. - Hausmynd

.

Að upplifa ofbeldi

Fyrir nokkrum árum settist ég niður og skrifaði sögu mína um reynslu af því að búa við ofbeldi.  Ég er nýbúin að ljúka BA verkefni mínu sem tengist ofbeldismálum og mun ég seinna segja ykkur frá því.  Ég hins vegar hef ákveðið að byrta aftur söguna mína svona til upprifjunar og seinna mun ég skrifa framhaldið þ.e. hvernig mér hefur gengið í lífunu eftir að ég skrifaði söguna.  Mín saga er ekki sérstakari að nokkru leiti en saga annarra sem hafa upplifað ofbeldi á heimili sínu.  Mín saga er aðeins sérstök fyrir mig þar sem hún er einmitt mín saga, en allar sögur af ofbeldi eru jafn "mikilvægar".  Ég skrifaði söguna mína til að átta mig sjálf betur á hlutunum sem og til að opna augu fleiri fyrir því sem gerist í ofbeldissambandi.  Þessa hlutu þurfum við nefnilega að horfast í augu við og tala um.  Ekki bara þau sem upplifað hafa ofbeldi heldur allir sem í heiminum búa.  Ofbeldi er nefnilega ekki einkamál heldur samfélagsmál.

Hér er sagan eins og ég skrifaði hana fyrir um 7 árum

Ég er ein af þeim sem lent hafa í ofbeldissambandi og verið föst í því í langan tíma, án þess þó að getað sagt til um það í dag af hverju það gerðist. Það er röð atvika og tilfinninga sem gera það að maður festist í svona vítahring án þess að sjá það.

Eftir á að hyggja þá var sambandið aldrei gott og andlegt ofbeldi var til staðar allan tímann. Ég fékk mjög fljótt að vita það að ég væri ekki mikils virði og ætti bara að þakka fyrir að hann skildi umbera mig. Í fyrstu var þessum orðum pakkað inn í umbúðir svo að þær voru ekki svo augljósar, en skildust samt og særðu. Og svona ofbeldi er mjög skilvirkt, því fái maður að heyra það nógu oft að maður sé lélegur pappír fer jafnvel hin sterkasta persóna að trúa því að lokum. Og ég trúði því!! Hef sjálfsagt aldrei haft gott sjálfstraust og því auðvelt að telja mér trú um að ég væri drusla, hækja, hóra eða hvað af þeim nöfnum sem honum datt síðar í hug að nefna mig.

Nokkrum mánuðum seinna fórum við svo út að skemmta okkur og endaði sú skemmtun með drykkju og því að ég fékk á kjaftinn í fyrsta skiptið. Það var áfall, mikið áfall. Ég var lömuð. Það er ekki hægt að lýsa í orðum því áfalli sem maður verður fyrir þegar einhver sem maður heldur að elski sig slær mann, og það ekki neinn kinnhest heldur hnefahögg. En daginn eftir var hann mjög miður sín og lofaði öllu fögru og hætti ekki fyrr en ég fyrirgaf honum þessi mistök eins og hann orðaði það. Og ég taldi mér trú um að þetta hafi “bara” verið fyllerísrugl. Já sjálfsblekkingin getur verið sterk. Og þar með hófst vítahringurinn. Fyrstu 2-3 árin gerðist þetta æ oftar en þó aðeins ef hann var undir áhrifum áfengis. Á þessum tíma fluttum við líka til Svíþjóðar sem gerði að ég varð mjög einangruð. Ég hafði alltaf leynt þessu og það að búa erlendis gerði mér það mun auðveldara að leyna þessu. Andlega ofbeldið jókst alltaf og oft kom það fyrir að ég hugsaði sem svo: vildi að hann lemdi mig frekar en þetta. Það var sárt já….en andlega ofbeldið var þó sárara!

Svo fór ofbeldið að koma án vínsins. Og síðust árin var það nánast daglegur viðburður. Stundum í formi högga og stundum í formi þess að taka í öxlina á mér og hóta mér, en þó oftast bæði í senn og nokkur skipti tók ég mér veikindafrí úr vinnu til að ekki sæjust þessir marblettir. Þó má segja að það var sjaldan sem hann barði mig í andlit eða þar sem sæist á mér. Meðvitað eða ómeðvitað?? Það veit ég ekki og fæ sennilega aldrei svör við.

Ég lifði í hræðslu. Var hrædd við að koma heim til mín en jafnframt hrædd við að koma of seint heim til mín. Því allt gat skapað högg. Það sem var svo miður í dag að ég átti skilið að vera barin fyrir var allt annað á morgun. Ég reyndi alltaf að breyta minni hegðun til að þóknast honum, en það tókst aldrei því “kröfurnar” breyttust sífellt. Einu sinni man ég að ég sagði við hann: og þú biðst ekki einu sinni fyrirgefningar á því að berja mig. Svarið var: til hvers að biðjast fyrirgefningar á einhverju sem að ég veit að gerist aftur!!!

Ég man að nágrannakona mín reyndi eitt sinn að tala við hann og það endaði bara með því að hann gekk í skrokk á henni….þá brjálaðist ég og henti honum út. Kannski vegna þess að þá var ég að verja einhvern annan, ég veit í raun ekki hvað gerði það, ég fékk bara nóg.

En þetta atvik varð líka til þess að ég leyndi þessu enn betur því ekki ætlaði ég að verða þess valdandi að hann gengi í skrokk á vinum mínum.

Hann hótaði í sífellu að drepa mig. Sagði að það væri sér sönn ánægja að sitja í fangelsi fyrir það. Bara ef hann vissi að ég væri dauð. Svona hækja og fífl og allt það ætti ekki skilið að lifa.

Undir það síðasta var ég orðin svo hrædd að ég svaf með kökukeflið við hliðina á mér. Til að hafa séns á að lifa af ef hann réðist á mig í svefni.

En eftir 9 ár fékk ég nóg. Það var hræðsla sem hélt mér fastri síðustu árin ásamt því að ég trúði því að ég ætti ekki annað skilið og gæti ekki staðið á eigin fótum. Maður finnur sér allskonar afsakanir og einblínir á þær, sér ekki nema eitt atriði hversu vitlaust sem það getur verið. En það var líka hræðsla sem gerði að ég sagði stopp. Ég vildi lifa lengur. Einhversstaðar djúpt í sálu minn átti ég von um betra líf mér til handa.

Svo ég fann loksins hugrekkið og sagði stopp. En það tók 3 mánuði að gera upp okkar mál og selja íbúðina okkar. 3 mánuði í helvíti, því þrátt fyrir fyrri viðburði þá keyrði þetta út. Honum fannst ég vera að svíkja sig og hótaði í sífellu að drepa mig. Ég vissi aldrei hvort ég mundi lifa þennan daginn af.

En það tókst!!!

Ég flutti í litla íbúið og kom mér þokkalega fyrir. Og þá tók næsta sjokk við.

Ég hafði alltaf leynt þessu. Var orðin niðurbrotin andlega og líkamlega og vildi reyna að byggja upp mitt líf. Þurfti styrk og stuðning og vildi hætta þessu leynimakki. Sagði því vinum mínum frá. Hélt að það væri besta vinkona mín. En hún gat ekki horfst í augu við þetta og henti mér út með þeim orðum að ég væri of feit, of rugluð og of frek til að umgangast.

Þarna brotnaði ég.

Ég veit ekki enn þann dag í dag hvað gerði að ég lifði næsta sólahring af. Ég vildi ekki lifa, fannst lífið ekki þess virði. Hugsaði um sjálfsmorð og reyndi.

En ég er hér enn. Og fyrst ég lifði þetta af ákvað ég að ég ætlaði að komast í gegnum þetta og verða sterk persóna.

Það hefur ekki verið átakalaust. Var mjög langt niðri hvað varðar sjálfstraust og treysti heldur engum lengur. Hoppaði hæð mína og greip um höfðu mér (mér til varnar) ef einhver hreyfði sig snögglega nálægt mér. Forðaðist allt sem líkamsleg snerting hét.

En smátt og smátt tókst mér að vinna á þessu. Það hefur að vísu verið ganga smárra skrefa en gott er gullkornið sem segir að hver þúsundmílnaferð hefst á einu litu skrefi.

Eitt það fyrsta sem ég lærði var að hætta að hlusta á gagnrýni og fara að hlusta á hrós annarra. Það var mjög erfitt í fyrstu því ég trúði því alls ekki að ég ætti skilið hrós eða hefði unnið fyrir því. Smátt og smátt varð það eðlilegra að hlusta á hrósið og láta ekki gagnrýnina rífa mig niður. Síðar kom stærra skref að virkilega trúa og viðurkenna að ég átti hrósið skilið og hafði unnið fyrir því. Svona má lengi telja litlu skrefin sem hjálpuðu mér.

Í dag er ég sterk persóna og elska að knúsa vini mína. Eina sem ég þarf að vinna með er að ég vantreysti karlmönnum það mikið enn að ef einhver nálgast mig með áhuga á sambandi fer ég í baklás og forða mér. Þetta er eitthvað sem ég er að vinna í og ætla mér að sigra í þerri orrustu eins og þeim fyrri.

Ástæða þess að ég segi brot af minni sögu hér er sú að ég vona að hún verði til að hjálpa einhverjum til betra lífs og að skilja kannski smá hvað það er sem gerist í ofbeldissamböndum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það mætti halda að þetta væri mín saga að hluta til.

Varð fyrir andlegu ofbeldi aðallega, líkamlegu reyndar líka í nokkur skifti, verst eftir að ég var skilin við bóndann. Lenti þrisvar inná skadestuen í DK, eftir að hafa verið barin niður eða tekin kverkataki.

Er ennþá að berjast við vantraust á karlpeningnum, þoli ekki snertinu nema að vissu marki, og ef eitthvað meira en vinskapur er í boði, tek ég til fótanna.

Er að berjast við drauga fortíðar, og veit eiginlega ekki hvernig ég á að snúa mér í því.

flakkari (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 12:36

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ljót saga sem betur fer endar hún vel. Til hamingju með að vera laus undan okinu.

Hrönn Sigurðardóttir, 26.9.2007 kl. 11:07

3 Smámynd: Halla Rut

Þú valdir að fara og það sýnir að þú ert kannski sterkari en þú veist sjálf.  Til hamingju að losna.

Halla Rut , 2.10.2007 kl. 03:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband