. - Hausmynd

.

Að byggja sig upp

Ég vil byrja á að þakka fyrir kommentin.  Alltaf gott að fá viðbrögð við því sem maður er að gera Wink 

Í dag ætla ég að koma með bréf sem ég skrifaði eitt sinn um hópastarfið í Stígamótum en það var sá hluti minnar uppbyggingar sem tók jú hvað mest á en skilaði líka hvað mestum árangri.

Það er nefnilega mikil uppbygging á líkama og sál sem sá sem hefur upplifað ofbeldi þarf að fara í gegn um eftir á til að ná að öðlast sjálfstraust og heilsu á ný.  Sú uppbygging er oft mjög erfið en ég segi samt að hún er mjög auðveld samt.  Svona miðað við hvernig það var að búa við ofbeldið sjálft er flest auðvelt eftir á ef maður fer að miða við hvernig var að lifa í stöðugum ótta.  Sú uppbygging gefur manni einnig jákvæðari og glaðari persónu sem hefur betur færi á að njóta lífsins en áður og þá er hún vissulega margfalt þessi virði þrátt fyrir að vera meira en að súpa blávatn Grin

Ég reyndar hef síðustu ár mikið hugsað um að ég vil útrýma orðum eins og þolandi ofbeldis og fórnarlamb ofbeldis.  Ég tel að þessi orð bjóði upp á að þeir sem hafa upplifað ofbeldi (tel það betra orð) horfi á sig sem þolendur og fórnarlömb allt sitt líf - jafnvel eftir að sambandinu er lokið.  Það býður líka upp á neikvæða mynd samfélagsins á þá sem hafa upplifað ofbeldi.  Við sem höfum upplifað ofbeldi erum nefnilega langt í frá einhverjir aukvisar eða aumingjar.  Við erum vissulega flest okkar niðurbrotin eftir þessa upplifun okkar en það er svo sannarlega hægt að breyta því og við getum staðið uppi sem algjörir sigurvegarar í okkar lífi.  Jafnvel mun sterkari en við höfum nokkru sinni verið.  Það er nefnilega langt í frá hægt að setja samansemmerki á milli þess að hafa upplifað ofbeldi og að einstaklingurinn sé ekki með sama styrk og þeir sem ekki hafa upplifað það.  Það þarf sterk bein til að byggja sig upp eftir slíka reynslu og ef maður finnur ekki þann styrk sjálfur er hægt að sækja aðstoð við að finna hann hjá aðilum eins og þeim sem eru hér í tenglum á þessari síðu.

En hér kemur frásögn mín sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum um reynslu mína af hópastarfinu hjá Stígamótum:

 

Hópastarfið hjá Stígamótum er sá þáttur í uppbyggingu minni sem tók hvað mest á mig tilfinningalega en jafnframt sá þáttur sem hjálpaði mér einna mest.

Ég hafði svo sem leitt að því huga að kannski ætti ég að fara í eitthvað svona hópastarf en sló því alltaf frá mér aftur.  Hugsaði sem svo að ég hefði nú ekkert að gera þarna þar sem mín reynsla væri svo aumkunarverð miðað við marga aðra.  Og hvað þá að ég ætti erindi til Stígamóta til að vinna mig út úr afleiðingum heimilisofbeldis. 

Ég fór reyndar fyrst til Stígamóta fyrir hönd samtakanna og var ekki fyrr en seinna að ég viðurkenndi að ég persónulega ætti erindi þarna. Fór ég í einkaviðtöl sem urðu svo til þess að ég ákvað að fara í hópastarf í framhaldi af því. 

En vissulega hugsaði ég enn sem svo að ég ætti nú samt ekkert erindi þangað. Hafði að vísu eitthvað verið talað um að til væri eitthvað sem héti sambandsnauðganir en hvað kom það svosem mínu sambandi við?

Ég komst þó að því að ég átti fyllilega erindi þarna og vissulega hafði kynlífið ekkert verið undanskilið ofbeldinu. Tók mig smá tíma að viðurkenna að ég hafði síðustu árin stundað kynlíf þó svo að ég hefði engan áhuga á því lengur.  En til að forðast aðrar afleiðingar þess að neita kynlífi lét ég það yfir mig ganga. Hataði svo sjálfa mig enn meira fyrir að stunda kynlíf með manni sem ég óttaðist. Ekki ætla ég að telja upp nein dæmi eða fara nánar út í þennan hluta ofbeldisins hér.

Svo sannarlega var það mér mjög  erfitt og tók mikið á mig tilfinningalega að gera upp þessar hliðar sambandsins sem og aðrar hliðar þess, en það hjálpaði mér líka að losa mig við tilfinningar eins og sjálfshatrið og reiðina út í sjálfa mig. Ég skildi að ég hafði einungis brugðist rétt við í óheilbrigðum aðstæðum.

Ég man að jólin þetta árið var ég einmitt í miðju ferlinu í hópastarfinu og í mikilli  og erfiðri tilfinningavinnu.  Ég fór í sveitasæluna til foreldra minna þó ég hafi í raun alls ekki verið í stakk búin að vera innan um fólk.  Þessi jól tóku líka mikið á mig og þá sem í kring um mig voru.  Man að ég var með tárin í augunum nánast allan tímann þó ég vissi ekki alveg hvað væri að valda því. Það var alveg sama hvað við mig var sagt (jákvætt eða neikvætt) ég bara táraðist en náði samt aldrei að sleppa grátinum fram og hafði aðeins grátið í örfá skipti undanfarin ár því ég frysti  allar tilfinningar mínar til að brotna ekki gjörsamlega saman. Var ég mjög viðkvæm og fann að það var einhver sorg að plaga mig þó ég vissi ekki alveg hvað ég var að syrgja. 

Það var svo vinur minn sem hjálpaði mér að losa tappann nokkrum dögum seinna.  Hann hringdi í mig og talaði við mig þar til ég loks gat grátið,  og úfffffffffff hvað ég grét, það komu grátkviður í gusum og mér fannst ég hreinlega vera að rifna því það þurfti svo mikið að komast út í einu. Það var mjög sárt líkamlega og andlega að sleppa öllum þessu sáru tilfinningum út en jafnframt mikill léttir.  Ég grét í fleiri tíma og var algjörlega uppgefin á eftir. En þarna náði ég að taka tappann úr og þetta var byrjunin á því að ég fór að leyfa sjálfri mér að finna tilfinningar eins og sorg og reiði.  En þetta var þó aðeins byrjunin og það vissi ég og hef verið að vinna í þessum tilfinningum sem og öðrum síðan. Hópastarfið hjá Stígamótum er þó eitthvað sem ég þakka fyrir að hafa farið í og þakka þeim hjá Stígamótum fyrir að koma slíku starfi á laggirnar.

Ég lærði þar til dæmis að reiðin sem ég hafði byrgt niðri svo lengi var ekki hættuleg.  Ég hafði verið hrædd við að horfa upp á reiði fólks sem og að finna þessa tilfinningu hjá sjálfri mér því í mörg ár hafði ég jú þurft að takast á við afleiðingar reiði hjá sambýlismanni mínum. Ég var alveg viss um að ef ég mundi leyfa mér að viðurkenna reiðina í mér mundi ég bókastaflega springa og gera eitthvað sem ég síðar sæi eftir.  Því fannst mér betra að frysta þessa tilfinningu. Hjá Stígamótum lærði ég að viðurkenna reiðina og nýta hana sem drifkraft í lífinu til að byggja upp eitthvað jákvætt.  Ég lærði að það að vera reiður er ekki það sama og að skaða aðra manneskju líkamlega eða andlega. Ég fór smátt og smátt að leifa mér að verða reið og sýna það.  Þetta var líka stór þáttur í því að þora að sýna ef mér var misboðið og jafnvel reiddist þess vegna.

Ég til dæmis lærði þar eina aðferð til að fá góða útrás fyrir reiði sem ég hef oft notað eftir það.  Aðferðin er sú að fara á afskekktan stað og öskra og öskra eins hátt og þú getur,  það veitir manni ótrúlega útrás sem og að þá er maður líka að viðurkenna reiðitilfinninguna í stað þess að afneita henni. Þú ert bara að vinna úr reiðinni án þess að skaða aðra.  Svo er líka gott að taka til dæmis tóma kókflösku og nota hana sem barefli til að berja stein til dæmis.  Það er allt í lagi að ímynda sér að þú sért að berja þann sem þú ert reiður út í því þú veist að þú getur stjórnað reiði þinni og mundir aldrei beita ofbeldi gagnvart öðrum.

Fyrst og fremst hjálpaði hópastarfið mér að sjá og viðurkenna margar tilfinningar og atvik sem ég hafði afneitað eða fryst.  Ég hreinsaði mikið til í minni sál þarna og ekki síður mikilvægt að þetta var mér driffjöður að halda áfram úrvinnslunni eftir hópastarfið.

Ég hvet fólk endilega til að fara í einhverskonar hópastarf (Stígamót, Kvennaathvarfið, 12 spora kerfið eða annað) og þó það vissulega taki mikið á og sé erfitt þá veitir það manni svo mikla hjálp í úrvinnslunni að það er ómetanlegt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður B Sigurðardóttir

Hæ Dísa, og velkomin sem bloggvinur minn, takk fyrir síðast þetta var yndisleg helgi. Ég er svo sammála þér,sjálfshjálparhópur finnst mér málið. Mér finnst þú svooo mikill sigurvegari.. Kveðja Sirrý

Sigríður B Sigurðardóttir, 26.9.2007 kl. 18:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband