Færsluflokkur: Bloggar
18.7.2008 | 08:40
Stórbrotinn maður
Mandela er í mínum huga einn af nokkrum af merkustu mönnum heimsins fyrr og síðar. Þvílíkur baráttuandi og hugrekki sem hann hefur til að bera. Ótrúlegt að enn er hann að þrátt fyrir háan aldur sinn. Flott afmælisbarn
Viðbót. Ákvað að setja inn gullkorn okkar Búddistanna fyrir daginn í dag þar sem mér finnst það passa mjög vel við starf Mandela. Hann hefur ekki gefist upp þó á móti blási og nýtt lífið allt í sína baráttu.
FRÁ DEGI TIL DAGS
18.júlí
Það er engin þörf á að leita mikilleika, frægðar eða auðs af óþolinmæði. Jörðin og sólin flýta sér ekki; þau fylgja sínum eigin leiðum á sínum eigin hraða. Ef jörðin mundi auka hraðann og klára einn hring á þremur stundum í stað tuttugu og fjögura, mundum við vera í stórum vandræðum! Það sem er mikilvægast í lífinu líka, er að finna örugga leið og feta hana í óttaleysi og trú.
Mandela níræður í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
17.7.2008 | 13:39
Hvenær ætlar þessu að linna
ohhh hvað ég er búin að fá miklu meira en nóg af þessum skjálftum. Hjartað mitt var orðið þokkalega rólegt en sökk heldur betur niður í brækur aftur í morgun Fór nú bara út og í kaffi til foreldra minna og þar höfum við mæðgur setið úti á verönd í sólinni. Núna er hún svo að sofna úti á verönd (heima sko) og ég ætla að sjá hvort ég nái að festa svefn sjálf þó hjartað sé enn ansi hvekkt. Er nefnilega að fara að vinna aftur eftir sumarfrí og byrja á næturvakt svo það væri nú gott að fá smá kríu.
En mikið svakalega vona ég að þetta sé búið - taugarnar eru ekki alveg að meika þetta álag og já ég veit að ég er skræfa
Jarðskjálfti á Suðurlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.7.2008 | 21:54
Þegar ég "kom út úr skápnum"
Ég var fyrir löngu búin að lofa ykkur að setja hér inn viðtalið sem byrtist við mig í Íslandi í dag þann 21. janúar 2002 og fjallaði um reynslu mína sem þolandi heimilisofbeldis. Það hefur hins vegar gengið heldur brösulega að koma þessu í tölvtækt form en ég átti þetta aðeins á videospólu.
Viðtalið má segja að hafi verið upphafið af því að umræðan um heimilisofbeldi opnaðist loksins almennilega og fleiri stigu fram í dagsljósið seinna meir og sögðu sína sögu. Ein kona hafði nokkrum árum áður sagt frá reynslu sinni sem þolandi heimilisofbeldis og því miður fékk hún frekar dræmar viðtökur þrátt fyrir sitt gífurlega hugrekki. En þegar ég svo kem fram opinberlega með mína reynslu var almenningur greinilega tilbúnari til að horfast í augu við þann vanda sem heimilisofbeldi í rauninni er. Sem betur fer hefur umræðan opnast gífurlega um þessi mál síðustu árin og er ég í dag mjög stolt yfir að hafa átt þátt í þeirri opnun.
Þetta var mér hins vegar á sínum tíma gífurlega erfitt skref að stíga og í raun skref sem ég hafði ekki almennilega tíma til að hugsa um fyrr en það var stigið - kannski sem betur fer því annars er ekki vísst að ég hefði haft styrk til að stíga það skref. Í upphafi bloggferils míns hér á mbl setti ég inn færslu um það skref að koma opinberlega fram og má finna þá færslu HÉR.
Til að auðveldar ykkur smá að lesa þá færslu set ég hana líka hér inn.
28.9.2007 | 08:37
Að segja söguna opinberlega
Í dag ætla ég að byrta bréf sem ég skrifaði eitt sinn um aðdraganda þess að ég kom opinberlega fram með söguna mína sem og þær tilfinningar sem það ferli vakti hjá mér ásamt því hvernig mér leið fyrst á eftir. Ég segi það stundum í dag að ef ég hefði vitað hve mikil vinna þetta ferli var og ég hefði með þá vitneskju í huga fengið tíma til að hugsa mig um, hefði ég sennilega bakkað og farið í felur og aldrei farið af stað með allt sem ég gerði. Sjálfstraustið var enn veikt á þessum tíma og ég hefði nokkuð örugglega fundið ástæður til að hún litla ég ætti ekki að koma fram og segja sannleikann um ofbeldissamband mitt. En hún litla ég fékk ekki að hugsa og skellti sér bara beint í djúpu laugina - sem betur fer segi ég eftir á þar sem það varð til að opna umræðuna um ofbeldismál til muna og af því er ég mjög stolt í dag
Í dag er sálfstraustið bara gott og ég mjög hamingjusöm og sátt við mitt líf - þrátt fyrir það fæ ég alltaf ólgu í magann þegar ég tala um mína reynslu á hvaða vettvangi sem það er. Ég hins vegar læt það ekki stöðva mig því ég er þess fullviss að til þess að hafa möguleika að fræða og efla þær forvarnir sem þarf til að hægt verði að sporna við við ofbeldi, þá þarf að tala um þau aftur og aftur. Það þarf einnig að grafa niður þá skömm sem að þeir sem hafa upplifað ofbeldi finna svo oft fyrir þegar kemur að því að segja sögu sína. Það þarf að sýna þeim sem ekki hafa upplifað ofbeldi að við sem í því lendum erum bara venjulegar persónur. Við gætum þess vegna allt eins verið Jón eða Gunna í næsta húsi, systir þín eða bróðir, vinir þínir eða bara hver sem er. Það er því nauðsynlegt að ALLIR þegnar samfélagsins þekki einkennin - að allir þegnar samfélagsins tali opinskátt um þessi mál í stað þess að sópa þeim undir teppið. Þannig og aðeins þannig tel ég möguleika á að koma í veg fyrir að fleiri lendi í þessum ógnar vef sem ofbeldi er.
En hér kemur bréf það sem ég skrifaði fyrir nokkru um það að koma fram opinberlega:
Frá því ég skrifaði söguna mína hafa liðið ár og mikið vatn runnið til sjávar. Það hefur á ýmsu gengið og svo sannarlega hefur þetta verið dans á rósum og þá eins og Svíarnir segja: Lífið er dans á rósum; stundum á blöðunum og stundum á þyrnunum!
Ég hefði aldrei trúað því þegar ég skrifaði söguna mína að hún yrði þess valdandi að ég léti gamlan draum rætast og að sá draumur yrði eins umfangsmikill og hann í raun varð. Í fyrsta lagi skrifaði ég söguna fyrir sjálfa mig til að reyna að koma skipulagi á mínar hugsanir í sambandi við þá reynslu sem ég hafði gengið í gegn um og til að reyna að gefa vinum og vandamönnum skýrari mynd af því. Sendi ég söguna ásamt bréfi til vina og vandamanna einn góðviðrisdag alveg óafvitandi að nokkrir af vinum mínum sendu söguna áfram til fleiri og hún svo gekk eins og eldur um sinu um netið (Sagði að vísu í bréfinu að þeim væri velkomið að senda áfram ef það gæti hjálpað að fá hugmyndir, en í mínum huga horfði ég aðeins á mjög fáa. En í stað þess sendu nokkrir vinir mínir bréfið áfram á alla sem þeir þekktu og þannig koll af kolli).
Ég var aðeins í spennufalli eftir að hafa framkvæmt eitthvað sem var mér langt í frá auðvelt en þó eitthvað sem ég hafði lengi ætlað mér og ég var viss um að væri nauðsynlegt til að stíga næsta skref í uppbyggingu þeirri sem ég hafði verið að vinna í sjálfri mér. Ég var bæði mjög fegin að hafa látið verða af þessu og léttirinn við að skrifa söguna var ótrúlegur, en samtímis var ég mjög kvíðin yfir því hvernig viðbrögð ég fengi nú hjá þeim sem ég sendi bréfið. Ég hafði í svo mörg ár hafnað sjálfri mér sem persónu að ég hefði ekki orðið hissa ef ég hefði fengið svoleiðis viðbrögð frá einhverjum hópi. Því varð ég ekki lítið hissa þegar ég frétti að bréfið væri á hraðferð á netinu og þegar fjölmiðlar fóru að hafa samband og biðja um viðtöl.
