. - Hausmynd

.

Ekki alveg laust við hnút í maganum

Já það er ekki alveg laust við að það sé hnútur í maganum þegar maður hugsar ákkúrat ár til baka.  Sennilega muna flestir sunnlendingar nákvæmlega hvar þeir voru og hvað þeir voru að gera kl 15.45 fyrir ári síðan.

Alveg man ég það nákvæmlega og man næsta sólahringinn á eftir og rúmlega það mjög vel.  Var í vinnunni þegar skjálftinn reið yfir og verð að viðurkenna að ég er hrikalega hrædd við skjálfta síðan árið 2000 og ekki bætti síðasti skjálfti það ástand.  Þegar maður var búin að sjá að allt væri í lagi með alla í kring um mann í vinnunni var strax reynt að hefjast handa við að hringja í dagmömmu skottunnar minnar til að athuga með ástandið þar.  Náði þangað að lokum og hún sagði aðeins eina setningu: Komdu strax hér er allt í rúst.    Þið getið vel ímyndað ykkur hvort ég hljóp ekki út í bíl - gólaði á samstarfsfólkið að ég yrði að ná í skottuna og var bara vinkað bless því auðvitað skildu allir það.  Brunaði svo til dagmömmunnar og létti nú þegar ég sá hana úti á plani með öll börnin.  Allir heilir á húfi þá dagmamman væri hríðskjálfandi vegna sjokksins.  Ég segi það algjört kraftaverk að hún náði að koma börnunum og sjálfum sér út heilum á húfi því það var svo sannarlega ekki ofsögum sagt hjá henni að þar var allt í rúst.  Ég fékk líka annað áfall dagsins þegar ég sá ástandið á húsinu hennar þarna og gerði mér grein fyrir heppninni að allir sluppu ómeiddir.

Svo var farið aftur í vinnuna og sem betur fer var veðrið bara frábært þennan dag svo ekkert mál var að sitja úti.  Manni leið nú ekkert vel að vera þarna sjálfur í sjokki en þurfti nú að halda ró sinni skjólstæðinganna vegna og barnanna vegna.  Einnig var ekki góð tilfinning að vita ekkert hvernig heimili manns leit út eftir þetta.  Sennilega hefur sjokkið verið enn verra hjá mér vegna þess að ég var jú ófrísk þarna og full af hormónum Wink  Foreldrar mínir hringdu líka í mig en þau voru nýfarin í ferðalag og voru komin í bæinn.  Ég gat auðvitað ekki heldur farið heim til þeirra að athuga ástandið þar svo þau snéru við til að meta þetta sjálf.

Upp úr kl 6 fékk ég að fara heim að skoða ástandið þar - það var jú mikið á gólfum og slíkt en þegar betur var að gáð skemmdist ótrúlega lítið.  Skemmdirnar voru þó það miklar að tryggingarnar mátu þær á hátt í milluna.  En við vorum öll heil á húfi og það var fyrir mestu.  Fellihýsið okkar stóð fyrir utan svo það var bara ákveðið að tjalda því og vera þar um nóttina.  

Nóttina eftir kom mér ekki dúr á auga vegna þess að sífelldir eftirskjálftar voru sem og að ég var með mikla verki og skelfingu lostin að ég væri nú að missa barnið mitt Crying  Hringdi í ljósmæður snemma morguns og var sagt að hafa hægt um mig og liggja bara fyrir næstu daga helst og láta aðra um alls sem þyrfti.  Jahá það var þá auðvelt með allt í rúst, litla dömu sem var það sjokkuð að hún var eins og límd við lærið á manni og skreið upp í fangið á manni við minnsta hávaða eða annað sem var óvant.  Einnig var hringt í mig úr vinnunni og sagt að staðurinn var opnaður aftur og þurfti ég því að mæta á næturvakt.  Ég gat ekki hugsað mér að sleppa því og láta það þá bitna á vinnufélögunum sem ég vissi að væru í ekkert  minna sjokki en ég og sumir með húsnæðið og annað í rúst.  Mætti því á næturvaktina algjörlega ósofin - já maður hugsar stundum ekki því auðvitað átti ég alls ekki að mæta.  En allt fór þetta nú samt vel og stubbur litli hélt sér nú fast þrátt fyrir þessa óþekkt í mömmunni Smile

Ég var búin að losa mig við síðustu vaktina fyrir sumarfrí sem átti að vera þarna um helgina því við ákváðum að skella okkur vestur á Patró á sjómannadaginn þar.  Það held ég einmitt að hafi bjargað miklu af minni geðheilsu þarna að komast af svæðinu og ná aðeins að róa mig niður.  

En þrátt fyrir að ár sé liðið situr óttahnútur í maganum í dag.  Dæmi um það er að í gær komu svakalegar þrumur hér beint yfir og hrökk ég í kút því fyrst hélt maður að það væri hreinlega að koma skjálfti - mjög svipaður hávaði og sá sem kom á undan skjálfta.  Var þó fljót að átta mig á að það fylgdi enginn hrisstingur en þetta er samt dæmi um hve hjartað er fljótt að taka óttakipp ef eitthvað minnir á skjálfta.  Get líka ekki annað en hugsa um að ég á jú 2 lítil börn sem enga björg sér veita sjálf í svona aðstæðum svo maður óttast að geta ekki bjargað þeim frá fallandi hlutum og slíku - já já óþarfa stress segir örugglega einhver - en svona er nú mömmuhjartað Tounge

Já ég man svo sannarlega hvar ég var fyrir ári síðan - manst þú það??


mbl.is Ár liðið frá jarðskjálftanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilma Kristín

Þó ég hafi verið í Reykjavík, nánar tiltekið Grafarholtinu, man ég nákvæmlega hvar ég var. 

Ég sat í stólnum mínum í vinnunni og við heyrðum skjálftan koma, mjög skrítið.  Svona óþægilegur hávaði sem kom nær og nær og maður vissi ekki hvað var í vændum.  Við fundum skjálftan mjög vel, þó þetta hafi alls ekki verið neitt í líkingu hvernig hann var á suðurlandinu.

Ég held að ég hafi upplifað meiri skelfingu en flestir vinnufélagar mínir þar sem ég er uppalin á suðurlandinu, í sífelldum ótta við "suðurlandsskjálftan".

Vilma Kristín , 29.5.2009 kl. 10:25

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 29.5.2009 kl. 10:27

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Er líka að hugsa um þetta 

Ásdís Sigurðardóttir, 29.5.2009 kl. 14:49

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og ljúfar kvöldkveðjur :)

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 30.5.2009 kl. 23:46

5 Smámynd: www.zordis.com

Það er skiljanlegt að þið hafið verið með kvíða í öllum frumum líkamans. Móðurhjartað berst fyrir börnunum sínum og það er eðlilegt að hugsa um hvernig við bregðumst við með 2 lítil börn. Samt þá verðum við ótrúlega sterk þegar á reynir og rötum rétta leið út úr aðstæðum.

Með trúnni þá bætum við margt! Knús og kossar á ykkur hjónin og litlu prakkarana þína.

www.zordis.com, 1.6.2009 kl. 13:43

6 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð

Þetta var hrikalegt en sem betur fer var stúlkan þín heil og allir sem voru hjá dagmömmunni.

Vona að þetta hafi verið svokallaður "Suðurlandsskjálfti" sem kemur c.a. einu sinni á öld og að þið þurfið ekki að lenda aftur í þessu. En við vitum ekkert um það.

Vona að það verði friður í jarðskorpunni.

Guð veri með ykkur

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 2.6.2009 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband