyrr. Ég átti lengi vel mjög erfitt með að sætta mig við sjálfa mig vegna þess að ég hafði látið koma svona illa fram við mig í svona langan tíma þó ég væri samt búin að fá algjört ógeð á þér.

Sennilega blandast það líka saman að ofbeldið varð algengara (andlega ofbeldið var orðin þín samskiptaleið við mig og líkamlega ofbeldið nær daglegt í einu eða öðru formi), held þú hafir fundið að ég var að safna mér kjarki og styrk til að brjótast út úr þessu og þá reyndir þú hvað þú gast að kæfa þann kjark niður strax í fæðingu.

Nágrannar okkar voru líka farnir að sjá að ekki var allt með felldu þó þá hafi ekki grunað hve ástandið var slæmt.  Þeir sáu þó að þú sem varst búinn að var atvinnulaus orðið í áratölum gerðir ekki neitt heima hjá þér til að létta á. Man ég eftir að einn nágranni okkar talaði oft um að þegar ég kom heim úr vinnu fór ég oft beint út að slá garðinn og þrífa hann en þú sást hvergi. Nei þú reyndar svafst mjög oft þegar ég kom heim!! Eða sast fyrir frama sjónvarpið að horfa á einhvern mikilvægan leik eða annað. Ég hef aldrei verið sjónvarpssjúklingur en eftir okkar sambúð fékk ég algjört ógeð á sjónvarpi og horfi mjög lítið á það.  Í dag sé ég fyllilega og viðurkenni að þú varst LATUR!!  Þetta var þó eitthvað sem alls ekki mátti nefna á nafn við þig því þá varð allt vitlaust.

En einhverra hluta vegna var það svo að þú gerðir ekkert í því að fá þér vinnu og þau verk sem þér voru útveguð voru annaðhvort of erfið eða leiðinleg eða eitthvað annað.  Svo gastu hellt þér yfir mig þegar ég í nokkra mánuði fékk aðeins hlutastarf.  Ég væri nú meiri auminginn að hafa ekki fulla vinnu. Það var alveg sjálfsagt að ég keyrði um 100 km á dag til að sækja vinnu en helmingi styttri vegalengd var of löng þegar þér bauðst vinna.  Þetta afsakaði ég allt með að það væri nú svo erfitt að koma sér út á atvinnumarkaðinn aftur ef maður hefði orðið fyrir því óláni að missa vinnuna og bla bla bla ...... vissi reyndar innst inni að sannleikurinn var sá að þú varst latur.

Ég gæti sennilega endalaust haldið áfram að koma með dæmi.... ætla þó að láta nægja að segja nokkur sem hafa oft komið upp í huga mér undanfarin ár.  Ég man að ég átti lengi vel mjög erfitt með ef einhver sagði elskan við mig. Þetta orð sem þú notaðir í tíma og ótíma við mig sem og aðra.  Hvílík misnotkun á orði!!!  Ég var farin að hata þetta litla fallega orð vegna þín. Í nokkur ár varð mér hreinlega óglatt og fékk hroll ef einhver sagði þetta við mig.  Góð vinkona mín kenndi mér þó að sjá aftur fegurðina í þessu orði og í dag er ég sjálf líka farin að getað notað það.

Ég man að þú mjög gjarna tókst í öxlina á mér eða greypst í hálsmálið á fötunum sem ég var í, krepptir hnefann og hótaðir mér með honum og sagðir “steinhaltu kjafti helvítis hækjan þín eða ég treð trantinum á þér niður í rassgat”.  Þetta er setning sem sennilega mun ávallt vera greypt í huga mér þó að í dag rísi hárin ekki á mér þegar ég hugsa um þetta.

Já óttinn er að hverfa og ég hef lært að takast á við hann líka. Ég hef lært að það er ég sem stjórna þessu lífi mínu og geri það líka með því að horfast í augu við óttann. Óttinn eða þú stjórna mér ekki lengur og ég ætla mér að halda því þannig um alla eilífð.

Ég hef þurft að leggja á mig mikla og erfiða vinnu til að byggja upp það sem þér tókst að rífa niður.  Það er þó langt í frá vinna sem ég sé eftir heldur þakka ég fyrir þessa vinnu daglega því hún færir mér mig sjálfa aftur.  Ég verð að vísu aldrei sama gamla ég, en ég verð ný og betri!!  Ég hef lært að nota mér þessa reynslu til góðs fyrir mig og aðra. Núna er ég komin svo langt að ég get tekið þig burtu úr sál minni og hent þér þaðan út. Þú hefur ekki lengur áhrifavald á mig eða mitt líf og ég ætla mér að halda því þannig.  Ég er í fyrsta skiptið að finna að ég get orðið heilað alla mína sálarkima.  Og sú tilfinning er góð. MJÖG GÓÐ!!

Ég er að sjá að ég hélt lengi vel áfram þínu verki og með því að rífa sjálfa mig niður og neita mér um að njóta þess góða í lífinu vegna ótta og lélegs sjálfstrausts eða vantrausts á aðra. En ég segi hér með upp. Ég vil ekki þetta starf lengur og ekki nóg með það....... ég er búin að ganga þannig frá málunum að þessi staða sem ég hef haldið í gegn um árin er ekki lengur til.  Ég er þess fullviss að karma mun sjá um að þú fáir þær orsakir sem þér ber og því hef ég ekki fundið eða finn neina löngun til hefnda eða annað. Ég þarf ekki að reyna að hefna mín á nokkurn hátt, karma sér til þess að þú færð það sem þér ber hvort sem það er núna eða einhverju öðru lífi.

Það að fá mitt líf aftur veitir mér mikið frelsi.  Það að finna að það er ég sem stjórna í stað þín er dýrmætasta gjöf sem ég hef gefið sjálfri mér.

Það sem þú gerðir mér var mjög rangt og ég er langt í frá að taka frá þér ábyrgðina á því. Ég er hins vegar að taka ábyrgð á því sem ég sjálf gerði mér, með að viðhalda niðurlægingunni og hatrinu á sjálfa mig.  Það er eitthvað sem ég hætti núna og nú rétti ég þér þinn ábyrgðarpakka til að sjá um ég ætla mér ekki lengur að geyma hann.

Ég ætla mér að elska sjálfa mig og njóta lífsins til fullnustu.

 

Vertu blessaður


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

takk fyrir þetta kæra dísa, það að taka ábyrgð á sér og því sem maður ekki gerði, er stórt skref.

hafðu fallega helgi

AlheimsLjós til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 5.10.2007 kl. 08:24

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Gott að þú ert laus............

Það er nefnilega þannig að enginn getur tekið ábyrgð á öðrum en sjálfum sér.

Gangi þér vel og eigðu góða helgi.

Hrönn Sigurðardóttir, 6.10.2007 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband