27.9.2007 | 08:43
Hver ber ábyrgðina?
Í dag ætla ég að setja hér inn smá pistil sem ég skrifaði eitt sinn um hugleiðingar mínar á hver ber ábyrgðina á ofbeldinu. Það er nefnilega enn þann dag í dag þannig að við sem höfum upplifað að vera beitt ofbeldi erum allt of gjörn á að taka á okkur ábyrgðina fyrir öllu því sem gerist í sambandinu. Kannski ekki nema von þar sem að það er aðeins nýlega farið að tala um það að ábyrgðin er ALLTAF gerandans að bera. Sama hvað gerist í sambandinu þá er það alltaf ákvörðun gerandans að bregðast við með ofbeldi.
Þetta er þó eitthvað sem gerandinn er oft mjög duglegur að vísa frá sér og mjög oft heyrir maður um að gerandinn sé duglegur að láta þann sem hann beitir ofbeldi heyra að það sé vegna þess hvernig viðkomandi hegðar sér að hann "neyðist" til að beita ofbeldi. Minn x var mjög duglegur að segja mér að ég ætti alla ábyrgð á því hvernig hann kom fram því ég væri svo ómöguleg og allt það - og því miður trúði ég honum fullkomlega á þeim tíma og tók á mig ábyrgðina, skammaðist mín fyrir ástandið og gerði allt sem ég gat til að leyna því hve slæmt það var. Eftir að sambandinu lauk hafði hann meira að segja viðurkennt eitt sinn við vini að hann hefði beitt mig ofbeldi - hafði vísst orðað það sem svo að ég væri svo erfið og hefði hreinlega króað hann af í horni og neytt hann til að beita mig ofbeldi!!
Ég vildi gjarna fá að vita ef einhver einhverntíman hefur neytt aðra persónu til að beita sig ofbeldi. Sjáið þið það ekki fyrir ykkur að þeir sem eru að upplifa ofbeldi út um allan heim eru að upplifa það vegna þess að þeir neyða gerandann til að beita sig ofbeldi??? Ehhhhhh neiiiiiiiiiiiiiiiiiiii ekki alveg og mér finnst bara ótrúlegt að nokkur mannvera skuli láta sér detta í hug að segja slíkt - en auðvitað er allt sagt til að reyna að fyrra sig ábyrgðinni.
Við sem búum í þessu samfélagi þurfum því að fara að setja ábyrgðina 100% þar sem hún á heima - hjá gerandanum! Þá ábyrgð setjum við þar með því að hætta að reyna að finna afsakanir fyrir hann, hætta að reyna að finna ástæður fyrir því að hann beitti ofbeldi, hætta að sópa þessu undir teppi og þannig horfast ekki í augu við það ofbeldi sem fram fer í samfélagi okkar, hætta að hugsa sem svo að það eigi ekki að tala um þessi mál við fjölskyldu gerandans til að þau fái ekki sektarkennd til dæmis. Það er nefnilega ekki heldur fjölskylda gerandans sem ber ábyrgðina - sama hve gott (eða slæmt) uppeldi og aðbúnað gerandi hefur fengið frá fjölskyldu sinni, þá er það alltaf hans ákvörðun hvernig hann bregst við lífinu.
En hér kemur bréfið sem ég skrifaði um þessi mál fyrir nokkrum árum síðan.
Að taka á sig ábyrgðina á því að leyna ofbeldinu jafnvel eftir að ofbeldissambandinu er lokið.
Fór að velta fyrir mér þeirri aldagömlu vanþekkingu að þolandi ofbeldisins taki á sig ábyrgðina á því, sem og ábyrgðina á því að leyna ofbeldinu. Man sjálf að það sem hefti mig lengi vel við að koma fram og segja mína sögu sem þolandi ofbeldis var einmitt það að ég vildi ekki opinbera ofbeldið, vegna þess að þar með væri ég að opinbera það fyrir fjölskyldu hans, auk þess sem og mér fannst ég vera að opinbera fjölskyldu hans.
Það hefur nefnilega alltaf verið sá misskilningur í gangi að fjölskylda ofbeldismannsins hljóti að eiga einhverja sök á því hvernig komið er. Einhverja sök þess að gerandinn hegðar sér eins og hann gerir. Það er, að sú sök sem ekki sé hægt að setja á þolandann sjálfan (því þolandinn hefur alltaf verið sakaður) sé sett á fjölskyldu gerandans. Sennilega er þessi hugsun sprottin aðallega vegna þess að það hefur tíðkast að horfa á gerandann sem einhvern sem á bágt og getur því ekki stjórnað sér. Oftast er þá þolandanum kennt um, hann hljóti að vera svo ómögulegur að gerandinn hafi engin önnur úrræði en að bregðast við með ofbeldi. Ef þolandinn á ekki sökina er oft litið á að ástæðurnar séu uppeldislegar. Gleymist að horfa á að það er alveg sama hverjar aðstæður í uppeldi eða ofbeldissambandinu eru, þá er það alltaf fullkomin ábyrgð gerandans hvernig hann bregst við. Hann einn getur stjórnað því á hvaða hátt hann bregst við og þar af leiðandi að hann bregðist við með ofbeldi. Hann einn ber ábyrgðina á þeirri ákvörðun sinni og þar af leiðandi ekki við neinn annan að sakast.
Eins og ég sagði fyrst þá velti ég þessu mikið fyrir mér áður en ég kom fram með mína sögu því sjálf óttaðist ég að foreldrar og fjölskylda hans yrðu gerð ábyrg á ofbeldinu að einhverju leiti. Það hefur þó aldrei verið á nokkurn hátt þeirra ábyrgð í mínum huga en ég vildi samt ekki valda því að augu fólks beindust að þeim. En ákvörðun mín um að koma fram var byggð á því að ég vildi opna augu almennings fyrir ofbeldismálum og þá yrði þessi hluti að vera eitt af því hugsaði ég.
Síðar var það í raun systir mín sem hjálpaði mér að sjá þetta í alveg nýju ljósi án þess að hún gerði sér grein fyrir hve mikilvæg orð hennar voru. Þannig var að þegar ég átti afmæli og var á skemmtistað ásamt vinum og fjölskyldu hitti ég bróður mannsins míns fyrrverandi. Tókum við tal saman og meðal annars voru þessi mál rædd. Það sem hann var ósáttastur við í sambandi við að ég kom fram var einmitt það að eins og hann orðaði það "þú (ég) hefði nú getað hugsað um að X ætti foreldra áður en þú (ég) ákvaðst að koma fram". Ég fékk sting í magann því hann margítrekaði í samtali okkar einmitt það sem olli mér sem mestri vanlíðan áður en ég tók endanlega ákvörðun. Því ég vildi ekki á nokkurn hátt særa fjölskyldu hans. Systir mín hlustaði á þetta í nokkurn tíma og lagði inn orð við og við. Að lokum ofbauð henni endurtekning fyrrverandi mágs míns á þessum hluta og sagði við hann " x hefði sjálfur átt að hugsa um að hann ætti foreldra á meðan hann var að berja Dísu"
Þar með enduðu samræður okkar við manninn en ég hugsaði mikið um þessi orð systur minnar því þau sýndu mér sannleikann í alveg nýju ljósi. Þarna loksins gat ég viðurkennt fyllilega það sem satt og rétt er að ég ætti ekki að bera ábyrgð á að leyna ofbeldinu á nokkurn hátt. Ábyrgðin á ofbeldinu var ekki mín og ég þurfti ekki að hafa sektarkennd yfir að tala um ofbeldið. Ef einhver ætti að hafa sektarkenndina yfir að fjölskyldan frétti af því, þá væri það enginn annar en x því hans var ákvörðunin um að beita ofbeldinu og einn hluti ábyrgðarinnar því sá, að aðstandendur gætu fengið veður af því hvað um væri að vera.
Athugasemdir
alveg er þetta dásamlega opin og frá hjartanu skrif sem þú deilir með okkur hérna á blogginu !
takk fyrir og hafðu fallegasta daginn
AlheimsLjós til þín
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 27.9.2007 kl. 13:18
Sigríður B Sigurðardóttir, 27.9.2007 kl. 19:14
Frábær pistill! TAKK!!
Gunnar Helgi Eysteinsson, 28.9.2007 kl. 08:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.