Ég varð eiginlega hálf hrædd við þetta allt saman og langaði mest til að bara loka mig af og svara hvorki síma, tölvupósti né dyrabjöllu. En svo fór ég að hugsa um að ein stór ástæða þess að ég sendi bréfið var einmitt ósk mín að fá ráð til að opna augu almennings gagnvart þeim ógnvaldi sem heimilisofbeldi er. Og ekki gat ég bara skriðið í felur núna!
Ég beit því á jaxlinn og ákvað að veita nokkrum viðtal til að almenningur fengi að heyra þessa hlið málanna. Það var skjálfandi og kófsveitt dama sem fór í beina útsendingu í Ísland í dag. Vinkona mín sem hafði ætlað að koma með mér upp í útsendingarstúdíó og halda í höndina á mér komst því miður ekki með mér vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Ég sat því þarna og nagaði neglurnar og hugsaði hvern fj... ég væri að gera þarna. Hvað ég héldi eiginlega að ég hefði að segja almenningi og aðrar svipaðar hugsanir ásóttu mig. Þegar ég var kölluð inn í útsendingu eftir óralangan tíma að mér fannst var varla að ég gæti gegnið því fæturnir skulfu svo. Lá reyndar við að ég snéri við á síðustu mínútu en hugsunin um að ef til vill gæti ég hjálpað einni persónu sem væri í svipuðum aðstæðum og ég var, varð til þess að ég ákvað að halda áfram. Ég hafði strax og viðtöl bárust í tal ákveðið að ég færi ekki nema undir eigin nafni og mynd. Hafði alltaf hugsað sem svo þegar ég sá skuggamyndir á bak við skerm að það mundi aldrei nást almennilegur árangur í að opna umræður um þessi mál á meðan þyrfti enn að vera með þau í felum. Fannst það að tala á bak við skugga vera líkt og að sópa málunum undir teppi, að vísu heyrðist í viðkomandi en tilfinning mín var samt sem áður að þarna væri enn verið að fela raunveruleikann. Eins hugsaði ég sem svo að ef maður sér einhvern tala um svona hluti og sér að viðkomandi er bara venjuleg manneskja gæti það kannski orðið til að eyða ýmsum fordómum gagnvart þolendum heimilisofbeldis. Því kom ég fram undir nafni og mynd. En enn þann dag í dag get ég ekki horft á upptöku af þessum þætti án þess að fá herping í magann því ég man svo vel kvíðahnútinn og stressið (reyndar fæ ég þennan hnút við að skrifa þetta og það af sömu ástæðum). Ég varð sjálf mjög hissa þegar ég sá upptöku af þessu hve róleg ég virtist vera og að ég kom sæmilega til skila því sem ég vildi sagt hafa (þeir sem þekktu mig vel sáu þó auðveldlega hve stressuð ég var). Satt best að segja mundi ég ekki orð af því sem ég hafði sagt þegar ég gekk út úr salnum. Var svo stressuð að það bara var mér ómögulegt að muna það sem ég hafði sagt. Man að ég vildi aðeins drífa mig út svo ég gæti grátið í friði. Upptökumennirnir stöðvuðu mig þó á leiðinni út og vildu fá að taka utan um mig og óska mér til hamingju með hugrekkið. Þar láku fyrstu tárin því svo sannarlega fannst mér ég ekki vera hugrökk á þessari stundu skjálfandi af ótta við að hafa klúðrað öllu viðtalinu sem og við afleiðingarnar sem það gæti haft. Hljóp síðan út í bíl og sat þar lengi og hágrét.
Það stóð reyndar ekki á viðbrögðunum því síminn bókstaflega trylltist og allir vildu óska mér til hamingju með þetta skref. Smátt og smátt hvarf kvíðahnúturinn yfir að ég hefði klúðrað þessu öllu því ég gat ekki annað heyrt á viðbrögðunum en að ég hefði staðið mig með ágætum. Fór svo til vinkonu minnar og sat þar góða stund. Þegar heim kom beið blómvöndur frá stúlku sem ég hafði þekkt í Svíþjóð með hamingjuóskum. Þarna opnuðust flóðgáttirnar aftur en í þetta sinn voru það þó hamingjutár því mér þótti mjög vænt um að heyra frá henni aftur.
En lítið varð um svefn þessa nótt. Þegar ég ætlaði að sofna kom yfir mig þvílíkur ótti um að minn fyrrverandi mundi gera mér eitthvað til miska vegna þess að ég hafði nú sagt söguna eins og hún var. Áttaði mig á því um miðja nótt þvílíkur ógnvaldur og stjórnvaldur óttinn getur verið. Sat þá uppi í rúmi búin að loka öllum gluggum kyrfilega, með öll ljós kveikt og búin gera allar þær varúðarráðstafanir sem ég gat og skalf samt af ótta. Bjóst satt að segja við því á hverri stundu að hann kæmi fljúgandi inn um gluggann eða álíka og réðist á mig. Allt í einu uppgötvaði ég að þetta var nákvæmlega sú tilfinning sem hafði stjórnað lífi mínu í nokkur ár. Hafði ég náð að vinna bug á óttanum að mestu og hafði það gerst smátt og smátt. Ég gerði mér því ekki grein fyrir þessu fyrr en þarna hve gífurlega hann hafði stjórnað öllu sem ég gerði, sagði og hugsaði. Og þegar ég kom auga á þetta tók ég ákvörðun um að ég ætlaði ekki að láta þennan mann skemma allt líf mitt. Ég hafði gert honum kleift að stjórna lífi mínu með ótta í mörg ár og var í raun enn að gera honum það kleift að stjórna mér. Ég ákvað að ég yrði að vera sannfæringu minni trú og það gæti ég ekki ef ég óttaðist sífellt hefndaraðgerðir. Ég yrði bara að taka því sem koma skyldi. Enginn veit til dæmis hvenær slys getur orðið og þýðir ekki að láta ótta við slíkt stjórna öllu lífi sínu. Og þetta var svipað sem ég var að gera. Eftir þetta náði ég að sofna smá stund og hef oft síðan hugsað einmitt um þessa nótt bæði til að minna mig á þessa ákvörðun og til að minna mig á hve óttinn er öflugt stjórntæki. Ætli það hafi ekki verið fyrst þarna sem ég gerði mér fyllilega grein fyrir hví við sem erum föst í þessu neti eigum svo erfitt með að slíta okkur laus (allavega stór þáttur þess að mínu áliti).
Ég kom fram í blaðaviðtali og einhverjum útvarðsviðtölum líka, en hafnaði mörgum boðum því það var aldrei meining mín að vekja athygli á mér persónulega heldur aðeins opna umræðuna um þessi mál. Taldi ég mig vera búna að gera það og nú gæti ég stigið skref til baka og fylgst með umræðunni. Ákveðið var að stofna samtök fyrir þolendur heimilisofbeldis sem og heimasíðu. Við fengum gífurleg viðbrögð og satt að segja flest mjög jákvæð. Vissulega fékk ég hótanir um kæru og fleira en var fyrirfram búin að ákveða að ef það væri sá tollur sem ég þyrfti að borga fyrir að segja sannleikann þá yrði svo að vera.
Næstu mánuðir voru mjög annasamir hjá mér og ég fylltist gleði og eldmóði þegar mér varð ljóst að ég ekki einungis gat aðstoðað fólk heldur var ég að því. Ég gerði þó þá skyssu að ég ætlaði að bjarga öllum heiminum og setti allan minn kraft í það. En það endaði aðeins með því að ég keyrði mig út. Var þó svo heppin að mér var bent á þetta fljótlega og ég fann það líka sjálf. Var þó orðin þannig að ég var sífellt að fá allar pestir og orðin svo orkulaus að ég þurfti oft að leggjast gólfið til að ekki liði yfir mig. En tók mér síðan gott sumarfrí og notaði það til að sofa og hvílast og reyndi að halda mig sem mest frá samtökunum. Og tókst að finna minn styrk aftur þó það vissulega taki smá tíma að byggja upp þrek. En ég lærði að þó ég vissulega vilji gera allt sem hægt er verð ég fyrst og fremst að hugsa um að setja súrefnisgrímuna á sjálfa mig áður en ég rétti næsta manni hana. Hef síðan reynt að passa mig á að taka mér góða frídaga inn á milli til að hlaða batteríin. En það gefur mér líka mikið að geta hjálpað þeim sem á þurfa að halda og svo sannarlega hefur þetta allt gefið mér mikið.
Ég hélt líka áfram að byggja sjálfa mig upp og vinna úr þessu öllu eins og fram kemur í öðrum skrifum mínum.
En hér getið þið séð viðtalið og dæmt sjálf hvernig til tókst.
Bloggar | Breytt 16.3.2018 kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
10.7.2008 | 20:24
Bros barnsins hefur áhrif á skap móðurinnar
Já svo segir ný rannsókn að bros barnsins efli gleði móðurinnar. Það er svo sannarlega satt og gleðin hér á bæ er oft mikil. Hún getur jafnvel verið óþarflega mikil á köflum. Tja kannski ekki óþarflega mikil gleði til í raun en þó getur verið erfitt að geta ekki annað en brosað eins og asni þegar þarf frekar að skammast aðeins í ákveðnu ungu stelpuskotti
Tökum dæmi: Stelpuskottið er allverulega ákveðin í að nýjasta klifurgrind heimilisins sé stofuborðið. Svosem kannski ekki hátt borð en einhvernvegin þarf nú að kenna þessari elsku að maður klifrar ekki upp á borð og situr þar (nema kannski helst ef maður býr á Tailandi). Mamman reynir að skammast smá í skottinu en verður verulega að hefta brosið (ef það yfir höfuð tekst að hefta það) þegar ákveðna unga daman argar bara á mömmu sína og stenur svo á gólfinu krossleggur hendur á brjósti (ekki spurja mig hvar hún lærði það) og heldur svo skammaræðu yfir mömmunni á sínu tungumáli og brosir svo sínu blíðasta og kinkar kolli. Hehehe ótrúlega kómískt að sjá get ég sko lofað ykkur að sjá 17 mánaða krakkagrislíng standa á gólfi með krosslagaðar hendur og hnykklaðar augabrúnir og skammast fyrir að fá ekki að gera það sem hún vill.
Annað dæmi var einmitt núna: Daman á jú að vera farin að sofa en er sko ekki aldeilis á því. Snuddan hefur fengið að fjúka nokkrum sinnum niður á gólf og svo heyrðust há hlátrasköll innan úr svefnherbergi. Jú daman er nefnilega að fatta að það er hægt að fara í kollhnís og var að reyna að æfa þetta inni í rúmi. Finnst þetta ótrúlega gaman og mamma þarf oft að hjálpa við slíkt athæfi á daginn því þetta er svo gaman. Mikill hlátur hjá okkur báðum við það. En það virðist nú ekki vera minna gaman að standa á fjórum fótum í rúminu og rugga sér fram og til baka og reyna að komast í kollhnís. Sem reyndar tekst mjög illa þar sem daman hlær svo að hún lekur niður. Hvernig á maður að skamma svona stelpuskott sem ætti að fara að sofa í stað þess að vera með leikfimisæfingar?
Þessi börn eru svo sannarlega yndisleg og vekja svo sannarlega mikla gleði - stundum of mikla já
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.7.2008 | 10:59
Komin heim eftir frábæra daga
Já við famelían skruppum í smá útilegu. Húsbandið fer að vinna aftur á morgun svo það var nú ákveðið að nýta síðustu dagana í sumarfríinu. Fórum á miðvikudag upp í Borgarfjörð og þar vorum við í sumarbústað hjá vinkonu okkar og var það nú bara yndislegt.
Í heita pottinum með litlum vini
Heimsóttum svo ættingja í Borgarfirðinum á fimmtudeginum og skottunni fannst nú ekki leiðinlegt að á einum staðnum voru litlir kettlingar og hvolpur sem sleikti hana í framan
Á föstudeginum var svo brunað norður í Dæli í Víðidal og helginni eytt þar á ættarmóti einu. Okkur þótti nú heldur súrt að fara úr 22° C hita og sól í Borgarfirðinum og koma í 10° C hita og þoku í Húnavatnssýslunni. En gaman var að hitta alla ættingjana og vermdi það hjartað í staðinn. Á laugardeginum kom svo sólin til okkar líka og vorum við í 20° C hita þá og svo sannarlega var það ekki slæmt. Skottunni þótti heldur ekki leiðinlegt að fá bara að vera í stutterma kjól og leggings, berfætt að skottast um næstum því eftirlitslaust. Hún trítlaði um svæðið syngjandi og trallandi og spjallaði við frændfólkið sitt og klappaði þeim ferfætlingum sem á svæðinu voru. Það þarf nú að klappa þeim líka.
Í gær var svo ekið heimleiðis og var það örþreytt fjölskylda sem kom heim um sexleitið og voru nú allir á heimilinu sofnaðir mjög snemma í gærkvöldi.
Í dag er svo meiningin að taka því bara rólega og njóta félagsskapar við bróa minn og hans famelíu en þau eru að hverfa aftur til Noregs í fyrramálið.
PS. Takk fyrir allar yndislegu kveðjurnar ykkar við síðustu færslu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
1.7.2008 | 19:02
Leyndarmál afhjúpað
Já hér er leyndarmálaafhjúpun í gangi. Ég hef nefnilega verið að spá í það síðustu dagana hve skrítið er hvað sumt getur setið ótrúlega í manni þó það virðist ekki vera markvert þegar það gerist eða sé í raun smáatriði. Þannig er eitt atriði eða réttara sagt setning sem situr rosalega í mér eftir skjálftann og ég segi í dag að ég veit alveg hvenær næsti skjálfti kemur Og hvers vegna veit ég það þá? Tja til að útskýra það þarf ég að segja söguna um leið og ég svo ljóstra upp smá leyndarmáli
Eftir skjálftann hitti ég fyrir 2 einstaklinga á tali og blandaði mér í tal þeirra. Önnur þeirra talaði til dæmis um að hún hefði alltaf verið logandi hrædd og nærri viss um það þegar hún gekk með sín börn að sá stóri kæmi þegar hún væri á fæðingardeildinni og gæti alls ekkert gert nema vona það besta og halda áfram að rembast - ekki séns að hlaupa neitt í þeim aðstæðum Þær stöllur hlógu að þessu en ég bara þagnaði. Hvers vegna þagnaði ég þá? Og hvenær kemur þá næsti skjálfti.
Jú þessi setning situr mikið í mér og ég er núna fullviss um að næsti skjálfti verði ca um miðjan nóvember
Ástæðan er þessi litli einstaklingur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
26.6.2008 | 09:40
Verðublíða
Já eitthvað er lítið verið innivið þessa dagana og setið við tölvu. Miklu betra og skemmtilegra að nýta góða veðrið og vera úti Enda er veðrið nýtt bæði til að vera úti og bara slappa af og njóta og svo er einnig búið að bera á pallinn, þvo bílinn og á að fara í að lagfæra fortjaldið á fellihýsinu í dag. Ekki slæmt að fá svona gott veður í þetta allt.
Fylgist nú samt smá með því sem þið skrifið þó ég nenni nú ekki mikið að blogga sjálf.
Hafið það gott í góða veðrinu elskur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
20.6.2008 | 18:20
Þegar heimilið hættir að vera griðarstaður
Þetta hefur verið mér ofarlega í huga síðustu vikur og eitthvað sem ég hef hugsað mikið um. Heimili manns á jú að vera staður þar sem að maður finnur sig öruggan og verndaðan. Þar sem að maður finnur grið fyrir hættum og öðru sem maður vill ekki hafa í sínu lífi. Heimili manns á jú að vera sá staður sem að maður getur horfið til ef hætta eða óöruggi af einhverju tagi steðjar að manni og heimilið þá veitir manni tilfinningu um öryggi og ró og að maður sé verndaður fyrir flestu.
Tvisvar á ævi minni hef ég upplifað að heimili mitt hafi ekki reynst þessi griðarstaður. Ástæðurnar fyrir því eru mjög misjafnar en afleiðingin hefur verið að ég hef ekki fundið mig örugga á mínu eigin heimili. Þetta er mjög vond tilfinning get ég sagt ykkur. Hvert getur maður svosem flúið þegar manns eigið heimili veitir manni ekki það skjól sem það ætti að gera?
Í fyrra skiptið sem heimili mitt hætti að vera minn griðarstaður var ofbeldi orsökin. Andlegt-, líkamlegt-, og kynferðislegt ofbeldi það sem minn fyrrverandi beitti mig í mörg ár orsakaði jú að heimili mitt varð einmitt einn hættulegasti staðurinn sem ég gat verið á. Ég upplifði mig ekki örugga og reyndar þvert á móti - ég var ávalt hrædd á mínu eigin heimili og þar var mesta hættan á að ógnin (ofbeldið) steðjaði að mínu lífi. Ég man eftir þeirri tilfinningu að vera með þvílíkan kvíða og óttahnút í maganum þegar ég var á leið úr vinnu eða örðu heim til mín. Það er langt í frá eðlilegt ástand þegar maður óttast það sem felst innan veggja heimilis síns í stað þess að það veiti manni öryggi. Ég man þá tilfinningu að vera alltaf með augun og eyrun upp á gátt til að reyna að meta hvort að hættan væri mikil eða ekki. Ég man þá tilfinningu að tipla á tám á mínu eigin heimili og óttast um líf mitt. Já svo sannarlega var heimili mitt ekki minn griðarstaður þessi ár og það tók mig langan langan tíma eftir skilnaðinn að finna mig örugga á mínu heimili. Það var eitthvað sem kom ekkert til baka einn, tveir og þrír eftir skilnaðinn heldur þurfti ég að vinna mikið í sjálfri mér til að heimilið yrði mér aftur griðarstaður.
Í seinna skiptið sem heimilið hætti að vera minn griðarstaður var jarðskjálfti orsökin. Náttúran er eitthvað sem við getum ekki stjórnað og því gjörsamlega ómögulegt að vita að heimili þitt verði örugtt fyrir slíku næstu mánuði eða ár eða alls ekki. Ég fann þessa tilfinningu eftir jarðskjálftann og sérstaklega fyrstu dagana. Ég fékk kvíðahnút í magann í hvert skipti sem ég þurfti að fara inn og vildi helst bara vera utanhúss. Heimili mitt var jú hætt að veita mér það öryggi sem það hafði veitt mér og ég óttaðist mest að annar stór skjálfti kæmi og heimili mitt gæti hreinlega orðið slysagildra með fallandi hlutum og öðru. Næstu daga á eftir var maður einmitt með eyru og augu galopinn að reyna að meta hvort slík hætta væri á ferðinni. Heimilið var í annað skipti hætt að vera minn griðarstaður. Ég hugsa að margir sunnlendingar viti um hvaða tilfinningu ég er að tala um að einhverju leiti allavega eftir slíkan skjálfta.
Þessi tilfelli eru hins vegar mjög ólík. Í fyrra skiptið endaði ég með að viðurkenna að heimili mitt yrði mér aldrei griðarstaður á meðan ég byggi með manni sem beitti mig ofbeldi og yllir því þar af leiðandi að mér stafaði hætta af því að dvelja á mínu eigin heimili. Ég vissi því að stórkostlegar breytingar yrðu að verða á lífi mínu ef ég ætti nokkurn tíman að verða örugg aftur. Í seinna skiptið komst ég hins vegar að því að ég átti mér í raun griðarstað þrátt fyrir að í byrjun væri hann ekki alveg innan fjögurra veggja heimilis míns - hann var hins vegar í því falinn að vera með fjölskyldu minni. Að finna að ég, maðurinn minn og litla skottið okkar vorum saman og heil á húfi. Það skipti ekki máli hvort staðurinn var fellihýsi, suðurland eða norðurland - öryggið fólst í að vera með fjölskyldu minni. Í seinna skiptið veit ég líka að þrátt fyrir að enn sé heimili mitt ekki fullkomlega orðinn sá griðarstaður sem hann var, því ég viðurkenni að enn er smá kvíðahnútur í maga mínum, þá veit ég að heimili mitt mun innan ekki svo langs tíma verða minn griðarstaður.
Bara smá hugleiðingar um hverjar orsakir geta verið fyrir því að heimilið hættir að vera griðarstaður manns. Gaman væri að fá smá hugsanakorn frá ykkur um þessi mál
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.6.2008 | 18:33
Útilega
Við litla famelían vorum að koma heim úr góðri ferð. Fórum á föstudaginn síðasta og fyrsta nóttin var á Reykjum í Hrútafirði. Síðan var haldið til Akureyrar og þar hittum við vini og fjölskyldu. Alltaf gott að koma til höfuðborgar norðurlands þó að ég viðurkenni vel að mig langi ekki til að búa þar. Ástæðan er sú sama og ég vil ekki búa í höfuðborginni okkar. Allt of stórt - ég vil frekar búa á minni stað eins og ég bý á í dag
Eftir þetta var ekið í Ásbyrgi. Hef aldrei komið þangað áður og verð að segja að þetta er þvílíkur töfrastaður. Algjör paradís sem ég svo sannarlega vildi að væri nær mér. Hvernig væri nú að við skiptumst á norðlendingar og sunnlendingar. Skiptum á Ábyrgi og Kirkjubæjarklaustri til dæmis? Getum skipt aftur eftir 5 ár eða svo. Allavega held ég að ég flytti lögheimili mitt í Ábyrgi um helgar og í fríium ef ég byggi nær.
Þjóðhátíðardeginum eyddum við svo í að skoða Dettifoss sem ég hef heldur aldrei áður séð. Þvílíkir kraftar sem þarna eru á ferð - úffffff og ekki alveg fyrir lofthræddu mig að fara þarna fram á brúnina En ég náði nú samt að taka fullt af myndum. Eftir þetta stopp var brunað á Mývatn. Verð nú að segja að vegurinn á milli Dettifoss og Grímstaða á fjöllum er þvílík hörmung. Algjört þvottabretti alla þessa leið eða um 25 km. Við þökkuðum allavega fyrir að vera ekki með fellihýsið í eftirdragi og mæli ég alls ekki með að vera þarna á ferð með slíkt í eftirdragi ef þið viljið ekki eiga á hættu að það hrisstist hreinlega í sundur.
En fallegt var á Mývatni eins og ávalt og fórum við meðal annars og gengum á Höfða. Það er einn af þeim fegurstu stöðum á Íslandi sem ég hef komið til verð ég nú bara að segja og þakka ég fyrir að þessi staður hafi fengið að halda áfram að vera opinn almenningi.
Húsavíkin var einnig skoðuð og er það nú eitt fallegasta bæjarpláss og snyrtilegasti bær sem ég hef séð.
Svo var rennt sömu leið til baka og áð í Húnaveri. Ætlunin var reyndar að gista í skagafirðinum en þar var svo hvasst að við þorðum ekki að reyna að reysa fellihýsið þar. Var þó aðeins betra í Húnaveri þó að hvasst væri.
Komum svo heim í dag og þó að þessi ferð hafi í alla staði verið frábær er nú alltaf best að koma heim - meira að segja þrátt fyrir skjálfta og slíkt
Flottur nýjasti svipur heimasætunnar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.6.2008 | 18:15
Yndislega sumarfrí
Já það er sko ekki slæmt að eiga sumarfrí í svona flottuð veðri Litla famelían er búin að vera í sumarbústað síðan á föstudag og var þar haldið upp á 40 ára afmæli húsbandsins um helgina. Nutum þess sko vel að vera í bústað og slappa af - bústaðurinn hefði þó mátt vera á norðurlandinu í stað á suðurlandinu svona upp á taugar frúarinnar
Svo er að þvo af sér og fleira og skoða veðurspánna og ákveða hvort maður eigi bara að vera heima hjá sér næstu daga eða fara eitthvað meira. Aldrei að vita hvað manni dettur í hug þegar maður er ekkert bundin af vinnu og með svona ferðaheimili í hlaðinu. Kannsi ég fari bara líka í eitthvað dekur til að reyna að ná úr mér spennunni og vöðvabólgunni sem ég finn greinilega fyrir eftir spennuna síðan í skjálftanum - væri ekki slæmt að fara í svona dekur eins og Ásdís bloggvinkona fór í
Sumarskvísa heldur betur montin með sig að vera farin að ganga
Frekar skrítið að vera berfætt í grasinu
Vatnið í heita pottinum var allt of heitt svo skottan fékk að sulla hér á meðan potturinn var kældur - var nú ekkert ósátt við það.
Bloggar | Breytt 13.6.2008 kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)