. - Hausmynd

.

Óttinn við ástina

Í dag ætla ég að skrifa aðeins um óttan við ástina sem ég fann fyrir eftir að hafa upplifað ofbeldi.  Ég var fyrstu árin eftir að ofbeldissambandinu lauk svo full af ótta gagnvart karlmönnum að ég gat ekki einu sinni hugsað mér að hafa þá sem vini - hvað þá meira.  Tilfinningalega var ég einnig alveg frosin svo ég leyfði mér heldur ekki að finna fyrir neinum jákvæðum tilfinningum og þá sérstaklega til karlmanns.  Ég var svo hrædd við snertingu að ég stirðnaði öll upp ef einhver til dæmis klappaði mér á öxlina eða ætlaði að knúsa mig.  Mér fannst slík snerting bara virkilega óþægileg og fylltist ótta.  Þetta var þó mjög ólíkt mér því fyrir ofbeldið hafði ég verið mjög tilfinningalega opin og gefandi persóna.  Ég elskaði snertingu og knús og klappaði sjálf gjarnan þeim sem ég var að tala við á öxlina til uppörvunar eða stuðnings til dæmis.  Ég fann líka sjálf þessa breitingu á mér og leið mjög fyrir hana - langaði alls ekki að vera svona en virtist bara ekki geta ráðið við þessi viðbrögð mín.  Ég man til dæmis að faðir minn, sem er mjög blíður maður og mundi aldrei gera annarri persónu mein, klappaði mér oft á öxlina þar sem hann fann mína miklu vanlíðan.  Þetta var hans leið til að sýna mér hlýju og stuðning.  Ég fann líka hve erfitt honum þótti að finna mig stirðna upp í hvert skipti sem hann klappaði mér á öxlina og sjálfri fannst mér mjög erfitt að stirðna svona upp þegar hann klappaði mér á öxlina því þetta var þrátt fyrir allt samskiptamáti og atriði sem mér þótti mjög vænt um.  En ósjálfráðu viðbrögðin voru sterk og sátu lengi - það var ekki fyrr en ég meðvitað fór að vinna í þessu þegar sjálfsvinnan mín var komin vel á veg að þetta smátt og smátt breyttist.

Ég var líka orðin þannig í upphafi að ef einhver hreyfði sig snögglega nálægt mér og ég tala nú ekki um ef einhver lyfti hendi snögglega þá hrökk ég í kút og ósjálfrátt bar ég hendi yfir höfuð mér.  Þetta var svona ósjálfrátt varnarviðbragð til að verja mig fyrir höggum sem ég hafði vanist í ofbeldisssamandinu og óttaðist orðið svo mjög.  Alveg orðin ómeðvituð hreyfing hjá mér og ég hætt að taka eftir henni meira að segja - var ekki fyrr en um 2 árum eftir að samandinu lauk sem ég áttaði mig á þessu.  Einnig áttaði ég mig á að ég forðaðist aðstæður þar sem að "hætta" var á að einhver mundi knúsa mig eins og til dæmis þegar verið var að kveðjast og slíkt.  Knús var jú ansi ágeng snerting og hana forðaðist ég.  

Þetta og fleiri atriði sem ég hef ekki nefnt eru ekki beinlínis til að hjálpa manni að stofna heilbrigt samband við karlmann.  Eða það eru nú sennilega ekki mörg sambönd sem þyldu það að annar aðilinn forðast algjörlega snertingu.  

Í mörg ár forðaðist ég því náið samband við karlmann og óttaðist það mjög - þrátt fyrir að ég þráði að eignast heilbrigða og hamingjusama fjölskyldu.  Ég treysti heldur ekki sjálfri mér til að dæma hvort viðkomandi væri góður í raun eða ekki.  Ég hafði jú orðið ástfangin af manni sem ég taldi vera góðan einstakling og hafði svo hrapalega haft rangt fyrir mér.  Því var ég dauðhrædd um að ég gæti gert sömu mistök aftur. 

Til einhverra kynna stofnaði ég þó og eftir á séð þá valdi ég karlmenn sem ég í raun vissi að samband mundi aldrei ganga við.  Ástæðurnar voru til dæmis mjög ólíkir persónuleikar, búseta langt frá minni búsetu og aðrar ástæður.  Ef ég fann að einhver alvara var að færast í kynnin var ég hins vegar fljót að forða mér.  Þó var það í 2 skipti sem ég leyfði mér að verða aðeins hrifin af karlmönnum en þau sambönd gengu ekki upp.  Urðu aðeins til að valda mér sárindum og til að ég varð enn varkárari um hjarta mitt en áður.  Ekki segi ég að sökin hafi verið eingöngu þeirra heldur var þetta bara samspil sem ekki gekk upp og slíkt særir.

Núverandi manni mínum kynnist ég svo á spjalli á netinu.  Fann það strax að þarna hafði ég hitt á algjöran gullmola en ætlaði aldrei að stofna til sambands við hann.  Við höfðum tala mikið og lengi saman og passaði ég mig alltaf á að færa aldrei neina alvöru í samtölin eða framtíðarplönin okkar.  Hann þurfti að hafa mikið og lengi fyrir að fá mig til að hitta sig og tala fyrir utan netið.  Eftir að við hittumst fyrst varð ég mjög hrædd um hjarta mitt þar sem að ég fann að hann var alveg sami gullmolinn að hitta hann fyrir utan netið og hann sýndi á netinu.  Hann var einmitt bara hreinn og beinn og sýndi ekki aðra persónu á netinu en hann er í raunveruleikanum.  Þessi uppgötvun færði mér hins vegar bara ótta og gerði ég tilraun til að loka bara á okkar samskipti eftir þetta.  Ákvað þó að líklega væri allt í lagi að gefa honum tækifæri þó ég vissulega væri tilbúin með fullt af afsökunum fyrir að loka svo á sambandið.

Fljótlega eftir það vorum við farin að hittast sem par og ég fann að ég var að verða alvarlega hrifin.  Það olli hins vegar aðeins því að ég fékk hræðslukast og brotnaði niður eitt kvöldið og hágrét og skalf bara.  Vildi bara ljúka þessu sambandi hér og nú og loka á allt.  Við hins vegar náðum þrátt fyrir þetta að tala um þennan ótta minn og hví hann væri þarna og ég samþykkti að prófa hvort ég yrði eins óttaslegin morgunin eftir.  Ég var hins vegar búin að finna margar margar afsakanir fyrir að þetta gengi ekki og talaði við vinkonur mínar um þesar tilfinningar mínar.  Þær hins vegar tóku mig og skömmuðu og gerðu mér ljóst að jú vissulega væri það mitt val hvort ég héldi áfram þessu sambandi en ég væri hins vegar að láta ótta minn stjórna og það væri óttinn en ekki ég sem væri að stjórna þessum flótta mínum.  Þær sáu það að ég var farin að bera tilfinningar til hans og þá kom óttinn.  Þær eru hins vegar það góðir vinir að þær bentu mér á þetta.

Eftir þetta ákvað ég að maður vissulega ynni ekki í lottó nema að eiga miða.  Ég hefði ekki tækifæri til að eignast heilbrigða og hamingjusama fjölskyldu nema að takast á við þennan ótta minn og gefa sambandi tækifæri.  Ég ákvað því að takast á við óttann og gefa sambandinu tækifæri.  Maðurinn minn vissi allt um mitt fyrra samband og grunninn fyrir þessum viðbrögðum mínum og hefur það hjálpað okkur mikið að takast á við ýmis atvik sem hafa komið upp á.  

Það tók mig smá tíma að losna við óttann við að rífa niður þá múra sem ég hafði byggt í kring um hjarta mitt og virkilega leyfa ástinni til mannsins míns að flæða þangað inn.  Það tók líka tíma að læra almennilega að treysta honum og einnig að treysta sjálfri mér.  En mikið hef ég oft þakkað fyrir það að ég ákvað að hafa hugrekki til að takast á við þennan ótta minn og gefa manninum mínum tækifæri.  Í dag er ég ástfangin af honum og lifi í hamingjusamu og heilbrigðu hjónabandi og saman eigum við yndislega litla dóttur sem svo sannarlega er á hverjum degi að kenna mömmu sinni enn frekar að hleypa ástinni að fullu í hjarta sitt Heart

En þetta hefur ekki verið átakalaust og sérstaklega í byrjun komu oft upp atvik sem gerðu að óttinn náði næstum yfirtökunum.  Ég brotnaði nokkrum sinnum niður vegna þessa ótta míns og oft hef ég brugðist undarlega við hegðun eða orðum sem vel voru meint.  Þessi viðbrögð hafa þá verið sprottin upp vegna þess að þau minntu mig á eitthvað í sambandi við ofbeldið.

En ég keypti miðann og fékk svo sannarlega hæðsta vinning sem hægt er að fá og það tvisvar sinnum.  

Ástæða þess að ég segi ykkur frá þessari upplifun minni er sú að ég vil minna á að það er langt í frá svo að lífinu sé lokið hafir þú upplifað ofbeldi.  Það er hægt að byggja upp góða sjálfsmynd aftur (með mikilli vinnu jú - en sú vinna margborgar sig).  Það er svo sannarlega hægt að eignast heilbrigða og hamingjsama fjölskyldu vilji maður það því það er nú svo að sem betur fer eru flestir karlmenn traustsins og ástarinnar virði Smile

Það er til eitthvað sem heitir gott líf.  Við sem höfum upplifað ofbeldi getum alveg byggt okkur upp aftur og staðið uppi sem sigurvegarar í okkar lífi.  Það er meðal annars stór ástæða þess að ég er svo á móti því að tala um þolendur og fórnarlömb ofbeldis.  Ég lít svo langt í frá á mig sem þolanda eða fórnarlamb.  Ég lít mun frekar á mig sem SIGURVEGARA Grin

Og við manninn minn vil ég bara segja:  Takk elsku ástin mín fyrir að vera þú og fyrir að elska mig og veita mér tækifæri til að elska þig.  Ég elska þig meira með hverjum deginum InLove


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

ójá, þú ert svo sannarlega sigurvegari!! Sigurvegari, hetja og falleg sál. Takk fyrir að skrifa þessa færslu, hún á eftir að gera mörgum gott, það er ég viss um mín kæra;)

kær kveðja

Harpa O

Harpa Oddbjörnsdóttir, 1.10.2007 kl. 13:15

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Til hamingju með vinninginn.  
Takk fyrir frábæra færslu. 

Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.10.2007 kl. 13:45

3 Smámynd: Dísa Dóra

Þakka ykkur fyrir hamingjuóskir og falleg orð í minn garð

Dísa Dóra, 1.10.2007 kl. 15:29

4 Smámynd: Saumakonan

Gullmolar leynast víða og þekki ég þessa tilfinningu sem þú ert að segja frá þótt mín reynsla sé ekki jafn slæm og þín.  Mínum gullmola hefur tekist með tímanum að vinna sér inn traustið og ástin bara vex með árunum sem líða   Samt koma stundir sem óöryggið og vantraustið lætur á sér kræla en það er bara að horfa fram á við... ekki afturábak á fortíðina og vera sterk!

Þú ert sannkölluð hetja já og það eina sem mig langar virkilega að gera er að gefa þér stórt *KNÚS*

Saumakonan, 1.10.2007 kl. 20:59

5 Smámynd: Einar Indriðason

Mæltu manna heillust!

Einar Indriðason, 1.10.2007 kl. 21:56

6 Smámynd: Halla Rut

Það eru svo miklir fordómar fyrir því að hitta "félaga" á netinu en ef maður hugsar út í það þá er þetta eiginlega eina leiðin þar sem maður kynnist fyrst og dæmir svo. Ég vona að þú skylir hvað ég á við.  Mér finnst þetta frábær leið til að kynnast

Til hamingju með betra líf en mundu að það varst þú sem ákvaðst að fara eftir betra lífi. Það var ekki tilviljun.

Gangi þér og þínum sem allra best. 

Halla Rut , 2.10.2007 kl. 03:09

7 identicon

Takk kærlega. Ætli það sé ekki þessi hræðsla sem hrjáir mann? og fleiri?  

knús á þig frá okkur

Guðný (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 04:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband